Björg Finnbogadóttir fæddist á Eskifirði 25. maí 1928. Hún lést á Akureyri 23. maí 2023.

Foreldrar hennar voru Finnbogi Þorleifsson, útgerðarmaður og skipstjóri á Eskifirði, f. 19. nóv. 1889, d. 13. ágúst 1961, og Dóróthea Kristjánsdóttir, f. 14. des. 1893, d. 6. mars 1965.

Björg var yngst sex systkina sem öll eru látin. Systkinin eru, í aldursröð, Helga, Esther, Dóróthea, Alfreð og Rögnvaldur.

Eiginmaður Bjargar var Baldvin Þorsteinsson skipstjóri, f. 4. september 1928, d. 21. desember 1991. Foreldrar hans voru Þorsteinn Vilhjálmsson fiskmatsmaður og Margrét Baldvinsdóttir, ljósmóðir í Hrísey.

Börn Bjargar og Baldvins eru: 1) Þorsteinn Már, f. 7. október 1952. Börn hans og Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur eru Katla og Baldvin. 2) Margrét, gift Inga Björnssyni. Börn þeirra eru Ásta Björg, Þorsteinn og Björn. 3) Finnbogi Alfreð, giftur Karin Baldvinsson. Börn þeirra eru Baldvin Þór og Martha. Börn Finnboga og Önnu Jónu Guðmundsdóttur eru Fjölnir, Björg og María.

Langömmubörn Bjargar eru 11.

Björg ólst upp á Eskifirði til tíu ára aldurs þegar fjölskyldan fluttist til Akureyrar og þar bjó hún síðan.

Björg var sjómannskona og segja má að það hafi verið hennar ævistarf. Hún lærði hárgreiðslu og starfaði við fagið á sínum yngri árum og lauk starfsferli sínum einnig við þá iðn. Lengst af vann Björg hins vegar á skrifstofu sláturhúss KEA á Akureyri.

Íþróttir skipuðu stóran sess í lífi Bjargar. Hún lék handbolta og keppti á skíðum á sínum yngri árum, og renndi sér raunar í Hlíðarfjalli þar til á allra síðustu árum. Þá stundaði hún skauta af kappi á sínum tíma þegar Pollinn lagði. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var oft á tíðum sem hennar annað heimili, þar eignaðist hún fjölmarga vini sem hún hélt góðu sambandi við alla tíð. .

Björg heillaðist af golfíþróttinni á fullorðinsárum og stundaði hana af kappi með góðum vinum. Sást til hennar á golfvellinum síðasta sumar, þá 94 ára.

Björg var formaður Félags eldri borgara á Akureyri til margra ára. Hún fylgdist grannt með bæjar- og þjóðmálum og var annt um velferð samborgara sinna.

Útför Bjargar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júní 2023, og hefst klukkan 13.

Mömmur eru ekki einstakar ellegar sérstakar, þær eru einfaldlega allt. Það er þessi strengur sem þær tengja sig við okkur í byrjun. Ein misheppnaðasta tilraun mannkynssögunnar er að klippa á þennan streng, naflastreng, og telja þar með að tengslin séu rofin, virkar einfaldlega ekki. Við strákarnir losnum aldrei við hann. Nú fer næsta tilraun fram, dauðinn.

Mamma var forvitin, áhugasöm um málefni líðandi stundar en aðalatriðið var fólkið, einstaklingurinn, vinirnir, fjölskyldan – fólkið á bak við fréttirnar. Það voru allir jafnir fyrir mömmu. Það er stundum talað um að menn misstígi sig í þeim rússíbana sem lífsins ganga er, hjá mömmu hallaði aldrei á einn eða neinn. Hetjusögur sagðar af öllum, hið góða, hið magnaða í sögu hvers einstaklings var kallað fram. Allir voru hetjur, einstaklingurinn er góður.

Hafið, fiskurinn, markaðir, lífsbjörg Íslands og heimilanna var það sem líf mömmu snerist um. Foreldrar hennar, pabbinn skipstjóri og útgerðarmaður, fóru illa út úr „heimskreppunni“ og misstu lífsviðurværi sitt í verðfalli afurða og þegar markaðir lokuðust. Það hafa alltaf verið sveiflur í veiðum, markaðir farið upp og niður, jafnvel svokölluð vinalönd okkar lokuðu fyrir markaðsaðgang á tímum átaka um yfirráðaréttinn yfir lögsögunni. Mamma kenndi okkur snemma að hagur þjóðar, heimilisins, sjómannsheimilisins, sló í takt við heimsfréttirnar.

