Barátta Óskar Borgþórsson og Olav Öby eigast við í leik Fylkis og KR í gærkvöldi. Fjörugum leiknum lauk með 3:3-jafntefli.
Barátta Óskar Borgþórsson og Olav Öby eigast við í leik Fylkis og KR í gærkvöldi. Fjörugum leiknum lauk með 3:3-jafntefli. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fylkir og KR skildu jöfn, 3:3, í stórskemmtilegum leik í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Fylkisvelli í gærkvöldi. Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki yfir snemma leiks með skoti af stuttu færi áður en Jóhannes Kristinn Bjarnason…

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Fylkir og KR skildu jöfn, 3:3, í stórskemmtilegum leik í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Fylkisvelli í gærkvöldi.

Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki yfir snemma leiks með skoti af stuttu færi áður en Jóhannes Kristinn Bjarnason jafnaði metin skömmu síðar með stórglæsilegu skoti á lofti af stuttu færi. Theodór Elmar Bjarnason kom KR yfir með laglegri vippu en Nikulás Val Gunnarsson jafnaði metin með skoti af stuttu færi skömmu fyrir leikhlé.

Í síðari hálfleik kom varamaðurinn Benedikt Daríus Garðarsson Fylkismönnum yfir á nýjan leik en Theodór Elmar jafnaði svo metin með sínu öðru marki þegar Axel Máni Guðbjörnsson hreinsaði í hann, þaðan sem boltinn fór í netið. Fylkismenn vildu fá dæmda hendi á Theodór Elmar en dómararnir mátu það svo að boltinn hefði farið í andlit hans.

Staða beggja liða er óbreytt þar sem Fylkir er í 7. sæti með 11 stig og KR sæti neðar með jafnmörg stig.

Öruggt í Eyjum

ÍBV fékk nýliða HK í heimsókn og vann afar öruggan og kærkominn 3:0-sigur.

Eftir að hafa tapað fimm deildarleikjum í röð voru Eyjamenn með öll völd allan tímann í gærkvöldi og voru búnir að gera út um leikinn eftir 49 mínútna leik.

Sverrir Páll Hjaltested kom ÍBV í forystu eftir aðeins sjö mínútna leik þegar hann stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Olivers Heiðarssonar með jörðinni. Skömmu fyrir leikhlé tvöfölduðu Eyjamenn forystuna þegar Eyþór Daði Kjartansson skoraði með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu sem hann hafði fengið sjálfur.

Snemma í síðari hálfleik innsiglaði Felix Örn Friðriksson sigurinn með föstu skoti niður í nærhornið eftir að hafa platað tvo leikmenn HK með einni hreyfingu.

Með sigrinum fór ÍBV upp úr fallsæti. Liðið er nú með 9 stig í 9. sæti, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Hk er áfram í 6. sæti með 13 stig en hefur nú tapað þremur leikjum í röð.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson