[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýverið hættu tveir starfsmenn FISK Seafood á Sauðárkróki störfum eftir að hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi, þau Stefanía Kristín Kristjánsdóttir og Gunnar Reynisson. Voru þau leyst út með gjöfum og kaffisamsæti haldið þeim til heiðurs

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Nýverið hættu tveir starfsmenn FISK Seafood á Sauðárkróki störfum eftir að hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi, þau Stefanía Kristín Kristjánsdóttir og Gunnar Reynisson. Voru þau leyst út með gjöfum og kaffisamsæti haldið þeim til heiðurs.

Stefanía hefur lagt stígvélin á hilluna, eins og það er orðað á vef FISK. Hún hefur unnið í fiskvinnslu meira og minna síðan 1971 er hún byrjaði í landvinnslu hjá FISK, eða í 52 ár. Undanskilja má eitt ár er hún vann á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki og annan eins tíma við barnagæslu. Frá 1982 var hún alfarið í fiskvinnslu hjá FISK.

Með nikku í láni

Stefanía segir almenna slökun taka nú við, barnabörnin fimm fái meiri tíma en áður og einnig kalli afdrep fjölskyldunnar á Skatastöðum í Austurdal á sig. Eiginmaðurinn hætti að vinna fyrir fimm árum, eftir langan starfsferil í Mjólkursamlagi KS.

„Ætli ég dútli ekki eitthvað í tónlistinni,“ segir Stefanía við Morgunblaðið en hún er með harmonikku í láni og stefnir einnig á að fá sér hljómborð til að glamra á.

Kokkurinn Gunnar

Gunnar Reynisson hafði um árabil unnið sem kokkur um borð í skipum Skagstrendings og síðar FISK Seafood. Hann byrjaði ungur til sjós, eða aðeins 15 ára, er hann fór á trillu með föður sínum.

Eftir það fór hann á Höfrung III. Árið 1978 hóf hann störf hjá Skagstrendingi á Skagaströnd og frá 1983 var hann kokkur um borð í Örvari og síðar Arnari HU.

Á vef FISK er haft eftir honum að lífið um borð hafi gengið sinn vanagang, áhafnirnar verið hörkuduglegar og gott fólk unnið með honum.

Segist Gunnar nú ætla að njóta lífsins með fjölskyldu sinni en barnabörnin eru orðin níu talsins. Hann ætlar einnig að ferðast um landið með hjólhýsið og taka því rólega.

Um áramótin voru alls 269 manns starfandi hjá FISK Seafood á Sauðárkróki og dótturfélaginu Soffanías Cecilssyni ehf. í Grundarfirði. Þar af voru 133 til sjós og 136 í landi. Á Sauðárkróki starfa 221 en 48 í Grundarfirði. Á tveimur árum hefur starfsmönnum FISK í landi fækkað um tæp 5% á meðan sjómönnum hefur fjölgað um 9%.

Kynslóðaskipti í gangi

Stefanía Inga Sigurðardóttir, gæða- og öryggisstjóri FISK Seafood, segir nokkur kynslóðaskipti hafa átt sér stað síðustu árin. Stór hópur heimamanna hafi verið að hætta, sem hafi unnið lengi hjá fyrirtækinu og haldið tryggð við það.

„Þetta fólk hefur veit okkur krafta sína í áratugi og það er ómetanlegt. Hér hefur fólk fengið að vinna lengur en til 70 ára og við boðið að minnka við sig starfshlutfall jafnt og þétt, allt eftir starfsgetu,“ segir Stefanía Inga.

Hún segir almennt mikla breytingu eiga sér stað í samfélaginu, margir vilji hætta 67 ára og fara að njóta lífsins með maka, börnum og barnabörnum.

Að sögn Stefaníu Ingu hefur hlutfall erlendra starfsmanna hjá FISK verið að hækka, eða úr 36% í 46% á tveimur árum. Lítil breyting á þjóðerni hafi þó orðið í röðum sjómanna. Í dag eru fjórir erlendir starfsmenn um borð í skipum FISK Seafood en fyrir tveimur árum var aðeins einn.