Guðrún Björnsdóttir
Guðrún Björnsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Niðurstaða sérfræðinga um Nýja-Skerjafjörðinn er skýr: Nýting og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar breytist lítið sem ekkert. Að þeirra mati er engin þörf á að hætta við áformin.

Guðrún Björnsdóttir og Pétur Marteinsson

Rekstraröryggi og nýting flugvallarins í Reykjavík hafa verið lykilstef í ítarlegum rannsóknum innlendra og erlendra sérfræðinga á fyrirhugaðri byggð í Nýja-Skerjafirði. Niðurstaða þeirra er skýr; nýting flugvallarins breytist lítið sem ekkert og áhrif verða óveruleg. Því er að mati sérfræðinga ekki þörf á að hætta við byggð í Nýja-Skerjafirði.

Það er skiljanlegt að fólk spyrji spurninga og hafi áhyggjur af áformum um nýja byggð enda gegnir flugvöllurinn mikilvægu hlutverki hvað varðar innanlandsflug, sjúkraflug og í sumum tilfellum sem varaflugvöllur á SV-horninu. Mörg eigum við hagsmuna að gæta og eðlilegt að skoðanir séu skiptar. Það er þó mikilvægt að málið sé skoðað af yfirvegun og að óháðar rannsóknir sérfræðinga liggi til grundvallar ákvörðunum.

Skipulagsvinna við fyrirhugað hverfi í Nýja-Skerjafirði hefur frá upphafi tekið mið af öryggi flugvallarins. Landmótun, lega og hönnun bygginga, garða og gróðurs miðar einmitt að því að ógna ekki rekstraröryggi vallarins. Mannvirki í nágrenni flugvalla geta vissulega haft áhrif á staðarveður og sama gildir um þéttan trjágróður, úfinn sjó, öldugang o.fl. Því þarf að skoða framhaldið vandlega út frá fyrirliggjandi gögnum.

Skýr niðurstaða sérfræðinga

Niðurstaða sérfræðinga um Nýja-Skerjafjörðinn er skýr: Nýting og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar breytist lítið sem ekkert. Að þeirra mati er engin þörf á að hætta við áform um byggð í Nýja-Skerjafirði.

Við gerð deiliskipulags Nýja-Skerjafjarðar var verkfræðistofan Efla fengin til að greina vindafar og áhrif fyrirhugaðrar byggðar. Þá fékk ISAVIA sérfræðinga frá hollensku loft- og geimferðastofnuninni (NLR), sem er leiðandi á alþjóðavísu í rannsóknum á flugöryggi, til að gera áhættumat og rannsókn á mögulegum áhrifum byggðarinnar. Niðurstaðan er samhljóða: Áhrif byggðarinnar verða óveruleg og ekki er ástæða til að hætta við fyrirhugað hverfi.

Rannsókn NLR, þar sem skoðaðar voru verstu mögulegu sviðsmyndir, bendir til þess að við ákveðnar en mjög sjaldgæfar veðuraðstæður muni byggðin hafa einhver áhrif en þó ekki þannig að fella þurfi niður flug. Þá sé hægt sé að grípa til mótvægisaðgerða sem ganga fyrst og fremst út á upplýsingagjöf til flugmanna. Verkfræðistofan Efla skoðaði áhrifin á meðalvindstyrk og –breytingar á flugbrautum og eftir aðflugsferlum. Niðurstaðan er að það sem hafi mest áhrif á þessa þætti séu núverandi flugskýli og að nýja byggðin breyti þar litlu. Í sumum tilfellum eykst kvika (ókyrrð) en í langflestum tilfellum er kvika þó undir viðmiðunarmörkum og þau tilfelli þar sem hún fer yfir viðmið eru talin ásættanleg og skerða ekki notagildi Reykjavíkurflugvallar. Undir þetta taka veðurfræðingar á blika.is sem telja að „nothæfisstuðull vallarins breytist lítið sem ekkert“ með nýrri byggð.

Skýrslur sérfræðinganna benda til að fyrirhuguð byggð gæti einungis haft áhrif í sterkum en afar sjaldgæfum suðvestlægum áttum. Ekki er lagt til að flugi sé frestað eða það lagt niður sem er þó annars gert reglulega við núverandi aðstæður. T.d. var 448 flugferðum í innanlandsflugi aflýst fyrstu sex mánuði ársins 2022 og um 27% flugferða var frestað.

Úttekt starfshóps innanríkisráðherra staðfestir fyrrgreindar niðurstöður um að áhrif byggðar á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll verði ásættanleg og ekki sé ástæða til að hætta við áform um Nýja-Skerjafjörð.

Skipulag Nýja-Skerjafjarðar

Fyrsti áfangi Nýja-Skerjafjarðar gerir ráð fyrir heimilum fyrir um 690 fjölskyldur eða um 1.500 einstaklinga.

Félagsstofnun stúdenta áætlar að byggja þar 107 fjölskylduíbúðir í göngufæri við Háskóla Íslands en biðlisti eftir stúdentaíbúðum telur nú um 900 manns. Fjölskylduíbúðir í nálægð við fyrirhugaða leik- og grunnskóla auka húsnæðisöryggi foreldra í námi en um þriðjungur íslenskra stúdenta á eitt barn eða fleiri. Kannanir benda til að 43% stúdenta búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað og er þessi fyrirhugaða uppbygging mikilvægt skref til að draga úr kostnaði og tryggja jafnara aðgengi að námi.

Í Nýja-Skerjafirði munu einnig rísa íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Reykjavíkurborg efndi til samkeppni um hagkvæmt húsnæði fyrir þennan hóp árið 2018 og HOOS áætlar að reisa þar um 140 íbúðir sem falla undir reglur borgarinnar og viðmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur með það að markmiði að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði.

Þá ætlar Bjarg íbúðarfélag að reisa hagkvæmar leiguíbúðir fyrir um 200 manns í Nýja-Skerjafirði. Bjarg er rekið án hagnaðarsjónarmiða og með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins telja stjórnvöld að byggja þurfi 35.000 nýjar íbúðir á næstu tíu árum. Uppbygging í Nýja-Skerjafirði er mikilvægur áfangi til þess að ná þeim markmiðum og til að stuðla að stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Guðrún er framkvæmdastjóri FS og Pétur stjórnarmaður í HOOS.