Dagur Fannar Magnússon
Dagur Fannar Magnússon
Ég vil að kirkjan verði án ofbeldis, kirkjan verði fjölbreytt, ég vil að kirkjan verði full af kærleika, að hver og einn verði frjáls í hug og anda.

Dagur Fannar Magnússon

Í hjarta mínu brennur sannarlega eldmóður til þess að fá að þjóna og gera allt sem í mínu valdi stendur til þess gera kirkjuna betri með hjálp Guðs og með öllu því góða fólki sem starfar bæði í sjálfboðaliðastörfum og launuðum. Ég er ekki hættur eða að gefast upp á því að verða vígslubiskup, því fer fjarri.

En ég þarf ekki að verða vígslubiskup. Ég þarf ekki statusinn, launin eða valdið. Ég hef allt sem ég þarf; góða og stuðningsríka fjölskyldu, frábærar sóknarnefndir, ég hef meira en nóg af veraldlegum gæðum og þótt ég yrði vígslubiskup yrði ég ekkert hamingjusamari. Því hamingjan felst ekki í status, launum eða valdi. Ég mun vinna að öllum þeim stefnumálum sem ég hef sett fram hvort sem ég verð vígslubiskup eða ekki. Nú hef ég einfaldlega hug á því að setja þetta í hendurnar á Guði, því eins og sagt er: „Mennirnir skipuleggja en Guð ákveður.“ Ég set þetta í hendurnar á fólkinu sem kýs. En verði ég kallaður til þessa hlutverks vígslubiskups mun ég sinna því af alúð og eldmóði.

Ég vil fyrst og fremst að kirkjan verði laus við ofbeldi, ég vil að kirkjan okkar verði fjölbreytt, ég vil að kirkjan okkar verði full af kærleika, umburðarlyndi og samkennd, en sannleikurinn er sá að kirkjan er breyskt og brotið fólk, sumir minna og aðrir meira. Ég vil að allt þetta fólk nái að tjasla sér saman með Guðs hjálp og hjálp góðs fólks. Ég vil að við séum eitt í Kristi, ég vil að hvert og eitt okkar eigi von, ég vil að jarðvegurinn sem við sáum í sé ekki kjarnorkuúrgangur heldur næringarríkur og góður jarðvegur. Ég vil að allir fái tækifæri til þess að vaxa í trú, von og kærleika án þess að vera troðið í kassa og geti verið frjálsir í andanum. Að þessu get ég unnið.

Fyrir þá sem hafa áhuga er stefnuskráin þessi:

Að sameina sóknarprestsstöðuna í Skálholti og vígslubiskupsembættið. Þannig er hægt að spara fjármuni og embættið lendir aftur meðal fólksins, kemur niður í grasrótina.

Að vígslubiskupsembættið verði þekkt sem græni biskupinn með umhverfismál að leiðarljósi, að prédika í orði og verki hversu mikilvægt það er að elska náttúruna eins og náungann og finna sig í andlegum tengslum við hana. Tengslum þar sem við finnum okkur eitt með sköpunarverkinu.

Að halda sóknarnefndardag í Skálholti einu sinni á ári þar sem vettvangur verður fyrir sóknarnefndir að hittast, fara á námskeið, vinnustofur og halda umræðuhópa til þess að dýpka sóknarnefndarstarfið. Ég trúi því að þannig getum við eflt grasrótarstarfið með einum eða öðrum hætti.

Að starfsfólk kirkjunnar fái gott utanumhald og stuðning. Djáknar og prestar fái stuðning, hvatningu og aðstoð við að sækja endurmenntun og kyrrðardaga eða aðra andlega uppbyggingu. Þau geti tekið tíma frá til eigin andlegrar uppbyggingar og endurmenntunar í vinnutímanum því það er það sem þau ættu að gera til þess að geta verið upp á sitt besta við að vera öðrum til andlegrar leiðsagnar.

Að Skálholt verði alþjóðleg kyrrðar- og pílagrímamiðstöð, verði aftur hin kirkjulega miðstöð á Íslandi.

Að öllu þessu get ég unnið markvisst án þess að verða vígslubiskup, en það að sameina embætti vígslubiskups og sóknarprests í Skálholti krefst aðkomu kirkjuþings og þess að ég verði vígslubiskup og sóknarprestur. Að öðru get ég og mun vinna að statt og stöðugt, að þessu geta í raun allir unnið ef það er viljinn.

„Guð vonarinnar fylli yður af öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“ (Róm. 15.13)

Ég vona að ást og friður fái að ríkja í hug og hjarta ykkar allra.

Höfundur er sóknarprestur í Skálholtsprestakalli og í kjöri til vígslubiskups í Skálholti.