Það er jafnan gleðiefni þegar Stuðlaberg berst inn um lúguna, en það er tímarit sem gefið er út af Ragnari Inga Aðalsteinssyni og helgað ljóðlistinni, með áherslu á hefðbundinn kveðskap. Þar má finna fallega hestavísu eftir Þorstein á Skálpastöðum í …

Það er jafnan gleðiefni þegar Stuðlaberg berst inn um lúguna, en það er tímarit sem gefið er út af Ragnari Inga Aðalsteinssyni og helgað ljóðlistinni, með áherslu á hefðbundinn kveðskap. Þar má finna fallega hestavísu eftir Þorstein á Skálpastöðum í Lundarreykjadal:

Vel ég finn mér væri það

veigamestur auður

ef þú gætir gert mig að

góðum manni, Rauður.

Halla Gunnarsdóttir er ekki í vafa um hvar sé fallegast að vera:

Fögur eru fjöllin blá,

firðir vítt og breitt.

Þó er vænst að vera á

Vífilsgötu 1.

Þegar aðkoman var bætt við eina kirkjuna á höfuðborgarsvæðinu orti Loftur Ásmundarson:

Hvílík breyting um helgar traðir

hefur ei sést um áraraðir.

Til kirkjunnar allir geysast glaðir

því Guðs vegir eru nú malbikaðir.

Friðrik Steingrímsson horfði á frétt á Stöð 2 og sá strax að þar var kominn efniviður í vísu:

Svarraveður setti allt úr skorðum,

svakalega’er ástandið nú ljótt.

Í bögu sagði blessað skáldið forðum,

„blómin fölna’á einni hélunótt.“

Úr því getið er um vísnaútgáfu, þá er ekki úr vegi að nefna vísnaþáttinn sem Árni Geirhjörtur Jónsson heldur úti af stakri snilld í Bændablaðinu. Þar birtist nýverið vísa eftir Pétur frá Hallgilsstöðum, sem ort var til svarfdælskrar stúlku:

Fallegt er í fjallasalnum

finnst þar sunnan andi hlýr.

Fædd er hún í fagra dalnum

– forsetinn áður rak þar kýr.

Víst er Svarfaðardalurinn fallegur eins og undirritaður getur vitnað um eftir að hafa verið til skamms tíma í sveit á Sökku. Þegar Jónas frá Völlum í Svarfaðardal heyrði á máli ölvaðs unglingspilts að hann hygðist bæta ráð sitt og hætta að drekka, varð honum að orði:

Treystu djarft á drottinn þinn,

drjúg er náðarausan.

Sittu og drekktu drengur minn

djöfulinn ráðalausan.