Henry Kissinger 100 ára hefur margt til mála að leggja

Það er ekki á hverjum degi sem færi gefst að lesa viðtal um alþjóðamál við mann sem hefur jafn langa og yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á því sviði og fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Henry Kissinger. The Wall Street Journal birti nýtt viðtal við hann um helgina, en á laugardag fagnaði hann aldarafmæli sínu og á viðtalinu má sjá að hann fylgist enn vel með alþjóðamálum og hefur á þeim sterkar skoðanir sem full ástæða er til að íhuga þó að með því sé vitaskuld ekki sagt að þær séu óumdeilanlegar.

Lífshlaup Kissingers er óvenjulegt. Hann fæddist í Þýskalandi árið 1923 og var gefið nafnið Heinz Alfred Kissinger. Ungur upplifði hann uppgang nasismans en árið 1938 flúði hann með foreldrum sínum til Bandaríkjanna. Þar var hann kvaddur í herinn, sneri aftur til Þýskalands og barðist þar við fyrrverandi landa sína. Að stríði loknu lauk hann námi í alþjóðastjórnmálum og fjallaði mjög um þau málefni í framhaldinu, sem leiddi svo til þess að hann var gerður að yfirmanni þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna í tíð Nixons forseta árið 1969. Fjórum árum síðar skipaði Nixon hann utanríkisráðherra og hann gegndi því embætti einnig í forsetatíð Fords þar til henni lauk í janúar 1977. Alla tíð síðan, í hátt í hálfa öld, hefur hann verið eftirsóttur álitsgjafi um alþjóðamál og ráðgjafi, í Bandaríkjunum og víðar.

Armen Sargsyan, sem gegndi embætti forseta Armeníu á árunum 2018-2022, en Armenía var á sínum tíma hluti Sovétríkjanna, rifjaði einmitt upp kynni sín af Kissinger í tilefni afmælisins. Hann segist hafa nýtt sér skrif hans en einnig kynnst honum persónulega og leitað ráða hjá honum. Áhugavert er að lesa vangaveltur Sargsyan um þá gagnrýni sem Kissinger hlaut fyrir að vilja aukin samskipti við Sovétríkin á áttunda og níunda áratugnum. Margir hafi gagnrýnt slíkt, en Kissinger hafi ýtt stjórnvöldum í Moskvu í átt að því að samþykkja afvopnunarsamninga sem hafi tryggt frið á milli risaveldanna tveggja. „Ég var unglingur í Sovétríkjunum á þeim tíma og ég man glöggt eftir þeirri bjartsýni sem betri samskipti á milli Moskvu og Washington leiddi af sér,“ skrifar Sargsyan.

Þekktastur er Kissinger þó eflaust fyrir að hafa átt þátt í því að Nixon tókst að breyta samskiptum Bandaríkjanna og Kína til hins betra, en fram að því hafði sú þíða verið talin nánast óhugsandi. Þetta var ekki einfalt skref eða auðvelt en í meginatriðum jákvætt. Nú er þó svo komið að ástæða er til að hafa áhyggjur af því hvernig samskipti Kína við Bandaríkin og önnur Vesturlönd hafa þróast. Kissinger hefur einnig af þessu áhyggjur en telur að beita þurfi lagni sem skort hafi á að undanförnu hjá Bandaríkjunum. Hann hefur litlar áhyggjur af að Kína ætli sér mikil áhrif utan Asíu, en efast má um það mat hans. Kína vilji hins vegar hafa áhrif innan Asíu. Tvö vandamál koma þó iðulega upp í samskiptunum við Kína, auk ýmissa annarra raunar, sem Kissinger ræðir sérstaklega. Hann nefnir að best sé að leysa deiluna um hafið á grunni alþjóðalaga, sem er eflaust æskilegt ef unnt er, en að lausnin á deilunni um Tævan verði best leyst með tímanum. Eina leiðin sem hann sér út úr þeirri deilu er með öðrum orðum að ná samkomulagi við Kína um að gera ekkert og láta tímann líða. Mögulega er það eina leiðin þó að óvíst sé að núverandi forseti Kína, sem Kissinger segir sterkari alþjóðlega en nokkurn fyrri leiðtoga Kína, eða aðrir sem mest hafa um þetta að segja hafi þolinmæði í þessa leið.

Þá er umhugsunarvert það sem hinn aldni álitsgjafi bendir á, en það er að „óreiða“ einkenni ástand heimsmála nú um stundir. Hann telur að öll áhrifamestu ríkin séu óviss um stefnuna í grundvallaratriðum og mikil óvissa sé vegna samkeppninnar á milli Bandaríkjanna og Kína og hvernig önnur ríki stilli sér upp í því sambandi. Þá spilar stríðið í Úkraínu vissulega inn í stöðu heimsmála nú, en Kissinger telur að þar þurfi niðurstaðan að verða að Úkraína gangi í NATO, nokkuð sem hann taldi áður óráð og telur raunar að hafi valdið innrásinni. Þá þurfi Úkraína að halda öllu landsvæði sínu, fyrir utan Krímskaga, en hann telur að missir Sevastopol yrði slíkt áfáll fyrir Rússland að það kynni að ógna ríkinu, sem sé ekki æskileg niðurstaða eftir stríðið í Úkraínu. Það jákvæða er að hann telur að innrásin og gangur stríðsins verði til þess að Rússar láti ekki í bráð reyna aftur á innrás í nágrannaríki.

Ýmsum af sjónarmiðum þessa reynda manns mun mörgum þykja erfitt að kyngja og jafnvel fjarstæðukennd. En þau einkennast af þeirri „realpolitik“ sem Kissinger hefur verið þekktur fyrir og er í það minnsta þess virði að íhuga.