Landsliðsþjálfari Snorri Steinn Guðjónsson skrifaði undir þriggja ára samning og er samningsbundinn til sumarsins 2026.
Landsliðsþjálfari Snorri Steinn Guðjónsson skrifaði undir þriggja ára samning og er samningsbundinn til sumarsins 2026. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Mér líður virkilega vel og það er gott að geta loksins kallað sig landsliðsþjálfara Íslands,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á aðalskrifstofu Icelandair við Reykjavíkurflugvöll í gær en þar var hann kynntur til leiks af Handknattleikssambandi Íslands.

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Mér líður virkilega vel og það er gott að geta loksins kallað sig landsliðsþjálfara Íslands,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á aðalskrifstofu Icelandair við Reykjavíkurflugvöll í gær en þar var hann kynntur til leiks af Handknattleikssambandi Íslands.

Snorri Steinn, sem er 41 árs gamall, hefur stýrt karlaliði Vals í úrvalsdeildinni frá árinu 2017 og undir hans stjórn urðu Valsmenn tvívegis Íslandsmeistarar og tvívegis bikarmeistarar.

Hann lék sem atvinnumaður um árabil með Grosswallstadt, Minden og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, AG Köbenhavn og GOG í Danmörku og Séléstat og Nimes í Frakklandi en hann lagði skóna á hilluna árið 2018.

Þá var hann lykilmaður í íslenska landsliðinu um árabil, lék 257 A-landsleiki og skoraði í þeim 846 mörk, ásamt því að vinna til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlauna á Evrópumótinu 2010 í Austurríki.

„Þetta hefur haft sinn aðdraganda og allt það en ég neita því ekki að það er gott að þurfa ekki að tala í kringum hlutina lengur, ég er orðinn landsliðsþjálfari og það er hægt að tala við mig sem slíkan núna,“ sagði Snorri Steinn.

Aldrei vafi í mínum huga

Snorri Steinn hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastarfið allt frá því að Guðmundur Þórður Guðmundsson lét óvænt af störfum um miðjan febrúarmánuð á þessu ári.

„Öll umræðan í kringum starfið og þessar vangaveltur hafa örugglega truflað mig eitthvað. Þetta hafði klárlega einhver áhrif á mitt starf hjá Val, án þess að ég ætli að nota það sem einhverja afsökun fyrir því hvernig tímabilið þróaðist. Þetta er þannig starf að þú þarft að velta hlutunum fyrir þér en það var aldrei vafi í mínum huga því ég fann það, strax frá fyrsta samtali, að mig langaði í starfið.

Ég hef ástríðu fyrir handbolta og ég hef mikla trú á liðinu, sjálfum mér og ég tel þetta lið henta mér mjög vel ef horft er til handboltans sem ég vil spila. Svo þarf bara að koma í ljós hvort það sé í raun og veru innistæða fyrir þeirri trú sem ég hef á liðinu og sjálfum mér.“

Tækifæri sem býðst ekki oft

Snorri Steinn var sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá sínu fyrrverandi félagi GOG í Danmörku og þá voru önnur félög í Evrópu sem sýndu honum einnig áhuga.

„Ég skrifaði undir nýjan samning við Val um síðustu áramót og ég var því ekki að hugsa mér til hreyfings þannig séð. Það er hins vegar þannig að þegar manni býðst að taka við landsliðinu þá er það ekki tækifæri sem maður bíður eitthvað sérstaklega eftir. Ég hef sagt það áður að Guðmundur Þórður Guðmundsson er besti þjálfari sem ég hef haft.

Það kom mér mikið á óvart þegar hann lét af störfum og HSÍ talaði við mig suttu eftir það. Þá fór ég fyrst að leiða hugann að þessu. GOG kemur inn í þetta þegar viðræður mínar við HSÍ voru langt á veg komnar og vissulega hristi það aðeins upp í þessu en ég fór aldrei út í einhverjar alvöru viðræður við þá því mig langaði virkilega að taka við landsliðinu og ég leit á þetta sem tækifæri sem ég fengi kannski ekki aftur.“

Mótað liðið eftir eigin höfði

Snorri Steinn hefur gert frábæra hluti með Valsliðið og fór til að mynda með liðið alla leið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar á síðustu leiktíð þar sem Valur féll úr leik eftir tap gegn þýska stórliðinu Göppingen.

