Kristín Magnea Bjarnadóttir fæddist á Ísafirði 21. nóvember 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Litlu Grund 11. maí 2023.

Hún gekk alla sína ævi undir nafninu Dídí, var níunda barn í röð fjórtán systkina í litlu húsi sem jafnan var nefnt Hornið og stóð við Aðalstræti 15 á Ísafirði.

Foreldrar hennar voru Herdís Jóhannesdóttir, f. 23. sept. 1891, d. 7. ágúst 1961 og Bjarni Magnús Pétursson, f. 1. jan 1892, d. feb. 1957.

Herdís átti Guðmund Kristinn Falk Guðmundsson, f. 19.9. 1913, d. 25.8. 1965. Börn Herdísar og Bjarna voru Pétur Magnús Björn, f. 27.8. 1915, d. 1918. Guðrún Þorbjörg, f. 10.5. 1917, d. 16.1. 1988, Jóhanna María, f. 16.6. 1919, d. 22.2. 1992, Pétur Kristján, f. 31.10. 1920, d. 29.7. 2007, Friðrik Tómas, f. 5.5. 1922, d. 16.10. 1997, Jóhannes Bjarni, f. 18.10. 1923, d. 13.3. 2001, Eyjólfur Níels, f. 18.8. 1925, d. 3.2. 2018, Guðrún Guðleifs., f. 18.5. 1929, býr í USA, tvíburi Elísa Rakel, f. 19.5, 1929, d. 28.11. 2010, kjörforeldrar hennar voru Jakob Elíasson og Halldóra Jónsdóttir. Luisa, f. 11.1. 1931, d. 2.10. 2006, Jón Aðalbjörn, f. 27.8. 1932, Hannes Trausti Bjarnason, f. 4.9. 1935, d. 23.10. 1997.

Dídí kynnist maka sínum Jarli Sigurðssyni, f. 27.4. 2022, d. 23.11. 2009, árið 1946, þau giftu sig 5. nóvember 1949. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Bjarni Jarlsson, f. 1949, giftur Ragnhildi Þorbjörnsdóttur, börn þeirra eru Ingvar, Ágústa Kristín, Guðrún Edda og Kolbrún Ásta, barnabörnin eru 13. 2) Sigurður, f. 1950, giftur Þórdísi Elínu Hólm Gunnarsdóttur, börn þeirra eru Díana Hólm, Magnús, Kristín og Kolmar, barnabörn 10 og tvö barnabarnabörn. 3) Kjartan, f. 1952, giftur Ingibjörgu Jónsdóttur, dætur þeirra eru Íris Ósk og Lilja Guðrún, barnabörn eru sex. 4) Kolbrún, f. 1955, gift Rafni Haraldssyni, hann lést 1981, sonur þeirra er Ævar Jarl og barnabörnin eru 3.

Kristín og Jarl hófu búskap á æskuheimili Jarls á Freyjugötunni í Reykjavík, þaðan fluttust þau á nokkra staði í Reykjavík áður en þau settust að í Vallargerði 18, Kópavogi. Eftir sjö ár í Vallargerðinu fluttu þau í einbýlishús í Hjallabrekku 43, þau kláruðu húsið ásamt dóttur og tengdasyni. Þegar fuglarnir voru flognir úr hreiðrinu fundu þau sér stað í Þverbrekku 4 þar sem þau bjuggu upp frá því. Eftir lát eiginmannsins bjó hún ein heima þar til hún fór á hjúkrunarheimili í júní 2022.

Kristín og Jarl voru samrýnd hjón og með þeim miklir kærleikar. Kristín sigldi mikið með manni sínum á meðan hann var enn til sjós og einnig komu börnin með í marga túra. Á sjónum leið þeim báðum best, þá gafst líka tækifæri til að skoða ný mið á fjarlægum stöðum og njóta samvista.

Útför Kristínar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 2. júní 2023, klukkan 15.

Nú hefur hún Dídí hjartkær föðursystir mín kvatt og enn fækkar úr systkinahópnum stóra sem ólst upp á Horninu á Ísafirði og eru þau Dúdú búsett í USA og Jón Aðalbjörn eftirlifandi. Hún var löngu tilbúin í sumarlandið til Jalla síns og ástvina sem fóru fyrr og samdi við hann uppi um að gleyma sér ekki. Það fylgdi þessum systkinum mikill kærleikur, samheldni, nánd og vinátta allt lífið. Þau voru kennd við Hornið og kölluð Hornapúkar og þeim þótti mjög vænt um það en Hornið er Aðalstræti 15 og var það kallað brennivínshornið hjá Ásgeirsverslun en þegar Bjarni og Dísa, afi minn og amma, og Marzellíus og Berta fluttu sitt í hvora íbúðina með stóru barnahópana sína þá þótti ekki annað viðeigandi en að stytta það í Hornið og það var bara eitt Horn á Ísafirði, hin voru bara götu og kaupfélags. Þau ólust upp í kreppunni en öll systkinin hörkudugleg og vöndust snemma á að hjálpa til. Arnór Stígsson frá Horni sagði að þegar hann flutti til Ísafjarðar þá hefði verið umtalaður dugnaðurinn í þeim systkinum. Það var mikill barnaskari í kringum þau, þar voru systkinabörn og frændfólk og þar voru Mazza-púkarnir og Jóns Gríms og Ásu og þar voru æskuvinkonurnar Guðrún Häusler og Anna Helga og þarna myndaðist órofa ævivinátta við þau. Dídí vann hér í rækjuvinnslu sem unglingur, síðan flutti hún og systurnar sex suður í nám og atvinnu og þar kynntist hún Jalla sínum og áttu þau fallegt samband en hann var stýrimaður og skipstjóri hjá Eimskip. Hún fór iðulega með honum í siglingar til USA og heimsótti Dúdú systur sína. Þau eignuðust Bjarna, Sigga, Kjartan og Kolbrúnu og fjölskyldan stækkaði með árunum og Dídí var mikil fjölskyldu- og mannkostakona. Hún kom mikið heim með krakkana litla og síðustu ár með börnum sínum. Hún var sannkallaður „ættarhöfðingi“ okkar Hornapúkanna og fylgdist vel með sínu fólki, ótrúlega fallega frændrækin, trygglynd, minnug og fróð og hélt þvílíkt fallegri reisn fram undir það síðasta. Dídí átti oft við vanheilsu að stríða en hún hélt ótrauð sínu striki og bjó heima þar til í haust. Hún var létt í lundinni, glaðlynd, viðræðugóð og hláturinn eins og í smástelpu svo innilegur og hjartanlegur. Þau systkini voru öll svo innilega miklir Ísfirðingar þótt þau flyttu suður og ein erlendis. Við áttum góðar frænkustundir í vetur, skömmu fyrir andlátið hennar. Ég fékk heimsins fallegasta faðmlag þegar við kvöddumst og hún bað fyrir ástarkveðju til fjölskyldunnar okkar og til Mazza-púkanna, Agga Jóns og allra og til fjallanna heim á Pollinn og alls í faðmi fjalla blárra. Ég og við fjölskyldan þökkum elsku frænku fyrir fallega og góða samfylgd í lífinu og allt. Elsku Bjarni, Siggi, Kjartan, Kolla og ástvinir, við sendum ykkur hjartans fallegustu samúðarkveðjur frá Hornapúkunum heima

Bjarndís.