Stefán Jóhann Júlíusson fæddist á Akureyri 7. febrúar 1957. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 17. apríl 2023.

Foreldrar hans voru Júlíus Bogason, f. 2.12. 1912, d. 14.4. 1976, og Hrafnhildur Finnsdóttir, f. 1.11. 1921, d. 15.6. 1988. Stefán var yngstur sex systkina, hin eru: Vilborg, f. 20.10. 1941, d. 10.11. 2018, Finnbogi Brynjar, f. 21. 1. 1944, d. 11.7. 2009, Jónína Guðný, f. 23.1. 1946, d. 4.6. 2009, Svandís, f. 7.6. 1949, búsett í Ástralíu, og Haraldur, f. 18.10. 1951, d. 27.12. 2020.

Útför fór fram í kyrrþey.

Stebbi var með ómælanlega greindarvísitölu og einstaklega vel minnugur, hann mundi alla afmælisdaga og reiknaði út fæðingartölur og mundi þær líka í ofanálag. Fyndinn, glettinn, velviljaður, hugulsamur og traustur vinur. En eins glaðlegur og Stebbi gat verið þá fór hann ekki varhluta af því alvarlega meini sem tvíhverf lyndisröskun getur verið. Þrátt fyrir alvarleg veikindi á löngum köflum bar hann þá byrði af einstöku æðruleysi og aldrei heyrði maður hann kveinka sér undan þeim byrðum sem andleg og líkamleg vanheilsa lagði á hann. Við sem þekktum Stebba vissum að hann myndi fljótt leika á als oddi, jafnskjótt og fannfergið leysti og hann naut þess að lifa góðu stundirnar sem lífið gaf honum.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Minning þín lifir að eilífu í hjörtum okkar.

Þín vinkona,

Aðalheiður (Heiða).

Stórskáldið fagra er fallið frá.

Á lífsleiðinni kemst maður í kynni við fólk sem maður hefði ekki viljað vera án þess að fá að kynnast. Þetta þarf ekki endilega að vera fólk sem er náið manni eða mikil eða löng kynni en á einhvern hátt þá markar mikið í líf manns. Hann Stebbi var einn af þeim sem við erum óendanlega þakklát fyrir og fyllumst virðingu og nokkru stolti að hafa fengið að vera samferða þessa stuttu stund okkar og ber þar helst að nefna þegar hann eyddi sínum síðustu áramótum með okkur systrum, foreldrum, fjölskyldum okkar og vinum. Þar gerði hann vel við sig í mat og drykk, mjög sáttur við bjórinn sem var keyptur handa honum eftir hans ýtrustu leiðbeiningum. Hann skemmti sér afar vel og var skrafhreifinn og áhugasamur við fólkið í kringum sig. Þegar hann var dreginn heim kl. tvö um nóttina hafði hann orð á því að hann hefði bara aldrei verið svona lengi í samkvæmi áður og þakkaði innilega fyrir boðið.

Hann var slunginn og áhugaverð persóna sem vildi vita allt um alla og þeirra hagi. Hann fylgdist vel með hvenær eiginmenn okkar systra væru á sjó og hvort þeir kæmu heim i tæka tíð fyrir ýmis tilefni. Hann talaði um hversu góður kokkur Gylfi væri og hversu myndarlegur Stinni væri. Hann spurði iðulega um börnin okkar og hvað þau hefðu fyrir stafni, hann var duglegur að senda Kötu heim með teiknaðar „skrímslamyndir“ handa Matthildi og vill hún meina að hann hafi vitjað hennar rétt áður en hann kvaddi þar sem hún spurði örfáum klukkutímum áður en hann dó hvort Stebbi væri enn veikur og hvenær hann kæmi heim? Hann hefur sennilega verið að þakka henni þann kærleik og áhugasemi sem hún sýndi öllum teikningunum.

