Leikkonan Kim Cattrall fór með hlutverk Samönthu í Sex and the City.
Leikkonan Kim Cattrall fór með hlutverk Samönthu í Sex and the City. — AFP/Dia Dipasupil
Kim Cattrall snýr aftur sem Samantha Jones í annarri þáttaröðinni af And Just Like That sem er framhald af sjónvarpsþáttunum vinsælu Sex and the City þar sem Sarah Jessica Parker fer með hlutverk Carrie Bradshaw

Kim Cattrall snýr aftur sem Samantha Jones í annarri þáttaröðinni af And Just Like That sem er framhald af sjónvarpsþáttunum vinsælu Sex and the City þar sem Sarah Jessica Parker fer með hlutverk Carrie Bradshaw. Variety greindi fyrst frá málinu. Þar kemur fram að Jones muni aðeins leika Samönthu í einni senu, en upptökur fóru fram í New York í mars. Í senunni ræðir Samantha, sem í þáttunum er flutt til London, við Carrie í síma.

Í fyrstu þáttaröðinni af And Just Like That mátti sjá þegar Carrie sendi Samönthu textaskilaboð til að bæta samskiptin og undir lok þáttaraðarinnar voru þær búnar að sammælast um að hittast til að slíðra sverðin. Þáttaröðin fer í loftið síðar í mánuðinum, en þátturinn með símtalinu verður ekki sýndur fyrr en í ágúst.

Aðdáendur Sex and the City kætast vafalítið yfir þessum fréttum, en þættirnir nutu mikilla vinsælda þegar þeir voru sýndir á HBO á árunum 1998 til 2004, auk þess sem gerðar voru tvær kvikmyndir (2008 og 2010) um vinkonurnar fjórar, Carrie, Samönthu, Miröndu (Cynthia Nixon) og Charlotte (Kristin Davis). Þættirnir And Just Like That fóru í loftið 2021 eftir að hætt hafði verið við gerð þriðju kvikmyndarinnar.

Í viðtali við Variety 2022 upplýsti Cattrall að henni hefði ekki verið boðið að leika í And Just Like That og tók fram að hún raunar hefði verið tilbúin að kveðja Samönthu fyrir fullt og allt eftir frumsýningu kvikmyndarinnar Sex and the City 2 þar sem henni fannst persóna hennar ekki fá að þróast. Raunar lýsti Cattrall því þegar yfir 2016 að hún hefði ekki lengur áhuga á að leika Samönthu og leiddi sú yfirlýsing til þess að þær Parker urðu ósáttar. Í framhaldinu ákváðu framleiðendur And Just Like That að skrifa Samönthu út úr vinkvennahópnum, við litlar vinsældir aðdáenda. En nú virðast sættir í sjónmáli.