Mamma hefur sennilega kosið flesta pólitíska flokka sem boðið hafa fram, sumir kalla það stefnuleysi. Ég kalla það þor, fólkið í forsvari flokkanna var það mikilvægasta, síðan þurfti jú stundum að rétta kúrsinn af og það þýddi að nýtt fólk þurfti að fá tækifæri, t.d. framboð kvenna í íslenskum stjórnmálum. Íslandi hefur farnast vel með þessa kynslóð sem upplifði stöðugar breytingar, tók þátt í þeim, mótaði stefnuna í orði og æði og hafði stöðuga trú á unga fólkinu sem hafði menntunina og áræðið í farteskinu. Framtíðin var unga fólksins og gleðilegt var að sjá hvernig hún umgekkst fjórar kynslóðir með virðingu, áhuga og þekkingu á málefnum þeirra allra.

Það er lán að hafa átt þig að, takk fyrir allar stundirnar, margar eru minningarnar og myndirnar sem fara í gegnum hugann á þessum tíma. Ein stendur upp úr; það er fyrirmyndin, hún mun lifa. Anda þínum, gleðinni og áræðinu munum við afkomendur þínir leggja okkur fram við að koma til skila til næstu kynslóða.

Dauðinn gerir nú aðra tilraun til að slíta strenginn, sú tilraun er einnig dæmd til að mistakast. Ég veit hann verður nú eins og nýsleginn kaðall um ókomna tíð.

Finnbogi Alfreð.

Látin er á Akureyri tengdamóðir mín Björg Finnbogadóttir, oftast kölluð Bella, á 95. aldursári. Óhætt er að segja að þeir sem lifað hafa á Íslandi síðustu 95 árin hafi lifað tímana tvenna og kunni frá mörgu að segja.

Þannig var það með Bellu, sem fædd var á Eskifirði, en bjó lengst af og starfaði á Akureyri, hún kunni frá mörgu að segja. Ég hafði mjög gaman af að ná henni á flug við eldhúsborðið og hlusta á frásagnir hennar af mönnum og málefnum samtímans allt aftur til fyrri hluta síðustu aldar. Bella þekkti ógrynni af fólki og átti margar sögur í fórum sínum sem ekki þættu allar prenthæfar. Að þeim sögum hló hún oftast sjálf býsna dátt.

Það einkenndi allt lífshlaup Bellu að hún var sjómannskona. Hún var heima og ól upp börnin á meðan eiginmaður hennar, heiðursmaðurinn Baldvin Þorsteinsson, var til sjós og aflaði. Eins og títt er um sjómannskonur þurfti Bella að sjá um flesta hluti heima við í löngum fjarverum eiginmannsins, heimilisreksturinn, peningamálin, uppeldið, viðhald hússins og þar fram eftir götum. Bella var ákaflega dugmikil og áræðin, gekk í öll verk sem þurfti að sinna og var jafnvíg hvort sem var á saumnál, prjóna, hamar eða pensil.

Bella tók miklu ástfóstri við Hlíðarfjall og dvaldi þar löngum við skíðaiðkun með börnum sínum. Í fjallinu kynntist Bella fjölda fólks, jafnt heimamönnum sem aðkomufólki. Það var oft gestkvæmt í Kotárgerði hjá Bellu og Balda enda voru þau gestrisin með afbrigðum. Alltaf var opið hús fyrir skíðafólk, jafnt í fæði sem húsnæði. Naut ég ríkulega þessarar gestrisni þegar ég fór að venja komur mínar í Kotárgerði til að hitta heimasætuna. Ekki get ég sagt annað en að Bella hafi tekið mér afbragðsvel strax frá fyrstu tíð. Var ég alltaf velkominn, líka þegar ég reyndi að komast inn um miðjar nætur, dóttirin steinsofandi og heyrði ekki að barið var á gluggann, þá birtist Bella og hleypti mér inn bakdyramegin.

