Ljósmyndir Sigrún Alba Sigurðardóttir skrifar um áhrif og hlutverk ljósmynda í Snjóflygsur á næsturhimni.
Ljósmyndir Sigrún Alba Sigurðardóttir skrifar um áhrif og hlutverk ljósmynda í Snjóflygsur á næsturhimni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eplið Ég hafði eplið með mér heim í ferðatösku síðasta sumar. Það var lítið, safaríkt, grænt. Þegar ég var barn borðaði ég fyrst og fremst græn epli, skorin í örþunnar sneiðar, klemmd á milli tveggja franskbrauðssneiða, örlítið volg en enn safarík…

Eplið

Ég hafði eplið með mér heim í ferðatösku síðasta sumar. Það var lítið, safaríkt, grænt. Þegar ég var barn borðaði ég fyrst og fremst græn epli, skorin í örþunnar sneiðar, klemmd á milli tveggja franskbrauðssneiða, örlítið volg en enn safarík eftir að hafa velkst um í skólatöskunni fram að frímínútum.

Ég kreppi lófann utan um litla græna eplið. Það er farið að þorna upp en er enn hart viðkomu. Ég kem því fyrir úti í glugga í borðstofunni. Fyrir utan falla snjókornin mjúklega til jarðar. Þetta er kaldur og blautur dagur. Eplið veitir mér huggun. Felur í sér fyrirheit um nýtt sumar og geymir í sér minningar. Dóttir mín hafði stækkað en mér tókst samt að lyfta henni nógu hátt upp þannig að hún næði fótfestu í trénu. Hún teygði sig í eplið, setti það í vasann og hoppaði niður í garðinn.

Eplið þornaði smám saman upp. Yfirborðið varð grófara, skorur mynduðust. Það var ekki lengur þægilegt að taka það upp, fela það í lófanum. Það minnti mig á hvernig húðin á ömmu minni varð smám saman hrufóttari, þurrari. Fellingarnar söfnuðust upp. Það var örlítið óþægilegt að strjúka henni um kaldan og þurran vangann, en ég gerði það samt. Ég handleik eplið í hinsta sinn og hugsa um tímann. Tek ljósmynd af því á símann minn. Set skorpnaðan ávöxtinn svo í ruslið frammi í eldhúsi. Tveimur vikum síðar spyr maðurinn minn hvað hafi orðið um eplið. Dóttir mín spyr einskis.

Ljósmyndin af eplinu öðlast nýtt gildi. Ég virði hana fyrir mér og finn fyrir áferðinni, lyktinni – og minningunum.

Tíminn

Dóttir mín fæddist þegar kastaníutrén voru í blóma. Ég lá í hvítri sjúkrastofu og horfði út um gluggann. Fylgdist með breytingunni dag frá degi. Tíminn í plönturíkinu líður ekki á sama hátt og hinn mannlegi tími. Í plönturíkinu gerast hlutirnir hægt. Blóm teygir sig í átt til sólar, springur út, ekki með ógnarhraða heldur ofurhægt og varlega. Ítalski náttúruvísindamaðurinn Stefano Mancuso heldur því fram að skilningsleysi okkar á innihaldsríku lífi plantna stafi meðal annars af því hversu erfitt við eigum með að skilja hvernig tíminn líður í plönturíkinu. Tíminn er afstæður og það er hreyfing okkar í rýminu þar af leiðandi líka. Hreyfing sem virðist vart marktæk í okkar tímarúmi getur verið afgerandi í heimi lífvera sem lifa tímann á annan hátt en við. Tímarammi kastaníutrjánna við Tagensvej í Kaupmannahöfn mótast ekki af talningu á klukkustundum, dögum, mánuðum, mannsævi, heldur er hann óháður því kerfi sem við höfum fundið upp til að festa hendur á tímanum.

Hinn mannlegi tími mótast annars vegar af því mælanlega kerfi sem við höfum búið til til þess að vera fær um að skilgreina tímann á skipulagðan hátt, sem tekur mið af náttúrunni og sólarganginum, og svo hinum upplifaða tíma eða hinum innri tíma. Á milli þessara tveggja tíma, hins mælanlega og hins innri lifaða tíma, er þó alltaf eitthvert samspil því að hinn ytri mælanlegi tími setur svip sinn á skynjun okkar á tímanum. Hver mínúta virðist sem heil eilífð þegar við bíðum óþreyjufull eftir einhverju og á öðrum stundum þýtur tíminn áfram á ógnarhraða. Í báðum tilvikum upplifum við ákveðið misræmi milli hins innri og hins ytri tíma. Það gerist þó stundum að við hreinlega losnum undan oki hins mælanlega tíma, rennum nánast saman við tímann og erum á slíkum stundum allt að því eitt með umhverfi okkar, samferðafólki eða náttúrunni sem umlykur okkur. Það er á slíkum stundum sem veröldin fær á sig ljóðrænan blæ. Upplifun okkar verður dýpri.

