Endurvinnsla Betri flokkun sorps er forsenda endurvinnslu.
Endurvinnsla Betri flokkun sorps er forsenda endurvinnslu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þorlákur Einarsson thorlakur@mbl.is Sorp sem safnast á Íslandi fær ólík örlög líkt og Morgunblaðið komst að eftir að hafa rætt við stærstu aðilana í sorphirðu og endurvinnslu hér á landi. Stærstir í söfnun úrgangs eru Sorpa og Terra, en flestar drykkjarumbúðir rata til Endurvinnslunnar. Telja viðmælendur blaðsins innan geirans flokkun geta orðið miklu betri.

Baksvið

Þorlákur Einarsson

thorlakur@mbl.is

Sorp sem safnast á Íslandi fær ólík örlög líkt og Morgunblaðið komst að eftir að hafa rætt við stærstu aðilana í sorphirðu og endurvinnslu hér á landi. Stærstir í söfnun úrgangs eru Sorpa og Terra, en flestar drykkjarumbúðir rata til Endurvinnslunnar. Telja viðmælendur blaðsins innan geirans flokkun geta orðið miklu betri.

Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North í Hveragerði, telur að það vanti öflugra hvatakerfi hér á landi svo flokkun sorps verði fullkomnari. Hann bendir á að núverandi skilakerfi drykkjarumbúða skili gríðarlegum árangri og vill ganga svo langt að bæta skilagjaldi á fleiri umbúðir, til dæmis pizzakassa. Hann telur það kerfi sem er verið að koma á í höfuðborginni með fjórum tunnum við hvert hús vera barn síns tíma, það þurfi ekki nema einn trassa sem flokki vitlaust, til þess að ónýta heilt hlass af endurnýtanlegu efni. Góðri hegðun sé ekki hampað, né sé refsað fyrir vont framferði og því sé í raun ódýrt að vera sóði á Íslandi.

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra, gengur ekki svo langt en telur óhjákvæmilegt að breyttar reglur í framtíðinni muni tryggja bættari flokkun.

Endurvinnsla með jarðvarma

Pure North var upphaflega stofnað 2016 utan um nýja aðferðafræði við endurnýtingu plasts með notkun jarðvarma og segir fyrirtækið að það geti endurunnið allt plast sem rétt er flokkað. Terra er einn þeirra aðila sem senda plast til Pure North, en að auki sendir Terra töluvert af úrgangi úr landi til frekari endurvinnslu í Hollandi og Þýskalandi, en einnig fer töluvert af óflokkuðu rusli til brennslu. Bæði Valgeir og Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunar, efast um að stórtæk endurvinnsla geti átt sér stað á Íslandi vegna stærðar markaðarins og vegna óhagkvæmni slíkrar vinnslu.

Pure North vill skáka þessum hugmyndum og segir Sigurður Halldórsson að honum hafi verið tjáð að ekki gengi að reka endurvinnslu undir 20 þúsund tonnum á ári, en hann hafi sýnt fram á að hægt sé að gera þúsund tonna verksmiðju arðbæra. Til að loka hringrásarhagkerfinu þurfi að nýta hér heima það efni sem verður til en það sé nú gert að sáralitlu leyti. Pure North hefur þó hafið samstarf við Set ehf. á Selfossi, þar sem bændaplast er endurnýtt sem girðingarstaurar, efnið er endurnýtt innan sama geira. Sigurður segir að horfa eigi nánar á þá mögulegu virðiskeðju sem geti skapast og færa sig þannig frá eldri lausnum.

Sorp ennþá brennt

Óflokkað sorp fer mikið til úr landi til brennslu og vakti athygli að Sorpa bauð nýlega út brennslu á óflokkuðum úrgangi á EES-svæðinu. Brennsla er talin betri en urðun, þar sem hún er skilgreind sem endurnýting en ekki förgun. Urðun er talin versti kosturinn því hún treystir á takmörkuð landgæði og henni getur fylgt ólykt og fok úrgangsefna.

Enginn viðmælandi blaðsins greindi mikinn mun í umfangi sorps á milli ára. Þó gerir Terra ráð fyrir að kúfur geti komið þegar ferðamannasumarið verði komið á fullt, því fjölda ferðamanna fylgir óumflýjanlega meira sorp. Greina megi neyslu þannig og hafi til dæmis borist mun meira af umbúðum úr plasti og pappa á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir og flestir pöntuðu vörur heim af netinu.

Tunnuskiptin

Ganga vel

Sorpa segir tunnuskipti á höfuðborgarsvæðinu ganga vel. Þau eru liður í betri flokkun úrgangs, þannig að minna falli til af óflokkuðu sorpi. Í Reykjavík hafa skiptin nú þegar farið fram á Kjalarnesi. Sorpa segist líka merkja jákvæð teikn vegna Góða hirðisins. Um 34% meira magn kemur þangað til endursölu en á sama tímabili í fyrra og heildarmagn nytjahluta á sama tímabili hefur aukist um 16,5%.

Minna hefur borist af raftækjum til Sorpu en á sama tímabili í fyrra. Erfitt er að staðfesta þær tölur núna en þær gefa þó vísbendingu um minni einkaneyslu. Sömuleiðis hefur heildarmagn þess sorps sem berst á móttökustöðvar Sorpu minnkað um 18% og þess efnis sem berst á urðunarstað um 15%

Höf.: Þorlákur Einarsson