Í huga Bellu var ekki til neitt kynslóðabil. Hún umgekkst fólk á öllum aldri og allir voru jafnir fyrir henni. Barnabörnin hændust að henni, hún talaði og lék við þau, spilaði við þau og púslaði með þeim, alveg af sama kappi og þau. Stundum fór hún í flóknari púsl og þá þurfti nú aldeilis að passa að halda litlu puttunum frá til að halda friðinn. Það segir líka ýmislegt um Bellu að vinir barnanna hennar litu líka á hana sem sinn vin og heimsóttu hana þó upphaflegu vinirnir væru víðs fjarri og jafnvel fluttir að heiman.

Já, það var alltaf fullt í kringum Bellu og svo þekkti hún nánast hvern einasta mann á Akureyri. Það var ekki hægt að fara með henni í bæinn því hún þurfti að tala við hvern þann sem hún mætti. Gaman var hins vegar að keyra með henni út í sveit þar sem hún þuldi upp nöfn allra bæja og ábúenda og kunni af þeim sögur.

Bella var kraftmikil og atorkusöm. Til allrar hamingju var hún við góða heilsu og naut lífsins allt fram á síðustu stundu. Hún var þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert og kvaddi sátt.

Ég kveð tengdamóður mína með þökk og virðingu.

Ingi Björnsson.

Elsku besta Bella mín.

Mikið er ég þakklát fyrir vináttu þína og elsku þau rúmlega 40 ár sem við höfum þekkst. Ég var bara 18 ára er ég kom fyrst í Kotárgerði 20 og var ákaflega vel tekið frá fyrsta degi. Þú komst af fullum krafti að læstum herbergisdyrunum og grínast var með það í mörg ár að farið þitt væri enn á hurðinni, en þú varst ekki vön því að dyrnar væru læstar. Þú sendir brauð með hnetusmjöri niður að morgni, sem mér þótti sérkennilegt álegg, ekki vön því af Króknum. En eins og með margt annað, elsku Bella, þá kenndir þú mér að meta það. Fyrir unga verðandi móður var það ómetanlegt að geta leitað til þín, því þú áttir ráð undir rifi hverju. Þú varst ávallt boðin og búin að hjálpa. Einu sinni sem oftar vorum við á spjalli á laugardagsmorgni haustið 1981. Þú varst að stússast í tiltekt í svefnherberginu ykkar Balda, ég var hjá þér og við spjölluðum um heima og geima eins og við gerðum gjarnan. Þá veit ég ekki fyrr til en þú snarast upp á stól, teygir þig í eitthvað í skápnum og skellir því á rúmið; skírnarkjóllinn sem væntanlegt barnabarn átti að skírast í og það á sjómannadaginn! Það mætti nú ekki minna vera, enda báðir afarnir skipstjórar! Ég var ung verðandi móðir að reyna að sýna sjálfstæði og bunaði því út úr mér að það væri ekki víst að við ætluðum að láta skíra barnið. Þú horfðir ákveðið á mig og sagðist nú bara aldrei hafa heyrt þvílíka vitleysu! Já, þú lást ekki á skoðunum þínum og maður vissi alltaf hvar maður hafði þig. Þú varst yndisleg amma og okkur öllum góð fyrirmynd. Ég veit að Baldi hefur beðið þín með útbreiddan faðminn og saman dansið þið á grundunum grænu í sumarlandinu. Blessuð sé minning Bellu.

Þín,

Anna Jóna.

Elsku amma. Það er sárt að þurfa að kveðja þig en á sama tíma erum við þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum með þér. Þú varst aldrei gömul og alls ekki jafn gömul og árin sögðu til um, hvorki í anda, útliti né heilsu, og áttir eftir að gera alveg heilan helling.

Þú varst mikill vinur okkar og hafðir einskæran áhuga á öllu sem gerðist í okkar lífi. Þú þekktir alla vini okkar og allir vinir okkar þekktu þig. Amma Bella, alltaf á hjólinu, í fjallinu, á golfvellinum. Alltaf að gera eitthvað. Það var gott að leita til þín með ráðleggingar en því fylgdu líka stundum athugasemdir sem enginn bað um. Þú sagðir hlutina bara nákvæmlega eins og þeir voru. Skemmtilega hreinskilin. Þú varst alltaf glöð og alltaf jákvæð, einhvern veginn alltaf í góðu skapi. Oft upptekin, en hafðir alltaf tíma fyrir okkur. Við viðurkennum að það gat tekið á þolinmæðina að fara með þér í bæinn eða búðina, því okkur fannst þú þurfa að tala við alla hina sem voru í bænum eða búðinni. Okkur fannst þú þekkja bókstaflega alla, sem þú náttúrlega gerðir.

