Björg Ágústsdóttir
Björg Ágústsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta sýnir að það er mikil trú á samfélaginu. Fólk er tilbúið að fjárfesta í fasteignum hér og fasteignamatið er að nálgast markaðsverð á svæðinu. Fermetraverðið er þó enn lágt,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta sýnir að það er mikil trú á samfélaginu. Fólk er tilbúið að fjárfesta í fasteignum hér og fasteignamatið er að nálgast markaðsverð á svæðinu. Fermetraverðið er þó enn lágt,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu hækkar um næstu áramót um 33,6% að meðaltali og er það með hæstu tölum sem birtust í nýútkomnu fasteignamati.

Mikill munur er á breytingum á matinu í sveitarfélögum og eftir atvikum þéttbýlisstöðum og hverfum innan sömu sveitarfélaganna. Þar sem miklar hækkanir hafa orðið, sérstaklega á minni stöðum, hefur fasteignaverð verið lágt en einhver hreyfing á eignum hefur þokað matinu upp, þótt það sé enn víða undir landsmeðaltali. Eru hækkanirnar því ákveðin leiðrétting.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, bendir á að hækkanir séu ákaflega misjafnar eftir þéttbýliskjörnum í sveitarfélaginu. Miklil hækkun varð á matinu á Seyðisfirði og Borgarfirði eystra enda hafi matið verið ákaflega lágt þar. Telur Björn að það sé nú að nálgast eðlilegt markaðsverð eigna á þessum stöðum. Einnig varð veruleg hækkun á mati eigna á Egilsstöðum en minni í Fellabæ og á Djúpavogi. Björn segir að töluverð eftirspurn hafi verið eftir eignum á Egilsstöðum og eignir hækkað í verði, en það þó komið honum á óvart að sjá tæplega 25% hækkun fasteignamats þar. Töluvert sé byggt og góð sala í eldri eignum, enda fjölgi íbúum.

Þórdís Sif segir að íbúum fjölgi stöðugt og ekki hafist undan að byggja íbúðir og þess vegna sé nokkur skortur á húsnæði. Sveitarfélagið reyni að stuðla að uppbyggingu með úthlutun lóða og skipulagningu nýrra. Það er fyrst og fremst uppbygging fiskeldis og tengdra greina sem veldur fjölgun íbúa, sem og mikil aukning í ferðaþjónustu yfir mesta ferðamannatímann.

Grundarfjarðarbær er eina sveitarfélagið þar sem mat á fasteignum lækkar milli ára, lækkunin nam tæpu prósenti. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri segir að þetta komi dálítið á óvart í ljósi hreyfingar á eignum. Hún segir að fyrri athuganir sýni að fasteignamat hafi staðið í stað á undanförnum árum. Þetta sé því ekki ný þróun. Björg segist eiga eftir að fá nánari skýringar á matinu nú, til dæmis hversu margir kaupsamningar séu þar að baki og hvort einhverjar leiðréttingar hafi verið gerðar. Hún reiknar með matið hækki á næstu árum vegna þess að verið sé að byggja og nýtt húsnæði á markaðnum leiði gjarnan til verðhækkunar.

Mat íbúðarhúsnæðis í Sveitarfélaginu Árborg og Hveragerðisbæ hækkaði um 8,5-9% í ár sem er nokkuð undir landsmeðaltali. Á síðasta ári varð methækkun í þessum sveitarfélögum, yfir 30%. Fjóla Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, segir að hækkunin sem varð í fyrra hafi komið í kjölfar mikillar íbúafjölgunar og spennu á markaðnum. Hún segir ekki hægt að tala um matið nú sem bakslag. Áfram hafi verið mikil uppbygging en markaðurinn sé líklega í meira jafnvægi. Hún segir að hækkun matsins á undanförnum árum sé staðfesting á því að vænlegt sé að fjárfesta í húseignum í sveitarfélaginu.

Athugað við gerð áætlana

Matið var birt í fyrradag og bæjarstjórarnir eru ekki tilbúnir að gefa út yfirlýsingar um hvort breytingar í einstökum sveitarfélögum gefi tilefni til að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda eða hækka. Það mál verði tekið til meðferðar við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár. Þegar matið hækkar mikið myndast þrýstingur á að lækka prósentuna og þegar matið lækkar huga sveitarfélögin gjarnan að því hvernig þau geti bætt sér upp tekjumissinn.

Björn Ingimarsson á ekki von á miklum breytingum. Hann segir að margar eignir hafi verið lágt metnar og ekki skilað miklum tekjum til að standa undir þjónustu sveitarfélagsins. „Það er ánægjulegt þegar fasteignir nálgast eðlilegt mat og eignir íbúanna fá sanngjarnara verðmat.“

Þórdís bendir á að þótt matið hækki hlutfallslega mikið sé fermetraverð eigna í sveitarfélaginu enn lágt og skoða þurfi fasteignaálögur með tilliti til þess við næstu fjárhagsáætlunargerð.

Höf.: Helgi Bjarnason