Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Ráðherra getur ekki farið í baráttu við margföldunartöflu eða deilingu. Um það gilda almennt samþykktar reglur.

Vilhjálmur Bjarnason

Einn ágætur vinur minn hringir í mig síðdegis flesta daga. Annaðhvort með allt á hornum sér, samsæri í hverju horni ellagar óréttlæti meira en mannréttindafrömuðir eins og hann geta þolað. Vissulega fyllist þessi vinur minn ofsakæti á milli þegar nýsnillingar hafa gert nýjar uppgötvanir í mannréttindum og lánamálum.

Jafnaðargeð og skapstilla

Stundum ber ekkert á þessum mannréttindaköstum ellegar ofsagleði yfir nýjungum í lánaskilmálum, sem hann telur bæta sinn hag. Þá ríkir skapstilla. Rétt eins og loftþrýstingur í veðurmælum. En það er ávallt stutt í geðsveifluköstin og að hafa allt á hornum sér.

Annar maður hringir og æsir sig yfir því að tekið skuli vera tillit til húsnæðiskostnaðar við útreikning neysluverðsvístölu. Sá maður skilur ekki að ýmis þjónusta er neysla. Nægir þar að nefna ferðalög, vátryggingar og afnot húsnæðis. Geðsveiflur þessa manns eru oft brattar, enda vinnur hann við fasteignamiðlun og skilur ekki hugtakið fórnarkostnað. Og fylltist maðurinn ofsakæti við lestur viðtals við innviðaráðherra, þar sem sá góði maður staðhæfir að húsnæðiskostnaður sé rangt reiknaður i vísitölu neysluverðs. Þarna var lausnin komin á vanda mannkyns.

Það bar svo við að fyrri maðurinn hringdi í mig vegna snilldargreinar um atburði fyrir fæðingu hans. Greinin fjallaði um kjarasamninga á Ströndum norður. Greinin fjallaði um það að annaðhvort ættu allir samningar að vera dýrtíðartryggðir eða engir. Sennilega væru lífskjör í landinu á lágu plani ef þeir samningar giltu í dag. Enda byggð aflögð á Ströndum. Greinarhöfundur var ráðherra atvinnugreinar sem dregur úr framleiðni og lífskjörum í landinu. Greinarhöfundi þessum hefur jafnframt yfirsést eðli frjálsra samninga. Kjarasamningar á Ströndum voru á milli frjálsra manna.

Dýrtíðarráðstafanir eða verðbólga

Nú eru ekki lengur gerðar „dýrtíðarráðstafanir“, áhyggjuefnið heitir nú verðbólga. Seðlabankastjóra er ætlað að takast á við verðbólgu í frístundum sínum með samverkafólki sínu í peningastefnunefnd. Sú nefnd fjallar svo aukalega um kjarasamninga úti í bæ, en peningastefnunefnd er ekki ætlað að fjalla um kjarasamninga.

Enn á ný telja ráðamenn að hægt sé að stýra landinu með boðum og bönnum. Flest mannleg málefni ganga vel án afskipta ráðamanna. Það er æskilegt að innviðaráðherra taki ákvörðun um vegaáætlun en forstjóri Vegagerðarinnar taki ákvörðun um samþykkt tilboða í vegarspotta.

Aftur á móti er alveg fráleitt að innviðaráðherra varði um lánaviðskipti einstaklinga og lánastofnana umfram það sem kveðið er á um í almennum samningum. Ef einhver vill taka lán og endurgreiða lán á fjörutíu árum og annar vill veita slíkt lán, þá kemur ráðherrum það ekkert við.

Ráðherra getur ekki farið í baráttu við margföldunartöflu eða deilingu. Um það gilda almennt samþykktar reglur. Ríkisstjórn breytir þeim reglum ekki, jafnvel þótt útlendar reiknireglur séu afsal fullveldis.

Hví verða þessar yfirlýsingar til?

