Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Hvað kostar að byggja nýja hafnaraðstöðu fyrir Norrænu á Reyðarfirði, Eskifirði eða Fáskrúðsfirði?

Guðmundur Karl Jónsson

Snjóflóðin á Mið-Austurlandi vekja spurningar um hvort heppilegra væri að ráðast í styttri göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, á undan Fjarðarheiðargöngum sem verða tímafrek og geta kostað yfir 50 milljarða króna. Í 640 m hæð á Fjarðarheiði veldur versnandi ástand því, að Seyðfirðingar hafa fundið fyrir enn meiri einangrun en þekkst hefur. Fyrrihluta ársins 2013 var heiðin lokuð í 30 daga, og illfær í 20 daga til viðbótar. Fyrir Seyðfirðinga og Héraðsbúa sem starfa í álveri Alcoa á Reyðarfirði skapar þetta vandræði, þegar blindbylur og mikil snjódýpt gera mönnum lífið leitt, þvert á allar veðurspár. Án Mjóafjarðarganga breyta nýju Norðfjarðargöngin engu fyrir viðkomustað Norrænu, Egilsstaði og Hérað ef bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs setur áfram traust sitt á Fagradal. Árangurslaust spurðu heimamenn fyrrverandi og núverandi þingmenn Norðausturkjördæmis, hvort þeir teldu það sjálfsagt að Seyðfirðingar skyldu næstu áratugina búa við þriggja vikna einangrun sem getur orðið óviðráðanlegt vandamál. Á Fagradal þurfa ökumenn líka að snúa við hvort sem ferjunni yrði siglt til Reyðarfjarðar eða Eskifjarðar. Tímabært er að allir þingmenn Norðausturkjördæmis svari því strax, hvort Seyðfirðingar geti stefnt stjórn Fjarðabyggðarhafna og Smyril Line sem reyna með undirboðum að ná Norrænu til sín. Framkvæmdirnar við hafnaraðstöðuna urðu alltof dýrar til að hægt sé að réttlæta brotthvarf ferjunnar frá Seyðisfirði. Ég spyr: Hvað kostar að byggja nýja hafnaraðstöðu fyrir Norrænu á Reyðarfirði, Eskifirði eða Fáskrúðsfirði þegar fjármagn fæst hvergi? Önnur spurning: Hvaða viðkomustað á Austfjörðum sjá stjórnir Fjarðabyggðarhafna og Smyril Line, sem telja áhættuna á Fjarðarheiði of mikla til að þær geti treyst á Seyðisfjörð, þegar ökumenn lenda líka í vandræðum á Fagradal? Um tvennt stendur valið, vilji Austfirðingar losna endanlega við tvo illviðrasama og snjóþunga farartálma. Það eru 13-14 km löng jarðgöng undir Fjarðarheiði, eða þrenn veggöng inn í Mjóafjörð sem rjúfa alla vetrareinangrun suðurfjarðanna, Mjóafjarðar, Seyðisfjarðar, og Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað við Egilsstaðaflugvöll. Til að brjótast út úr þessum vítahring skulu vegirnir á Fagradal og Fjarðarheiði víkja fyrir þessum samgöngumannvirkjum. Kristján L. Möller sem settist í stól samgönguráðherra að loknum alþingiskosningum vorið 2007, og vildi í nóvember 2008 skoða möguleika á jarðgangagerð milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, hefði strax átt að bregðast við áhyggjum heimamanna og svara því afdráttarlaust, hvort það sé verjandi að stjórn Fjarðabyggðarhafna geti boðið Seyðfirðingum birginn, til að hafa af þeim Norrænu með undirboðum. Slík framkoma er ólíðandi og magnar upp pólitískan hrepparíg sem skaðar samgöngumál fjórðungsins. Svona er hagsmunum Austfirðinga stefnt í óleysanlegan hnút, sem setur allar samgöngubætur í uppnám.

Fyrrverandi bæjarstjórnir Seyðisfjarðar áttu í tíð Halldórs Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, að bregðast hart við öllum ósannindum sem þingmenn Norðurlands eystra og vestra hlupu með í fjölmiðla til að skaða samgöngumál Austurlands. Þá fengu Siglfirðingar og Ólafsfirðingar fögur loforð frá þingmönnum Norðlendinga um að Héðinsfjarðargöng hefðu forgang á kostnað Austfirðinga. Í febrúar árið 1999 þoldu þessir sömu landsbyggðarþingmenn norðan heiða það illa þegar afgerandi meirihluti á Alþingi samþykkti tillögu Arnbjargar Sveinsdóttur um að næstu jarðgöng yrðu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Í hörðum deilum við Norðlendinga stóðu Austfirðingar uppi sem sigurvegarar. Árið 2000 snerust 93% Norðlendinga gegn Héðinsfjarðargöngum í tíð Sturlu Böðvarssonar, þáverandi samgönguráðherra, þegar þingmenn Norðurlands eystra og vestra voru gerðir ómerkir orða sinna. Andstöðu sína ítrekuðu þeir þegar ákvörðun Vegagerðarinnar um útboð Fáskrúðsfjarðarganga lá fyrir í desember 2002.

Hafi stuðningsmenn Axarvegar, Héðinsfjarðar- og Vaðlaheiðarganga á Austurlandi skömm fyrir skaðlega umfjöllun um samgöngumál Austfirðinga. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem vonsviknir kjósendur refsuðu í alþingiskosningunum 2013, reyndi allt til að fela staðreyndirnar um vetrareinangrun Seyðisfjarðar og ástandið á Fjarðarheiði þegar meirihluti þingmanna taldi tillögu Arnbjargar Sveinsdóttur um undirbúningsrannsóknir á jarðgangagerð undir þennan farartálma réttmæta.

Höfundur var farandverkamaður.

Höf.: Guðmundur Karl Jónsson