Kveðjustund Ingólfur tekur við kveðjugjöfum úr hendi Guðlaugar Sigurðardóttur framleiðslustjóra í gær.
Kveðjustund Ingólfur tekur við kveðjugjöfum úr hendi Guðlaugar Sigurðardóttur framleiðslustjóra í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta hafa verið mjög góð ár og skemmtilegur tími. Mér þótti þetta ágætis tímamót til að hætta eftir 40 ár á Mogganum og 50 ár í faginu,“ segir Ingólfur K. Þorsteinsson umbrotsmaður sem lét um mánaðamótin af störfum á Morgunblaðinu eftir fjörutíu ára starf

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hafa verið mjög góð ár og skemmtilegur tími. Mér þótti þetta ágætis tímamót til að hætta eftir 40 ár á Mogganum og 50 ár í faginu,“ segir Ingólfur K. Þorsteinsson umbrotsmaður sem lét um mánaðamótin af störfum á Morgunblaðinu eftir fjörutíu ára starf.

Ingólfur lærði prentiðn og byrjaði 17 ára á samningi hjá Prentborg í Borgarnesi. Síðar flutti hann sig í prentsmiðjuna Odda og var þar í fimm ár áður en hann hóf störf á Morgunblaðinu 1983.

Leist ekkert á blikuna í byrjun

„Þar var meiri peningavon enda brjáluð aukavinna alltaf í boði,“ segir hann en viðurkennir þó að sér hafi ekki litist á blikuna í fyrstu. „Ég byrjaði á kvöldvakt á miðvikudegi og þetta var allt öðruvísi heimur en ég var vanur. Aksjónið var þvílíkt og ég vissi ekkert hvað var í gangi. Í öllu þessu aksjóni við að raða saman auglýsingum og fleiru voru menn misvel fyrirkallaðir, menn af gamla skólanum. Þegar komið var fram á laugardag hugsaði ég að ég myndi nú ekki endast lengi í þessu. Svo bara datt maður inn í þennan ryþma eins og gengur.“

Á þessum fjórum áratugum hafa miklar breytingar orðið á vinnslu Morgunblaðsins. Ingólfur rifjar upp að allt var brotið um á pappír þegar hann hóf störf á blaðinu. Í þá daga voru 4-5 starfsmenn í innskrift sem svo hét og fimm í umbroti. „Þá var alltaf unnið til miðnættis og oft talsvert lengur, bara eins og þurfti. Svo voru tvöfaldar vaktir á föstudögum og unnið annan hvern laugardag.“

Síðar færðist vinnslan yfir í tölvur en hvert sem vinnulagið hefur verið hefur samstarfsfólk Ingólfs notið þægilegs viðmóts hans og rólegs yfirbragðs. Slíkt er mikilvægt, ekki síst þegar mikið liggur við. „Þetta er eins og vél sem fer í gang þegar verið er að framleiða blað. Hvort sem blaðið er 32 síður eða 80 síður. Starfsmennirnir eru alltaf jafn margir en þetta rennur allt saman.“

Og alltaf kemur blaðið út.

„Það hefur gert það hingað til,“ segir hann.

Ingólfur segir ómetanlegt að hafa kynnst öllu því fólki sem hann hefur starfað með á árunum fjörutíu. Hvort sem um er að ræða fólk sem staldraði stutt við eða samstarfsfólk til áratuga. „Hér hafa verið margir góðir félagar.“

Hrunið eftirminnilegur tími

Starfið felur í sér að vera í hringiðu atburða, að miðla stórum tíðindum til fólks. Margir atburðir og vinnsla Morgunblaðsins í kringum þá eru eftirminnilegir, að sögn Ingólfs. Til að mynda eldgos og Suðurlandsskjálftar. „Ég man sérstaklega vel eftir vikunni í kringum hrunið. Ég var á kvöldvakt þá. Maður var sjálfur óöruggur um sín mál og það leið engum vel. Svo gleymist það náttúrlega í amstrinu. Á svona stórum stundum fer þessi maskína í gang og allir leggjast á eitt, blaðamenn og framleiðslan.“

Ingólfur er 67 ára og sér fram á rólegri tíma nú þegar hann lætur af störfum. „Ég var tilbúinn að hægja aðeins á mér, að hætta kvöld- og helgarvinnu. Konan verður örugglega mjög ánægð með að hafa mann lausan um helgar í allskonar snudderí og ferðalög. Nú er maður bara frjáls og á daginn fyrir sig.“