Heræfingar Hermenn í þjóðvarðliði Úkraínu sjást hér við heræfingar í Karkív-héraði, sem er í Austur-Úkraínu.
Heræfingar Hermenn í þjóðvarðliði Úkraínu sjást hér við heræfingar í Karkív-héraði, sem er í Austur-Úkraínu. — AFP/Sergey Bobok
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að það hefði komið í veg fyrir tilraun Úkraínumanna til þess að „ráðast inn“ í Belgorod-hérað fyrr um nóttina. Rússar héldu uppteknum hætti og skutu eldflaugum á Kænugarð um svipað leyti, en alls gerðu Rússar 17 eldflaugaárásir á borgina í síðasta mánuði.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að það hefði komið í veg fyrir tilraun Úkraínumanna til þess að „ráðast inn“ í Belgorod-hérað fyrr um nóttina. Rússar héldu uppteknum hætti og skutu eldflaugum á Kænugarð um svipað leyti, en alls gerðu Rússar 17 eldflaugaárásir á borgina í síðasta mánuði.

Flugher Úkraínumanna sagði að Rússar hefðu nú skotið tíu eldflaugum á höfuðborgina, en þær hefðu allar verið skotnar niður. Þrír létust hins vegar og sextán til viðbótar særðust þegar logandi brak úr einni flauginni lenti í einu af úthverfum borgarinnar, en fólkið hafði leitað skjóls í neðanjarðarbyrgi sem reyndist lokað. Eitt fórnarlambið var níu ára gömul stúlka.

Ígor Klímenkó, innanríkisráðherra Úkraínu, sagði að rannsókn væri hafin á því hvers vegna byrgið hefði verið lokað. „Lokað loftvarnarbyrgi á stríðstímum er ekki bara kæruleysi, það er glæpur,“ sagði Klímenkó. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti, sem var í heimsókn í Moldóvu, sagði sömuleiðis að einhver yrði dreginn til ábyrgðar vegna atviksins.

Reyndu innrás í þrígang

Í yfirlýsingu Rússa um meinta innrás í Belgorod sagði að um 70 vígamenn, fimm skriðdrekar, fjögur brynvarin farartæki, sjö pallbílar og vöruflutningabíll hefðu tekið þátt í árásinni.

Sagði varnarmálaráðuneytið að hópurinn hefði reynt að ráðast inn fyrir landamærin í þrígang, en að innrásinni hefði verið hrundið með aðstoð loftárása og stórskotaliðs. Sagði ráðuneytið að rúmlega 50 vígamenn hefðu fallið í átökunum, en ekki var hægt að staðfesta það í gær.

Belgorod-hérað hefur mátt sæta miklum árásum undanfarna daga frá Úkraínu, en tveir hópar rússneskra skæruliða héldu inn í héraðið í síðustu viku og voru þar í tvo daga. Þá hafa Úkraínumenn þyngt stórskotahríð sína á héraðið í kjölfar árásarinnar.

Vjatsjeslav Gladkov, héraðsstjóri Belgorod-héraðs, sagði að tólf manns hefðu særst á undanförnum sólarhring í Shebekino, og að íbúar þaðan hefðu leitað í flóttamannamiðstöðvar í Belgorod-borg. Valentín Demídov, borgarstjóri Belgorod, sagði að mikið væri um fjölskyldur með börn og að reynt yrði að sinna þeim sem best.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði að forsetinn fylgdist með stöðunni í Belgorod-héraði. Gagnrýndi hann jafnframt þögn alþjóðasamfélagsins vegna árásanna í héraðinu. Úkraínumenn hafa varist allra fregna vegna Belgorod-héraðs.

Vill skýr svör um NATO

Selenskí Úkraínuforseti hvatti til þess á leiðtogafundi Stjórnmálavettvangs Evrópu, sem fram fór í Moldóvu í gær, að ríki Evrópu veittu Úkraínu og Moldóvu meiri stuðning gegn ágengni Rússa. Sagði Selenskí að Úkraínumenn þyrftu að fá skýr skilaboð um að þeir fái aðild að Atlantshafsbandalaginu, ellegar myndu Rússar tvíeflast vegna efasemdarradda innan Evrópu.

„Við verðum að muna að hver einasta efasemd sem er til sýnis hér í Evrópu er skotgröf, sem Rússland mun reyna að taka sér stöðu í,“ sagði Selenskí á fundinum.

Utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna nýttu einnig tækifærið til fundar, og var Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar á meðal. Ræddu þeir m.a. spurninguna um NATO-aðild Úkraínu, en hún verður ofarlega á baugi á leiðtogafundi bandalagsins í Vilníus í júlí.