Leitað skjóls Íbúar Kænugarðs leituðu sér skjóls í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar eftir að Rússar skutu ellefu eldflaugum á miðborgina að degi til, og voru allar skotnar niður. Óvenjulegt er að Rússar geri árásir í dagsbirtu.
Leitað skjóls Íbúar Kænugarðs leituðu sér skjóls í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar eftir að Rússar skutu ellefu eldflaugum á miðborgina að degi til, og voru allar skotnar niður. Óvenjulegt er að Rússar geri árásir í dagsbirtu. — AFP/Sergei Supinsky
Kiríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustu Úkraínuhers, hét því í gær að Rússar myndu finna fljótlega fyrir svari Úkraínumanna vegna stöðugra loftárása þeirra á Kænugarð, en rússneski herinn gerði tvær árásir á borgina í gær

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Kiríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustu Úkraínuhers, hét því í gær að Rússar myndu finna fljótlega fyrir svari Úkraínumanna vegna stöðugra loftárása þeirra á Kænugarð, en rússneski herinn gerði tvær árásir á borgina í gær. Var seinni árásin að degi til og var eldflaugunum jafnframt miðað á miðborg Kænugarðs, en hingað til hafa árásirnar verið að næturlagi, auk þess sem þær hafa beinst að innviðum eða loftvarnarkerfum í úthverfum borgarinnar.

Íbúar Kænugarðs leituðu skjóls, meðal annars í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar, en einungis einn særðist í árásinni. Úkraínski flugherinn sagði í tilkynningu síðar að Rússar hefðu skotið ellefu Iskander-eldflaugum á borgina, og hefði tekist að skjóta þær allar niður. Logandi brak úr flaugunum lenti hins vegar á íbúðarhúsnæði í miðborginni og kveikti í því. Þetta var sextánda loftárás Rússa á Kænugarð í maímánuði, en þeir gerðu m.a. tvær stórar drónaárásir um helgina.

Stutt bið eftir svari

Búdanov sagði að árásir Rússa hefðu engin áhrif á íbúa höfuðborgarinnar, sem reyndu að láta lífið hafa sinn gang þrátt fyrir allt. Sagði Búdanov að hann vildi hryggja stuðningsmenn Rússa með því að fólk hefði haldið áfram að vinna eftir árásina, sem hófst um ellefuleytið fyrir hádegi að staðartíma. „Allir þeir sem reyndu að ógna okkur og létu sig dreyma um að það myndi hafa áhrif, þið munuð sjá eftir því mjög fljótlega,“ sagði Búdanov og bætti við að ekki myndi þurfa að bíða lengi eftir svari Úkraínumanna.

Serhí Popkó, yfirmaður hersins í Kænugarði, sagði að árás Rússa sýndi að þeir vildu deyða óbreytta borgara, þar sem hún hefði átt sér stað á þeim tíma þegar sem flestir væru á ferli eða í vinnu. Þá sögðu borgaryfirvöld að um 41.000 manns hefðu leitað sér skjóls í neðanjarðarlestarkerfinu.

Hæfðu herflugvöll

Fyrr um nóttina skutu Rússar allt að 40 eldflaugum og um 35 sjálfseyðingardrónum á Kænugarð, og tókst að skjóta meirihluta beggja niður að sögn Valerís Salúsjní, yfirmanns allra herja Úkraínumanna.

Ekki tókst þó að koma í veg fyrir allan skaða af völdum árásarinnar, þar sem Úkraínumenn gengust við því að Rússar hefðu hæft herflugvöll í Kmelnitskí-héraði, og náðu þeir að valda skaða á fimm flugvélum.

Beita Íran þvingunum

Úkraínska þingið samþykkti í gær refsiaðgerðir á hendur Írönum vegna stuðnings þeirra við innrás Rússa, en stjórnvöld í Íran hafa verið sökuð um að hafa sent Rússum fjöldann allan af Shahed-sjálfseyðingardrónum. Hafa Rússar beitt drónunum óspart undanfarnar vikur, meðal annars í drónaárásunum stóru um helgina.

Sagði í tilkynningu þingsins á heimasíðu þess að með aðgerðunum tækju Úkraínumenn sér stöðu með hinum gervalla siðmenntaða heimi til að einangra Íran. Beinast refsiaðgerðirnar einkum gegn vörum sem nýtast bæði til hernaðar sem og borgaralegra verkefna.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lagði frumvarpið fram fyrir helgi, og spurði þá hvers vegna Íranar vildu vera samsekir Rússum og hryðjuverkum þeirra. Mikhaíló Podoljak, ráðgjafi Selenskís, bætti um betur á sunnudaginn og sagði að Íran væri undir stjórn hryðjuverkamanna.