Moldóva Katrín Jakobsdóttir og Maia Sandu forseti Moldóvu við komuna til leiðtogafundar Stjórnmálavettvangs Evrópu (EPC) í Bulboaca í gær.
Moldóva Katrín Jakobsdóttir og Maia Sandu forseti Moldóvu við komuna til leiðtogafundar Stjórnmálavettvangs Evrópu (EPC) í Bulboaca í gær. — AFP/Daniel Mihailescu
Andrés Magnússon andres@mbl.is Katrín Jakobsdóttir segir leiðtogafund Stjórnmálavettvangs Evrópu, sem nú fer fram í Moldóvu, sérlega gagnlegan til þess að stilla saman strengi hinnar pólitísku forystu í Evrópu með tilliti til Úkraínustríðsins og næstu skrefa í þeim efnum.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir segir leiðtogafund Stjórnmálavettvangs Evrópu, sem nú fer fram í Moldóvu, sérlega gagnlegan til þess að stilla saman strengi hinnar pólitísku forystu í Evrópu með tilliti til Úkraínustríðsins og næstu skrefa í þeim efnum.

„Hér verða ekki teknar neinar formlegar ákvarðanir og hér eru ekki haldnar fundargerðir, en það þýðir líka að það er hægt að tala með meiri hreinskilni og markvissari hætti en ella,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

„En það gerir einnig að verkum að hér koma saman fleiri leiðtogar en annars – frá ríkjum innan og utan Atlantshafsbandalagsins, innan og utan Evrópusambandsins, einnig frá ríkjum með söguleg tengsl við Rússland – og við hlustum líka á þá, sem fara vilja fram af meiri gætni.“

Nýr vettvangur

Stjórnmálavettvangur Evrópu var settur á laggirnar í fyrra að frumkvæði Macrons Frakklandsforseta með það fyrir augum að hið pólitíska samfélag í ríkjum Evrópu gæti átt milliliðalaus samtöl, án þess að binda ríki þeirra eða notast við hægvirkar diplómatískar boðleiðir.

Spurð um árangur fundarins sagði Katrín hann verulegan þótt hann væri ekki mælanlegur á hefðbundna mælikvarða, einmitt vegna þess að þar er ekkert ákveðið eða samþykkt.

„En hér hafa komið fram ýmis sjónarmið um það sem helst verður fjallað um á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Vilnius í Litháen um miðjan næsta mánuð, ekki síst hvað varðar aðildarumsókn Úkraínu.“

Forsætisráðherra bætti við að fundarstaðirnir væru engin tilviljun. Moldóva er nágrannaríki Úkraínu, var hernumið og innlimað í Sovétríkin í seinni heimsstyrjöld, en Rússar hafa haft í hótunum við það undanfarin ár. Eystrasaltsríkin voru sömuleiðis innlimuð í Sovétríkin með hervaldi og Pútín Rússlandsforseti hefur einnig hvesst sig við þau.

Meðal gesta á leiðtogafundinum auk Katrínar má nefna Volodomír Sel­enskí Úkraínuforseta, Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB, Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Giorgiu Meloni forsætisráðherra Ítalíu og Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur.

Aðild að Stjórnmálavettvangi Evrópu eiga 47 ríki, öll Evrópuríki nema Rússland og Hvíta-Rússland (Belarús).