Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Alþingi verður fyrst þjóðþinga í heiminum til þess að fordæma umfangsmikil barnarán Rússa á hernámssvæðum í Úkraínu, verði þings-
ályktunartillaga utanríkismálanefndar samþykkt, en hún hefur verið tekin á dagskrá þingsins á morgun.
Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar, átti frumkvæði að tillögunni og nýtur stuðnings fulltrúa allra stjórnmálarflokka í nefndinni, en talið er að um 20 þúsund úkraínskum börnum hafi verið rænt af Rússum og verið ættleidd eða komið í fóstur hjá rússneskum og rússneskumælandi fjölskyldum, bæði á hernumdum svæðum í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi (Belarús). Mörg þeirra hafa sætt harðræði og kynferðisofbeldi, en meginmarkmiðið virðist að slíta á úkraínskar rætur þeirra.
„Þarna er verið að taka börn þúsundum saman, fara með þau og ala þau upp sem eitthvað allt annað en þau eru, reynt að afmá fjölskyldutengsl, tungumál, menningu og þjóðarvitund,“ segir Bjarni.
„Sum þessara barna hafa misst foreldra sína, það er búið að drepa þá, stundum hafa foreldrarnir verið teknir til fanga og sumum börnunum er sagt að foreldrar þeirra hafi yfirgefið þau eða vilji hafna þeim. Alger hryllingur.“
Brýnt að taka málið upp
Bjarni segir mikilvægt að taka málið upp og segir Úkraínumenn þess hvetjandi að Rauði krossinn láti sig málið varða. Skrá þurfi börnin eftir föngum, svo unnt verði að endurheimta þau síðar og koma til síns heima eða til ættingja eftir atvikum.
„Það þarf að mótmæla þessum stríðsglæpum og stöðva þá,“ segir Bjarni, en hann hefur verið í miklum tengslum við Úkraínumenn, ekki síst á vettvangi Evrópuráðsins.
Þessu athæfi Rússa hefur verið mótmælt á alþjóðavettvangi, þar á meðal hjá Evrópuráðinu og Sameinuðu þjóðunum, en það er m.a. grundvöllur handtökuskipunar stríðsglæpadómstólsins á hendur Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Til þessa hafa þjóðþing þó ekki beitt sér í því, en tilhneigingin hefur verið að eftirláta framkvæmdavaldinu slíkt.
„Ég hef fengið stuðning úr öllum flokkum við þessa þingsályktunartillögu og það er utanríkismálanefnd öll, sem ber hana fram,“ segir Bjarni. Hann bætir við að tillagan hafi verið borin undir bæði utanríkisráðherra og forsætisráðherra, sem ekki hafi gert neinar athugasemdir við tillöguflutninginn.
Bjarni er nýkominn af stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsins í Riga, en þar lét Olena Selenska, forsetafrú Úkraínu, m.a. til sín taka. Hann segir að fulltrúar Úkraínu þar hafi verið mjög áfram um tillöguna. „Þau sögðu að frumkvæði Íslendinga skipti miklu máli og vonandi færu fleiri þjóðþing að því fordæmi.“
Þingsályktun
Skýr tillaga
Þingsályktunartillaga utanríkismálanefndar er mjög ótvíræð, en þar er lagt til að Alþingi fordæmi „harðlega ólöglegt og kerfisbundið brottnám úkraínskra barna á hernumdum svæðum rússneska hersins í Úkraínu“, sem brjóti „í bága við alþjóðleg mannúðarlög og telst stríðsglæpur“. Tryggja verði „með öllum tiltækum ráðum […] að þeim börnum sem flutt hafa verið til Rússlands eða Belarúss, eða innan hernuminna svæða í Úkraínu, verði tafarlaust komið til foreldra sinna eða annarra forráðamanna […] og að rússnesk stjórnvöld og aðrir gerendur verði dregin til ábyrgðar.“