Gervigreind þarf að gefa gætur

Um fátt fyrir utan Úkraínustríðið er meira rætt þessa dagana en „gervigreind“ (e. Artificial Intelligence – AI), sem hér eftir verður nefnd GG.

Raunar er hæpið að tala um greind í því samhengi, enda ekki um eiginlega greind að ræða, hvað þá vísdóm og enn síður sjálfsvitund, eins og sumir gera skóna og vísindaskáldskapur hefur lengi varað við. Ekkert af því á við um þá GG sem mest er um rætt þessi dægrin.

Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að það muni gerast einn góðan veðurdag, jafnvel fyrr en varir. Einstaklega ör þróun GG hefur komið vísindamönnum í opna skjöldu og eins hve létt GG reynist að „læra“ hver af annarri.

Það er ekki síst vegna þess, sem æ fleiri vara við GG, vilja að gripið sé í taumana í tæka tíð, varnargarðar reistir og öryggisventlum komið fyrir. Það gerðu m.a. fjölmargir frumkvöðlar á sviði GG í opnu bréfi í liðnum mánuði.

Þar var ekki aðeins vikið að tæknilegum vandamálum, mörkum og mótvægi við GG, heldur beinlínis vakið máls á því að þessi tækni gæti orðið mannkyni að fjörtjóni og hún borin saman við kjarnorkuvígbúnað.

Nú er rétt að taka dómsdagsspám með fyrirvara. Mannkyn hefur átt þær ófáar en engar þeirra hafa ræst. Það var ekki fyrr en með kjarnorkuvánni sem slík spá átti fræðilegan (en ólíklegan) möguleika, en loftslagsváin, sem mest er um talað nú orðið, hún felur ekki í sér neinn útdauða mannsins þótt hún gæti valdið talsverðum vanda ef allt fer á versta veg.

En það ber að taka viðvaranir helstu frumkvöðla og skapenda GG alvarlega. Það virðast enda ýmsar ríkisstjórnir hafa gert, vestanhafs sem austan.

Hins vegar má spyrja hvort líklegt sé að nýtt regluverk sé til þess fallið að halda aftur af framandi, óþekktu og ókomnu vitsmunaafli sem vill losa sig við mannkyn. Sem sjá má gengur voldugustu ríkjum heims lítið að hemja núverandi tæknirisa og mun skrifræðinu ganga betur við ókomna framtíðarógn? Eða ef úrhraksríki á borð við Norður-Kóreu verður ágengt með GG til að sigra heiminn?

Spurningarnar eru áleitnar, þeim þarf að svara og til þess þarf ferskari hugmyndir en fram eru komnar.