Pálína Eyja Þórðardóttir fæddist á Akranesi 24. maí 1966. Hún lést á krabbameinsdeild LSH 21. maí 2023 eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Foreldrar Pálínu Eyju eru Þórður Jónsson, f. 29. nóvember 1934, d. 29. október 2018, og Sigþóra Karlsdóttir, f. 25. september 1934.

Systkini Pálínu Eyju eru Þuríður, f. 3. febrúar 1954, d. 5. mars 2023; Karl, f. 31. maí 1955, maki Erna Haraldsdóttir, f. 8. mars 1957; Ragnheiður, f. 28. nóvember 1957, og Jón S., f. 28. nóvember 1963.

Pálína Eyja var gift Vagni Jóhannesi Jónssyni, f. 11. nóvember 1963. Foreldrar hans eru Jón Elías Vagnsson, f. 3. mars 1929, d. 26. janúar 2006, og Jóhanna Unnur Reimarsdóttir, f. 25. maí 1929, d. 25. mars 2016. Börn Pálínu Eyju og Jóhannesar eru: 1) Margrét Unnur, f. 18. nóvember 1995, maki Guðjón Dagur Diego Hjartarson, f. 19. júní 1994. Barn þeirra er Atlas Darri Diego Guðjónsson, f. 19. október 2022. 2) Jón Þór, f. 18. ágúst 1998. 3) Stella Þóra, f. 18. ágúst 1998.

Eftir grunnskóla stundaði Pálína nám við Fjölbrautaskólann á Akranesi í nokkrar annir en varð að hætta námi vegna endurtekinna læknisaðgerða á hné og endurhæfingar í kjölfar þeirra. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1988 og bjó þar síðan. Eftir að Pálína og Jóhannes hófu búskap árið 1991 starfaði hún innan heimilis og helgaði sig því og barnauppeldi eftir að börnin komu til. Dæturnar eru tvær og einn sonur sem er fatlaður, því gefur augaleið að starf Pálínu var ærið. Utan heimilisins fór mikill tími hennar og Jóhannesar í að berjast fyrir réttindum einhverfs sonar þeirra og var Pálína virk í starfi Umsjónarfélags einhverfra. Eftir að dæturnar fóru að æfa íþróttir hjá Fjölni varð hún stuðningsmaður númer eitt og hélt áfram óeigingjörnu sjálfboðastarfi hjá félaginu þó að dæturnar hættu að æfa. Hún gegndi trúnaðarstörfum hjá félaginu allt til dauðadags. Hún eignaðist marga góða vini í gegnum sjálfboðastarfið og var m.a. í svokölluðum tipp-hópi, sem hittist vikulega til að spá um úrslitin í ensku deildinni.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 2. júní 2023, klukkan 13.

Þegar þú greindist með krabbamein 15. febrúar 2023 tókstu því eins og hverju öðru áfalli sem þú hefur lent í yfir ævina. Ekki felldir þú tár heldur huggaðir þú mig. Við höfum farið í gegnum mörg erfið verkefni saman um ævina en þú hefur tekið þau heldur fleiri. Öll verkefni tókst þú á kassann og hélst áfram. Ef ég fór að tala um hve ósanngjarnt þetta væri sagðir þú oft: Er eitthvað betra að einhver annar hefði lent í þessu? Ekki ætla ég að telja verkefnin upp hér en mörg voru þau. Góðu stundirnar áttum við margar, þær geymi ég í hjarta mínu. Á síðustu vikum reyndir þú að fræða mig um andleg málefni sem þú kunnir svo vel, ég fór loksins að hlusta af athygli en ég vildi að ég hefði hlustað fyrir löngu þegar þú reyndir að fræða mig um þessi mál. En ég er viss núna að þetta líf hér á jörð er bara partur af löngu ferli sálarinnar. Það sá ég þegar þú varst að kveðja þennan heim. Þú lést mig sofa við hlið þér alla nóttina meðan þú varst að búa þig undir að fara í næstu vídd og svo þegar þú varst tilbúin þá vaktir þú mig og kvaddir svo fallega og varst farin. Nokkur önnur atriði sanna það fyrir mér að þú hafðir sko rétt fyrir þér í þessum andlegu málum. Ekki veit ég hvað ég á að segja meira því þú og ég vorum ekki mikið í því að bera okkar góðu og minna góðu stundir út í kosmósið heldur héldum við þeim fyrir okkur og okkar nánasta umhverfi. Ég skrifa mun meira um okkar stundir í hjarta mitt en á prent.