Hæfileikinn til að upplifa tímann á ljóðrænan hátt krefst þess að við dveljum skapandi í umhverfi okkar, að við veitum veru okkar sem hluta af einhverju stærra athygli, beitum ímyndunaraflinu til að gefa veruleikanum merkingu, líkt og barn eða ljóðskáld sem skynjar viðkvæma tilvist sína í heiminum. Í ljóðinu „Í undursamlegum bláma“ segir Friedrich Hölderlin: „Að fullu verðskuldað, en þó ljóðrænt, dvelur maðurinn á þessari jörð“ og ljóðinu lýkur á þessum orðum: „Lífið er dauði, og dauðinn er einnig líf.“ Í ljóðinu tengir Hölderlin saman dvöl mannsins á jörðinni, stjörnubjartan himininn og vanmátt okkar til að mæla það sem máli skiptir í heiminum. Þessi orð sem skrifuð voru fyrir um tvö hundruð árum eru mér hugleikin þegar ég horfi út um gluggann, virði fyrir mér berar trjágreinar í vetrarmyrkrinu og velti því fyrir mér hvort líf mitt yrði betra og innihaldsríkara ef ég legði mig fram um að dvelja ljóðrænt í borgarumhverfinu. Ég er ekki frá því að svo sé og stend því upp og fæ mér göngutúr í morgunkulinu.

Svölurnar í Arles

Kvöldhúmið var að færast yfir. Það var enn þægilega hlýtt úti og sterkur vindurinn frá Miðjarðarhafinu hafði ekki enn látið á sér kræla. Yfir höfði mér sveimuðu svartar svölur og á bak við mig var rómverska hringleikahúsið. Himinninn var enn blár en engu að síður mátti greina fullt tungl. Það voru fáir á ferli, handan torgsins var lágvaxin kona í rósóttum kjól að draga rimla fyrir búðarglugga, túristarnir voru ekki mættir. Ég var stödd í bænum til að halda fyrirlestur um íslenska samtímaljósmyndun. Þetta var fimmtudagur í maí árið 2019 og dóttir mín átti afmæli. Ég fékk sting í brjóstið. Hvers konar móðir var ég að taka vinnuferð fram yfir afmæli dóttir minnar? Ég fann tómleikann hellast yfir mig en svölurnar drógu mig út úr eigin hugleiðingum og samviskubiti. Ég horfði til himins. Þær hnituðu hringi, sungu sinn vorsöng, tugum saman, jafnvel hundruðum. Ó, að ég gæti deilt þessu augnabliki með þeim sem ég elska. Ég tók upp símann. Tók nokkrar myndir. Þær náðu þessu engan veginn. Ég tók upp hljóð. Það heppnaðist betur. Fær mig til að brosa tveimur árum síðar en segir öðrum lítið. Sumar minningar á maður bara einn með sjálfum sér. Næstu daga mætti ég á torgið snemma morguns og seint að kvöldi, gekk meðfram Rón í morgunbirtunni. Svölurnar fylgdu mér hvert sem ég fór. Ég hafði áður dvalið í bænum um lengri og skemmri tíma en aldrei fyrr á þessum árstíma. Ég hafði aldrei fyrr upplifað svölurnar í Arles.

Þegar ég kom heim reyndi ég að segja frá og endurvekja þessa djúpu tilfinningu og þessi sérstöku tengsl sem ég myndaði við umhverfið í síðdegishúminu framan við hringleikahúsið og í kyrrðinni snemma morguns þegar ég gekk meðfram ánni. Við töluðum um annan göngutúr sem farinn var meðfram Rón snemma morguns fyrir mörgum árum. Þá vöknuðum við jafnan klukkan sjö til þess að ná að fara út í morgunkulið áður en hitamolla síðsumarsins lagðist yfir. Ég sagði að þau yrðu að koma með mér til Arles næsta vor. Þau yrðu að upplifa svölurnar, sjá þær sveima um bæinn, syngja sinn vorsöng, áður en ferðamennirnir mættu á svæðið og eignuðu sér bæinn eins og þeir gerðu á hverju sumri. Þetta yrði að vera um vor og þetta yrði að vera á virkum degi. Nokkrum mánuðum síðar bókaði ég flugmiða fyrir okkur öll, mig, manninn minn, dæturnar þrjár og tengdasoninn. Þetta átti að verða ferð sem myndaði sterka vörðu í sameiginlegum minningum okkar. Nokkrum dögum eftir að ég bókaði ferðina, í febrúar árið 2020, greindist fyrsta Covid-smitið á Íslandi.

Ég hef þó ekki gefið upp alla von um að ég geti vakið þau öll snemma morguns á björtum degi við óshólma Rónar. Þá munum við sitja saman á tröppunum fyrir framan hringleikahúsið og hlusta á vorsöng svalanna í Arles. Um þetta hugsa ég á hverju vori.