Það kann að vekja furðu lesanda hví þessar yfirlýsingar verða til. Ástæðan kann að vera of mörg viðtöl og sú freisting að fylgja vindinum eins og hann blæs hverju sinni. Og afneita jafnvel almæltum sannleik.

Raunverð fasteigna var mjög stöðugt á árabilinu 1980 til 1998, en þá hófst tími verðhækkana, sem enn stendur.

Eins og venjulega er ástæða verðhækkunar einföld. Á árunum 1998 til 2000 voru byggðar jafn margar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og árið 1954. Afleiðingin af þessum fáu nýju íbúðum var skortur. Skortur á vöru og þjónustu leiðir til verðhækkunar. Tímabil verðhækkunar stendur enn. Þessi skortur leiðir til skerðingar lífskjara og mælist í neysluverði.

Fögur fyrirheit

Það var gerður friðþægingarsáttmáli um byggingu 35.000 íbúða á næstu tíu árum. Hagfræðiprófessor bendir á að slík uppbygging þýði eina nýja Seltjarnarnesbyggð á ári í tíu ár. Ekki verður byggt á Seltjarnarnesi að ráði í næstu framtíð. Skipulag höfuðborgarsvæðisins gerir ekki ráð fyrir slíkri uppbyggingu. Vissulega verður eitthvað byggt í Þorlákshöfn.

Svo hyggst erlendur leigjandi íbúðarhúsnæðis hætta starfsemi. Sá leigir út 1.700 íbúðir.

Hví vill þessi eigandi íbúðarhúsnæðis fara af skerinu? Ástæður hljóta að vera af tvennum toga; of lágar leigutekjur og gengisáhætta. Íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekki áhuga á dæminu.

Einn alþingismaður hefur áhuga. Ekki fyrir sína peninga! Þetta er mikil rausn þingmannsins að leysa hinn erlenda leigusala undan leiðindum af viðskiptum víð Íslendinga. Kostnaður er um 100 milljarðar íslenskra króna í erlendum gjaldeyri. Kann að hafa áhrif á gengisskráningu ef gengið er hratt til verks.

En hver á að borga? Þekkir þingmaðurinn einhvern ódrukkinn kaupanda að 1.700 íbúðum á Íslandi með skuldbindingu um að leigja íbúðirnar út? „Óhagnaðardrifið!“

En „óhagnaður“ þýðir á mæltu máli tap, sem er mun þjálla orð.

Og svo segir forsætisráðaherra að það sé rangt að aðflutningur fólks til landsins hafi áhrif á fasteignaverð. Ein afneitun enn. Auðvitað hefur óvænt íbúafjölgun langt umfram náttúrulega fjölgun áhrif á fasteignaverð. Við aðflutning verður skortur.

Fyrirheit og góðverk

Þetta vor hefur kennt okkur nokkrar lexíur. Ein er sú að seðlabankastjóri á ekki að fjalla um almenna kjarasamninga upphátt. Annað er að ráðherrar eiga ekki að gefa innihaldslausar yfirlýsingar um lánasamninga. Ráðherra varðar ekkert um lánstíma. Alþingismenn og ráðherra setja lög á löggjafarsamkomu. Það er þeirra eina hlutverk. Og alþingismenn og ráðherrar eiga ekki að mismuna þegnum. Má ég biðja um jafnræði!

Efnahagsumhverfi leikur sína leiki á grundvelli löggjafar en ekki á grundvelli óskhyggju og góðmennsku einstakra þingmanna sem veldur mismunun. Góðverk á húsnæðismarkaði skila sér í risavöxnum vandamálum, eins og í tilfelli ÍLS.

Nú vilja fulltrúar fólksins mismuna fólki á grundvelli eigna. Ekki vex framboð leiguhúsnæðis við það. Slík skilyrði valda skorti og hækkun leiguverðs.

Ef ráðamenn vilja gera góðverk, þá vilja ráðamenn mismuna þegnum. Lántökuskilyrði byggjast á greiðslugetu lántaka.

Lífsblóm

Minnumst þess að þegar maður á lífsblóm byggir hann hús!

Höfundur var alþingismaður.