Farðu í friði í nýju víddina þína elsku Palla mín, ég mun sakna þín.

Þinn eiginmaður,

Jóhannes.

Þegar þú greindist með krabbamein þann 15. febrúar síðastliðinn grunaði okkur ekki hversu stuttan tíma við ættum eftir með þér. Þú barðist eins og hetja í veikindunum og héldum við alltaf í vonina um að þú myndir ná bata. Missirinn er mikill og eftir sitjum við með stórt skarð í hjartanu. Það er sárt að hugsa til þess að þú verðir ekki lengur með okkur og er söknuðurinn ólýsanlegur. Við eigum eftir að sakna brossins og hlýja faðmsins þíns. Við eigum eftir að sakna þess að horfa á fótbolta með þér, baka með þér, ferðast með þér og kúra með þér yfir sjónvarpinu að horfa á matreiðsluþætti. Þú varst fyrirmyndin okkar og alltaf til staðar. Það skipti engu máli hvað við báðum þig um, þú varst alltaf tilbúin að hjálpa og gafst okkur bestu ráðin. Þegar erfiðleikar komu upp stóðstu þétt við bakið á okkur og vísaðir okkur réttu leiðina. Þú varst kletturinn í lífi okkar. Við erum þakklát fyrir allar minningarnar og þær munu ylja okkur um ókomna tíð. Eins og þegar við horfðum saman á sólarupprásina á Tenerife eða þegar við gerðum kokteila og spiluðum uppi í sumarbústað og ekki má gleyma öllum ísbíltúrunum. Við munum sakna þess að hringja í þig þegar við erum ekki viss með hversu lengi kakan á að vera í ofninum, þegar okkur langar að ræða úrslit dagsins í enska boltanum eða hringja einungis til að heyra röddina þína og spjalla um allt milli himins og jarðar. En mest munum við sakna þess að knúsa þig eftir langan dag, því okkur leið aldrei betur en í þínum faðmi.

Við elskum þig endalaust og erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér þó svo að hann væri miklu styttri en við vildum.

Góða nótt, guð geymi þig, dreymi þig fallegustu drauma, við elskum þig.

Þín börn,

Margrét Unnur,
Jón Þór og Stella Þóra.

Elsku hjartans systir mín, það er svo óraunverulegt að vera að skrifa um þig minningargrein!

Lífið ákvað að taka skyndilega beygju þegar við töldum okkur vera að fara beint áfram, á fullri ferð inn í fallega framtíð. Við vorum búin að plana allskonar skemmtilega hluti út frá sameiginlegum áhugamálum og draumum. Nú er sú framtíð án þín – hvernig má það vera?

Strengurinn á milli okkar er einstakur, við vitum að við höfum verið lengi saman – þessi strengur nær út fyrir okkar jarðneska líf, við vitum það. Núna seinni árin áttum við sameiginlegan áhuga á andlegum málum, sóttum námskeið o.fl. sem tengdi okkur enn frekar saman á svo magnaðan hátt að við urðum oft agndofa. Vá hvað ég er þakklátur fyrir að hafa farið í það andlega ferðalag með þér, elsku Palla mín.

En við fórum líka í hefðbundnari ferðir saman í den á meðan við vorum laus og liðug, systkinin sem margir héldu að væru tvíburar, ekki að undra, svo samrýnd sem við vorum alla tíð. En ofboðslega er ég ánægður með að við fórum saman til Köben í desember sl., heimsóttum Esther mína og skemmtum okkur konunglega í borginni sem var þín uppáhalds. Engan grunaði þá að það yrði þín síðasta utanlandsferð.

Minningarnar eru svo margar og dýrmætar, lífið okkar hefur verið svo samtvinnað, þú passaðir stelpurnar litlar, allur baksturinn þinn í boðin var ekki þessa heims, hláturinn þinn, smitandi gleðin, hjartahlýjan og kærleikurinn sem náði dýpra. Ég held áfram í huganum, orðin fanga ekki þær hugsanir – en þú átt þær allar skilið.

