Fjölskyldan Vigdís, Jesper og dætur eftir hlaupið „Royal Run“ á öðrum í hvítasunnu þar sem þau hlupu 10 km.
Fjölskyldan Vigdís, Jesper og dætur eftir hlaupið „Royal Run“ á öðrum í hvítasunnu þar sem þau hlupu 10 km.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vigdís Finnsdóttir fæddist 2. júní 1973 í Kaupmannahöfn en flutti heim til Íslands þegar faðir hennar kláraði nám í arkitektúr en móðir hennar var í vinnu hjá Icelandair. Þau fluttu í Vesturbæinn og bjó Vigdís þar þangað til á fullorðinsárum

Vigdís Finnsdóttir fæddist 2. júní 1973 í Kaupmannahöfn en flutti heim til Íslands þegar faðir hennar kláraði nám í arkitektúr en móðir hennar var í vinnu hjá Icelandair. Þau fluttu í Vesturbæinn og bjó Vigdís þar þangað til á fullorðinsárum.

Skólagangan hófst í Melaskólanum og síðan í Hagaskóla og Vigdís spilaði handbolta með KR. „Ég er klassískur Vesturbæingur. Allar mínar æskuvinkonur eru úr Vesturbænum eða úr KR. Við erum ennþá mjög sterkur hópur sem ég hitti alltaf þegar ég kem heim og það er alltaf eins og við höfum sést í gær. KR gaf mér ekki bara handboltann og vini, heldur mótaði mig sem hugsjónamanneskju í að gefa til baka til félagsins og annarra iðkenda með sjálfboðavinnu og þjálfun.“

Vigdís varð bæði Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari með yngri flokkunum. Hún var kosin leikmaður ársins bæði í yngri flokkunum og í meistaraflokki í KR og einnig í Danmörku þegar hún spilaði þar í 1. deildinni. Auk þess spilaði hún í öllum unglingalandsliðum og var í æfingahóp í A-landsliðinu.

Vigdís varð stúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, var í lýðháskólanum Nordjyllands idrætshøjskole í Brønderslev 1995-96, lauk B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1999 og diplóma í sérkennslufræðum frá CVU København og Nordsjælland 2006.

„Ég byrjaði snemma að vinna, passaði börn, var sendill hjá Úrvali og vann í kirkjugörðunum svo eitthvað sé nefnt. Á menntaskólaárunum byrjaði ég hjá ÍTR og var þar í mörg ár. Ég hélt mig við Vesturbæinn og var í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli sem var til húsa í KR. Ég átti mörg góð ár þar. Þessi ár sannfærðu mig um að börn, kennsla og stjórnun hentuðu mér. Eftir Kennaraháskólann fór ég til Danmerkur og kenndi í sjö ár í grunnskóla á Frederiksbergi.“

Árið 2007 stofnaði Vigdís fyrirtækið Boutique Fisk ásamt eiginmanni sínum og bróður. Þegar mest var ráku þau sjö búðir á Kaupmannahafnarsvæðinu. Í dag reka þau tvær búðir – í Magasin du Nord og Torvehallerne. Árið 2014 stofnuðu þau Retreat, sem er kaffihús og -búð með hollu ívafi. Búðirnar urðu alls sjö og meðal annars tvær á Kastrup-flugvelli.

„Í kórónufaraldrinum þurftum við að loka flugvellinum og síðan höfum við hægt og rólega lokað öllum Retreat-búðunum. Árið 2020 opnuðum við Food Family sem er „take away“-staður á netinu. Sem sjálfstæður atvinnurekandi voru starfsmannamál mér alltaf hugleikin og liðsheildin hefur alltaf verið mitt mottó.“

Árið 2022 ákvað Vigdís að snúa aftur í skólageirann. „Ég fékk áhugaverða vinnu, þar sem ég er tengiliður milli skóla og íþrótta og tómstunda barna frá 6-13 ára. Yfirskrift þessa verkefnis er „Flere børn i fællesskaber“. Ég hef alla mína tíð haft mikinn áhuga á að leiðbeina börnum sem ekki alltaf passa inn í kassann. Ég hef alltaf lagt mig fram við að finna styrkleika þeirra. Þetta hef ég getað notað þegar ég rak fyrirtækin með marga starfsmenn og svo sannarlega líka í kennslunni.“

Vigdís hefur verið mjög áhugasöm um félagsstörf, bæði í tengslum við skóla og íþróttir. „Eftir að ég flutti til Danmerkur hef ég haldið áfram á þessari braut. Verið í foreldrastjórn bæði í leikskólum og grunnskóla stelpnanna minna og er stjórnarmeðlimur í „Skole og Forældre“,“ en það eru hagsmunasamtök skólanefndarmanna í grunnskólum.

„Ég starfa mikið fyrir B 1908, fótboltafélagið sem stelpurnar mínar spila með. Ég hef alltaf haft það sem markmið að styrkja hópinn frekar en einstaklinginn.“ Vigdís sat í fyrstu stjórn í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku, FKA-DK. Hún fékk síðan hvatningarverðlaun FKA-DK árið 2019.

Helstu áhugamál Vigdísar eru fjölskyldan og samvera með vinum. „Mikið af mínum frítíma fer í félagsstörf bæði með stelpunum mínum og í skólamálum. Ég er líka mikið fyrir að hreyfa mig. Við fjölskyldan erum líka mjög virk og erum dugleg að hreyfa okkur saman, hlaupum, spilum paddel-tennis, sem er blanda af tennis og veggtennis, og fótbolta, og eins og allir sem búa í Danmörku hjólum við allt sem við förum.

Þó að ég hafi búið í Danmörku í yfir 20 ár, þá er ég mjög stoltur Íslendingur og það er enginn í vafa um að ég komi frá Íslandi. Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að stelpurnar okkar þekki Ísland vel og að þær geti talað íslensku og hefur það tekist vel. Þær hafa sótt íslenskuskólann í Jónshúsi og allar íslenskar barnasamkomur hér í Danmörku. Einnig heimsækjum við Ísland mjög oft. Þær eru mjög góð norræn blanda.“

Fjölskylda

Eiginmaður Vigdísar er Jesper Lehmann, f. 14.9. 1976, framkvæmdastjóri. Þau gengu í hjónaband 14. október 2006 i Grafarvogskirkju, en faðir Vigdísar teiknaði hana. Þau búa á Thingvalla Alle á Amager. Foreldrar Jespers voru hjónin Orla Lehmann og Birthe Lehmann. Þau bjuggu í Slagelse en eru bæði látin.

Dætur Vigdísar og Jespers eru Anna-Vigdís Lehmann, f. 16.1. 2009, nemi í 7. bekk í Peder Lykke Skolen, og Anna-Frederikke Lehmann, f. 14.7. 2010, nemi í 6. bekk í Peder Lykke Skolen.

Bræður Vigdísar eru Björgvin Finnsson, f. 22.2. 1972, framkvæmdastjóri, býr á Amager, og Alfreð Örn Finnsson, f. 9.9. 1980, prestur og býr í Reykjavík.

Foreldrar Vigdísar eru Anna Jóhanna Alfreðsdóttir, f. 15.6. 1948 í Ósló, vann hjá SAS, Úrvali-Útsýn og Icelandair, og Finnur Björgvinsson, f. 18.9. 1946 í Reykjavík, arkitekt. Þau hafa verið gift í 55 ár og búa í Reykjavík.