„Það er engin spurning að þetta er leikmannahópur sem hentar mér vel og minni hugmyndafræði. Leikmennirnir eru á góðum aldri en eru samt búnir að vera saman í ákveðinn tíma og eru nú þegar á ákveðinni vegferð. Ég þarf ekki að fara í einhverja svakalega uppbyggingu og ég get mótað þetta eftir mínu höfði ef svo má segja.

Breiddin er líka þokkaleg og það eru menn að banka á dyrnar sem gerir þetta spennandi líka. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Á sama tíma fylgir þessu starfi ákveðin pressa og það eru gerðar miklar kröfur til liðsins. Ég eins og aðrir landsliðsþjálfarar verð dæmdur af mínum úrslitum og við þurfum að ná í úrslit í janúar svo ferlið verði eðlilegt.“

Geta barist um verðlaun

Eins og áður sagði var Snorri Steinn í lykilhlutverki þegar landsliðið vann síðast til verðlauna á stórmóti en miklar væntingar eru gerðar til liðsins í dag enda margir af lykilmönnum liðsins að spila með bestu félagsliðum heims.

„Ég sagði það sem bæði áhorfandi og stuðningsmaður landsliðsins ekki alls fyrir löngu að við værum með lið sem gæti barist um verðlaun á næstu árum. Ég get þá ekki bakkað með það núna þegar ég er farinn að stjórna þessu en ég sé það klárlega fyrir mér að það sé möguleiki og mig dreymir um að vinna aftur til verðlauna með liðinu.

Ég bý sjálfur að því að hafa unnið til verðlauna með liðinu og ég veit hvað þarf til. Það þarf allt að ganga upp og það er auðvelt að fara fram úr sér í þessu öllu saman. Það er hins vegar alveg á hreinu að íslenska landsliðið í handbolta mun vinna aftur til verðlauna á stórmóti og medalíurnar tvær sem við eigum nú þegar verða ekki þær einu í sögunni, ég trúi því ekki, því við vorum ekki það góðir.“

Taktískt mjög sterkur

Arnór Atlason verður aðstoðarþjálfari Snorra Steins en þeir þekkjast vel eftir að hafa spilað saman með landsliðinu og AG Köbenhavn í Danmörku. Arnór hefur verið aðstoðarþjálfari Aalborg í Danmörku frá árinu 2018, hefur þjálfað unglingalandslið Dana undanfarin ár og þá mun hann taka við sem þjálfari Tvis Holstebro í Danmörku í sumar.

„Arnór er góður vinur minn og við þekkjumst mjög vel. Ég taldi það vera mjög mikilvægt sérstaklega ef horft er til þeirra orustu sem þessi stórmót geta verið. Hann er líka rólyndismaður og var frábær handboltamaður á sínum tíma. Hann er taktískt mjög sterkur og svo er hann afar reynslumikill líka sem aðstoðarþjálfari sem skiptir miklu máli.“

Ekki á samfélagsmiðlum

Eins og áður sagði eru miklar væntingar gerðar til liðsins og krafan um verðlaun á stórmóti eykst með hverju árinu sem líður.

„Ég get ekki sagt að ég finni fyrir einhverri pressu akkúrat núna en ég finn klárlega fyrir öllu umtalinu í kringum þetta. Ég er rosalega góður í því að vera ekki á samfélagsmiðlum, þeir trufla mig lítið og hafa aldrei gert. Það er einn af mínum kostum myndi ég segja en ég geri mér grein fyrir pressunni sem fylgir þessu starfi. Á sama tíma óttast ég hana ekki neitt.

Ég tel mig geta valdið þessu starfi og sú tilfinning er yfirsterkari en allt annað. Auðvitað óttast maður að allt geri farið á versta veg í janúar en ég hef trú á mér og liðinu. Svo getur vel verið að maður fá eitthvað kvíðakast þegar maður sest upp í flugvél í janúar en þá verður Arnór mættur á svæðið til þess að knúsa mig,“ bætti Snorri Steinn við í samtali við Morgunblaðið.