Lífið lagði sannarlega fyrir þig mörg og erfið verkefni, Palla mín, en þú tókst á við þau af einstöku æðruleysi alla tíð og kvartaðir aldrei – þú bjóst yfir einhverju meira en við hin! Sönn fyrirmynd fyrir okkur í kringum þig.

Elsku besta systir mín, hjarta mitt syrgir þig en það er líka yfirfullt af þakklæti fyrir það að hafa fengið að vera þér samferða í gegnum lífið sem bróðir og vinur – þangað til næst!

Þinn bróðir,

Jón (Nonni).

Elsku hjartans litla systir mín verður jarðsungin í dag frá Grafarvogskirkju klukkan 13.00.

Ég er búin að vera að bíða eftir að vakna, vakna af martröðinni. En í þetta skiptið bara vakna ég ekki, þetta er ekki martröð í þeim skilningi. Litla systir mín er líka farin í Sumarlandið, þangað sem stóra systir okkar fór 5. mars sl. Það er napur raunveruleiki. Palla mín fór líka um borð í skip sem hvarf sjónum okkar hér út við sjóndeildarhring, en um leið og það hvarf sjónum okkar sáu aðrir skipið sigla í höfn hinum megin. Ég veit að Þura mín hefur tekið á móti henni þar. Það er nú meira hvað sjórinn togar í þessa fjölskyldu beggja heima vegna! En ég er þess fullviss að það hafa nú orðið fagnaðarfundir hjá elsku systrunum mínum báðum. Mögulega hefur verið skellt í skonsur með skinkusalati að beggja hætti.

Elsku Palla mín, þú varst yngst okkar fimm systkina, litla systirin. Rétt tæpra 57 ára þegar þú ert kölluð burt. Það telst ekki hár aldur hér á jörðu.

Margs er að minnast.

Þú varst svo barngóð og mikil húsmóðir í þér. Hristir fram úr erminni bakkelsið eins og ekkert væri, sem fékk mig næstum til að fela kexpakkana eða snúðana úr bakaríinu sem ég keypti sjálf til að eiga með kaffinu. Ekki að það sé slæmt að eiga kexpakka. Alltaf varstu hugsunarsöm og hugsaðir um systkinabörnin þín eins og þín eigin. Hæfileikar þínir fengu aldeilis að njóta sín áfram þegar þú og Jói þinn eignuðust börnin ykkar þrjú og þið önnuðust af mikilli natni. Það er mér um megn að skilja að þú skulir ekki fá að vera hér lengur hjá þeim og litla Atlasi Darra, fyrsta ömmu- og afabarninu; lífið virtist allt vera að brosa við ykkur öllum. Missir þeirra er mikill.

Þið mamma voruð alltaf tengdar og töluðust við nær undantekningarlaust á hverjum degi. Missir mömmu er mikill að horfa á eftir frumburði sínum og yngsta barni á tveimur mánuðum. Eina sem hægt er að segja um það er að allt hefur sinn tíma undir himninum og öllu og öllum er afmörkuð stund. Við ráðum engu.

Við deildum m.a. sama áhuga á andlegum málum. Við pældum mikið í þeim í gegnum tíðina. Þau voru ófá skiptin sem var kíkt í rúnirnar. Þú varst mjög næm alla tíð og sinntir þeim hæfileikum æ meira eftir því sem árin liðu. Þú og Nonni bróðir voruð mjög tengd og nutuð ykkar vel m.a. í að sinna þeim hugðarefnum saman.

Megnið af ævinni vorum við í miklum samskiptum þó að lífsins ólgusjór hafi truflað samskipti okkar um tíma. Þau voru þó komin í farveg aftur og fögnuðum við saman síðustu áramótum með okkar gamla lagi og á ég frá því dýrmætt myndbrot.

Elsku hjartans Palla mín. Takk fyrir alla okkar samveru í gegnum tíðina. Þú ert lögð af stað í næsta áfanga – miklu fyrr en nokkurn óraði fyrir – en þú ert svo þroskuð sál að þú þurftir líklega ekki að vera lengur hér.

Megirðu ævinlega vera umvafin kærleika og ljósi á vegi þínum um eilífðina.

Þín systir.

Meira á:

https://www.mbl.is/andlat

Ragnheiður (Ranka).