Stebbi var mikill áhugamaður um íþróttir enda var hann einstaklega góður í knattspyrnu sem ungur drengur að sögn pabba okkar. Hann tók sannarlega undir það þegar ég spurði hann að því: „ég var bestur,“ sagði hann og hló sínum mikla hlátri.

Kötu þótti líka einstaklega vænt um að hann vissi hvernig handboltaleikirnir hjá henni fóru og hvað hún hefði skorað mörg mörk.

Ég er afar þakklát, Stebbi minn, að hafa fengið að vera hjá þér síðustu stund þína sem var afar friðsæl og falleg, síðasti andardrátturinn tekinn undir tónum Elvis Presley „you lost that loving feeling“. Þín verður saknað með mörgum minningum og með bros á vör.

Þínar vinkonur,

Gígja og Katrín, næturvaktadrottningarnar.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann okkar er stórskáldið fagra, heimsins besti Elvis-söngvari, skákmeistari, spekingur mikill, þrautseigur, góðhjartaður, vel gefinn en samt svo ólýsanlegur hann Stebbi, eins og hann vildi að við kölluðum sig. Stebbi okkar var hrókur alls fagnaðar. Honum þótti gaman að segja frá allavega sögum og kom hann víða við. Okkur öllum þótti alltaf einkar skemmtilegt að hlusta á frásagnir hans. Án þín er frekar hljóðlegt og tómlegt. Við þökkum öll fyrir góð kynni. Stebbi, þú ert einn af þeim sem við munum aldrei gleyma.

Kær kveðja, fyrir hönd vina þinna úr Vallartúni,

Alda Hólm

Jóhannsdóttir.

Skál fyrir þér.

Þú ert búinn að kveðja,

eftir sitja ljóðin þín.

Þú kemur aldrei meir,

teiknar aldrei meir

né yrkir ljóð.

Þú hreina sál ert farin okkur frá,

við munum sakna þín.

Hver teflir við þig nú,

ég veit að þú ert kominn á góðan
stað,

en eftir sitjum við með sorg í
hjarta.

Sál þín var svo hrein,

margar minningar vakna.

Þú naust þess að hlusta á diskinn með Presley,

þú söngst með, með fullum krafti,

it’s now or never.

Þú átt alltaf stað í okkar hjarta,

nú ertu farinn til æðri heima.

Minning þín lifir í ljóðum þínum,

skál fyrir þér.

(Ragnheiður Sigurgeirsdóttir)

Kær kveðja.

Fyrir hönd vina þinna úr Lautinni,

Þórdís Björk Gísladóttir.

Stebbi var maður sem mér þótti strax vænt um frá fyrsta degi. Hann mundi allt, afmælisdaga allra tónlistarmanna og -kvenna og annarra sem hann spurði um og þekkti. Hann gaf mér töluna sex með einhverju reikningsdæmi sem enginn veit hvernig er reiknað og það skal bara vera svo. Stebbi var mér virkilega kær og gátum við gantast og hlegið að öllu. Hann var mikill Elvis-elskandi og sungum við oft hátt og snjallt „Love me tender“ eða „Can’t help falling in love“ saman meðan ég eldaði kvöldmatinn á kvöldvöktum þannig að byggingin hristist nánast og ótrúlegt er að engir gluggar hafi sprungið. Eina nóttina kallar hann á mig og taldi sjónvarpið sitt vera ónýtt, „það bara slökkti á sér“. Farið var yfir málin og skipt þrisvar sinnum um batterí í báðum fjarstýringum og öllum brögðum beitt. Þegar við höfðum svo klórað okkur í hausnum yfir þessu í að verða tvo tíma þá segir Stebbi: „Við erum ekki alveg í sambandi.“ Þá varð mér litið bak við sjónvarpið og sé þá að sjónvarpið sjálft var ekki í sambandi. Þessu gátum við hlegið að alla nóttina og alltaf þegar við hittumst. Stefán var engum líkur og mun hann ætíð eiga stað í hjarta mínu.

Þín vinkona,

Bertha Þórbjörg.