Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
En hvað sem öðru líður hefur varnarsamstarfið við Bandaríkin tryggt farsæla stöðu Íslands og verður svo í ókominni framtíð.

Einar Benediktsson

Reykjavík hefur við fyrstu sýn ókunnugra yfirbragð hins skandinavíska. Höfuðborgir Norðurlandanna urðu ekki fyrir eyðileggingu heimsstyrjaldarinnar. Endurreisn Evrópu, sem beið eftir lyktum heimsstyrjaldarinnar 1939-1945, varð að veruleika með tilkomu Marshall-aðstoðar Bandaríkjanna. Þá birtast söguleg stórmenni í nútímaskilningi og má nefna þá Monnet, Gaspari, de Gaulle, Adenauer, Truman o.fl. sem verða eins og söguhetjur okkar til forna. Leiðtogarnir og þjóðir þeirra tengjast þá hugsjóninni um efnahagslegan og pólitískan samruna (integration) hins frjálsa heims.

Þessi mynd er þó ófullkomin því að við bætast áhrifin af hernaðarviðveru Bandaríkjanna frá því í heimsstyrjöldinni.

Svo virtist sem útþenslustefna Sovétríkjanna hefði að markmiði að Vestur-Evrópa, líkt og austurhlutinn, myndi lúta yfirráðum Stalíns.

Hefur það síðan verið sungið þrotlaust að við séum sérstök, erum ekki og verðum aldrei hergögnum búin til að verjast vopnaárás og aðild okkar að NATO er sögð í þessu samhengi jafngilda því að vera ætluð til árása en ekki varna.

Grimmdarleg og tilefnislaus árás Rússa á Úkraínu hefur leitt í ljós að Íslendingar styðja einhuga þá stefnu að Úkraína sé varin og studd á erfiðum tímum. Mikið er um það rætt að nýir tímar fari í hönd og að tækniþróun, síðast tölvugreind, leysi af gamlar kenningar um hernað. En hvað sem öðru líður hefur varnarsamstarfið við Bandaríkin tryggt farsæla stöðu Íslands og verður svo í ókominni framtíð. Þar við bætist að breytt stefna Svía og Finna færir Norðurlöndin saman í varnar- og öryggismálum. Þar á Ísland heima.

En lega okkar er strategísk í þeim mæli að hafa afgerandi þýðingu fyrir aðra. Það er athyglisvert að eftir hernaðarveru Bandaríkjanna á Íslandi frá 1941-2007 tóku Norðurlandaþjóðirnar fjórar að stunda, ásamt með Bandaríkjunum, eftirlitsflug með orrustuþotum sem staðsettar eru til skiptis í Keflavík.

Evrópusambandið er ekki beinlínis til varnar aðilum sínum þótt tilvist þess hljóti að virka mjög til öryggis. Það var upphaflega stofnað af sex ríkjum árið 1947 í þeim tilgangi að koma á sameiginlegum markaði þeirra aðila í tollabandalagi. Sambandið telur nú 27 aðildarríki, Bretland datt úr skaftinu en af Norðurlöndum eru Ísland og Noregur utangarðs. Upphaflega var það vegna fiskveiðilögsagna og afar ákveðinnar afstöðu Breta gegn stefnu okkar, en það heyrir til löngu liðinni fortíð. Tvö hundruð mílurnar og réttindi strandríkis tilheyra alþjóðalögum og eiga Íslendingar meginþátt í þeirri réttarbót. Því hlýtur aðild að ESB að koma til álita og þar með evran eða fastgengi og má benda á þróunina í Færeyjum því til stuðnings. Reyndar eru þeir og Danir með eigin mynt sem telst vera dulbúin evra.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.