Viðskipti Chris Barton, viðskiptafulltrúi Bretlands í Evrópu, sér mikil tækifæri í viðskiptum Íslands og Bretlands.
Viðskipti Chris Barton, viðskiptafulltrúi Bretlands í Evrópu, sér mikil tækifæri í viðskiptum Íslands og Bretlands. — Morgunblaðið/AM
Andrés Magnússon andres@mbl.is Chris Barton, viðskiptafulltrúi Bretlands gagnvart Evrópu með aðsetur í Haag, sagði á fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins, að viðskiptasamband Bretland og Íslands væri til mikillar fyrirmyndar og að greið viðskipti milli landanna væru Bretum mikilvæg. „Þrátt fyrir að Ísland sé lítið land þá eru viðskiptin umtalsverð, þau byggjast á traustum grunni vinsamlegra samskipta á umliðnum öldum, hagsmunir landanna fara saman og gildi þjóðanna eru hin sömu,“ sagði Barton í samtali við Morgunblaðið að fundi loknum.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Chris Barton, viðskiptafulltrúi Bretlands gagnvart Evrópu með aðsetur í Haag, sagði á fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins, að viðskiptasamband Bretland og Íslands væri til mikillar fyrirmyndar og að greið viðskipti milli landanna væru Bretum mikilvæg. „Þrátt fyrir að Ísland sé lítið land þá eru viðskiptin umtalsverð, þau byggjast á traustum grunni vinsamlegra samskipta á umliðnum öldum, hagsmunir landanna fara saman og gildi þjóðanna eru hin sömu,“ sagði Barton í samtali við Morgunblaðið að fundi loknum.

Mikilvægi þessa trygga viðskiptasambands þjóðanna sæist enda best á því að þrátt fyrir að Brexit, úrganga Breta úr Evrópusambandinu (ESB), hefði ekki verið vandalaus, þá sýndu hagtölur ótvírætt að viðskipti milli landanna hefðu aukist síðan. „Það er jákvæð þróun og hefur verið Íslandi sérstaklega hagfelld. Svo sjáum við líka að viðskiptin tóku hratt og hraustlega við sér aftur eftir að heimsfaraldrinum linnti.“

Áhrif Brexit ofmetin

Bresk-íslenska viðskiptaráðið og lögmannsstofan BBA//Fjeldco gengust fyrir vel sóttum morgunfundi í Húsi atvinnulífsins á miðvikudag til þess að ræða viðskipti Íslands og Bretlands, tækifæri og áskoranir. Þar bar Brexit talsvert á góma, þrátt fyrir að um leið væri kynnt niðurstaða könnunar meðal hagsmunaaðila, sem benti til þess að áhrifin hefðu reynst mun minni en margur óttaðist.

39% sögðust ekki hafa fundið fyrir neinum viðskiptahindrunum eftir Brexit, 11% sögðu að öll vandkvæði hefðu verið leyst, en önnur 11% sögðu sum en ekki öll hafa verið leyst. 28% sögðu hins vegar að enn væru nokkur ljón á veginum. Þegar spurt var um breytt regluverk eftir Brexit sagði helmingurinn, slétt 50%, breytingarnar óverulegar, 6% sögðu breytingar til batnaðar, en 33% sögðu að þær hefðu verið neikvæðar.

Frjáls viðskipti af hinu góða

Barton segir að um það sé ekki deilt í breskum stjórnmálum að frjáls viðskipti séu af hinu góða, þó að á alþjóðavísu hafi meira borið á efasemdum um fríverslun upp á síðkastið. Flokkana greini á um ýmsar útfærslur en ekki grundvallaratriði málsins.

„Við áttum okkur á því að það eru ýmis vandamál óleyst og sum óhjákvæmileg í ljósi úrgöngu úr ESB og þar af leiðandi EES, en okkur hefur orðið vel ágengt við að finna helstu ásteytingarsteina og ryðja þeim burt. Þetta er ekki einfalt eða auðvelt, en það miðar vel áfram.“

Þótt ýmis tæknileg atriði séu óleyst hafi viðskiptin vaxið. „Það á ekki aðeins við um viðskiptin milli Íslands og Bretlands, það hefur átt við um alþjóðaviðskipti okkar og það á við um viðskipti Bretlands við ríki ESB.“

Að sögn Bartons hefur áhugi á alþjóðaviðskiptum aukist, Brexit hafi beint sjónum að þeim og margir eygt tækifæri. „Okkar hlutverk er að greiða fyrir þeim og það munum við gera.“

Milliríkjaviðskipti

Brexit virðist ekki hafa valdið teljandi örðugleikum á viðskiptum milli Íslands og Bretlands.

Viðskipti milli landanna hafa aukist í báðar áttir frá Brexit og tekið duglega við sér eftir heimsfaraldur.

Könnun sýnir að meirihluti viðskiptamanna hefur ekki fundið fyrir neinum vanda.