Á toppnum Hans Viktor Guðmundsson skoraði fyrir Fjölni.
Á toppnum Hans Viktor Guðmundsson skoraði fyrir Fjölni. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
Fjölnir og Afturelding unnu í gærkvöldi einstaklega sterka útisigra í 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Fyrir vikið eru liðin jöfn að stigum í efstu tveimur sætum deildarinnar, bæði með 13 stig þar sem Fjölnir er á toppnum með betri markatölu

Fjölnir og Afturelding unnu í gærkvöldi einstaklega sterka útisigra í 5. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Fyrir vikið eru liðin jöfn að stigum í efstu tveimur sætum deildarinnar, bæði með 13 stig þar sem Fjölnir er á toppnum með betri markatölu.

Fjölnir heimsótti ÍA á Akranes og vann góðan 2:1-sigur. Hans Viktor Guðmundsson kom gestunum úr Grafarvogi í forystu snemma leiks.

Átta mínútum fyrir leikslok tvöfaldaði Guðmundur Karl Guðmundsson forystu Fjölnis.

Undir blálokin minnkaði Viktor Jónsson muninn fyrir Skagamenn en lengra komust heimamenn ekki.

Afturelding heimsótti Grindavík í toppslag og vann öruggan 3:0-sigur. Aron Elí Sævarsson kom gestunum úr Mosfellsbæ í forystu með marki úr vítaspyrnu eftir stundarfjórðungs leik. Á 24. mínútu dró til tíðinda þegar Guðjón Pétur Lýðsson fékk beint rautt spjald. Áður en fyrri hálfleikur var úti tvöfaldaði Ásgeir Marteinsson forystuna og staðan því 2:0 í leikhléi.

Fjórum mínútum fyrir leikslok innsiglaði Elmar Kári Enesson Cogic sigur Aftureldingar. Grindavík, sem hafði ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum umferðunum, er í 3. sæti með 10 stig.

Selfoss fékk nýliða Þróttar úr Reykjavík í heimsókn austur fyrir fjall og vann góðan 2:1-sigur. Adrián Sánchez skoraði fyrir Selfoss og annað mark liðsins var sjálfsmark. Izaro Abella minnkaði svo muninn fyrir Þrótt undir lokin.