Betri niðurstaða.
Betri niðurstaða.
Á fyrsta ársfjórðungi 2023 var 10,1 milljarðs króna halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 12,9 mö. kr. betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 21,7 mö. kr. betri en á sama fjórðungi 2022

Á fyrsta ársfjórðungi 2023 var 10,1 milljarðs króna halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 12,9 mö. kr. betri niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 21,7 mö. kr. betri en á sama fjórðungi 2022. Halli á vöruskiptajöfnuði var 45,7 ma. kr. og 21,4 ma. kr. afgangur á þjónustujöfnuði. Frumþáttatekjur skiluðu 26,1 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 12 ma. kr. halla. Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabankans sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2023 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins.

Þar segir einnig að betri niðurstaða viðskiptajafnaðar miðað við sama fjórðung árið 2022 skýrist af hagstæðari niðurstöðu frumþáttatekna sem nemur 35,2 mö. kr. Að mestu leyti skýrist það af lakari afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. Einnig var aukinn afgangur af þjónustuviðskiptum sem nemur 15,6 mö. kr. Á móti vegur meiri halli af vöruviðskiptum sem nemur 26,5 mö. kr og af rekstrarframlögum sem nemur 2,6 mö. kr. Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.022 ma. kr. eða 26,3% af vergri landsframleiðslu og batnaði um 50 ma. kr. eða 1,3% af VLF á fjórðungnum.