Samband þitt við langömmubörnin var svo yndislegt og þú varst svo mikill vinur þeirra, í berjamó, á skíðum, í ferðalögum og að spila. Þegar þú lékst við barnabarnabörnin þá þurfti ekki að róa börnin heldur þig, þá 90 og eitthvað ára gamla, oft í feluleik og jafnvel eltingaleik.

Þú varst sannkallaður ættarhöfðingi og risastórt skarðið sem þú skilur eftir þig. Það að vera ömmubarnið þitt hefur veitt okkur ákveðið forskot í lífinu, það var nefnilega gæðastimpill sem þér fylgdi.

Elsku amma, þú hefur kennt okkur svo margt og sýnt okkur hvað hægt er að afreka, þú munt verða okkar fyrirmynd um ókomin ár.

Takk fyrir samveruna elsku amma og við vitum að afi tekur vel á móti þér.

Ásta Björg, Þorsteinn og Björn.

Veit ekki hvernig ég á að byrja að skrifa um ömmu Bellu, en allir sem þekktu hana eru sammála um að hún var engri lík. Við amma áttum einstaklega fallegt samband. Við ferðuðumst mikið saman og það var alltaf nóg að gera og gaman hjá okkur. Hvort sem það var að koma til hennar kl. 8 á morgnana og gera okkur morgunmat eða fara í golf saman – þar sem hún ætlaði fyrst bara að leyfa mér að pútta því ég kunni ekki nógu vel golf til að halda í við hana – eða að borða með henni kvöldmat og spjalla um lífið, skíða með henni eða bara fara á rúntinn. Frá hverjum golfleiðangri eða degi okkar saman hef ég sögur að segja og meira að segja er ég með möppu í símanum hjá mér sem ég hef glósað í eftir góðar stundir, bara til þess að gleyma þeim ekki. Hún var svo ótrúlega fyndin, konan.

Í æsku þegar ég gisti hjá henni fórum við með bænir saman og sögðum brandara og í seinni tíð þegar við gistum saman á ferðalögum naut ég þess að spyrja hana um lífið hennar í æsku og lífið með afa og spá og spekúlera í minni framtíð. Svo auðvitað var alltaf spilað og fengið sér kaffi og með því, en það merkilegasta yfir höfuð við hana ömmu, var að hún hafði alltaf meira þol en ég í einu og öllu. Þvílíkur kraftur og orka sem hún bar með sér.

Amma kvartaði ekki og bar sig alltaf með reisn. Stóð bein í baki og með kassann út hvert sem hún fór og það er bara eitt af því sem ég tek til fyrirmyndar eins og fjölmargt í hennar fari.

Ég hringdi í hana um páskana og hún hafði verið lasin. Hún spurði mig strax hvort ég væri á leiðinni. Ég svaraði því að ég kæmi eftir tvær vikur og þá myndum við hittast. Hún svaraði engu, svo ég spurði hvort hún væri enn á línunni. Þá segir hún mjög hneyksluð „tvær vikur, María! Ég ætla að vera löngu dauð fyrir þann tíma! Geturðu ekki bara komið núna?"

Við hittumst svo eftir tvær vikur og áttum yndislegar stundir. Elsku amma Bella fór með reisn, sátt við lífið og allt sitt. Eftir sitja minningar sem að ylja að eilífu.

Amma mín, ég hlakka til að sjá þig næst. Þinn litli demantur,

María Finnbogadóttir.

Elsku amma.

Takk fyrir að sýna það í verki hvað það þýðir að lifa lífinu lifandi. Sama hvað gerðist, þú gerðir alltaf það besta úr öllu og lést fátt slá þig út af laginu. Það hafa verið mikil forréttindi að alast upp með þig sem ömmu. Þú gast einhvern veginn allt, og gerðir það sem þér datt í hug – sem varð þó stundum til þess að við ættingjarnir hálfhristum hausinn og hugsuðum: Hvað er hún að gera núna, en af þeim uppátækjum koma hins vegar bestu sögurnar.

Ég var svo heppin að vinna tvisvar í ömmu-lottói lífsins og þess vegna hef ég, frá því að ég man eftir mér, hlakkað til að verða virkilega „gömul”. Fyrir mér virtist ekkert betra í lífinu en að verða amma, því þið báðar lifðuð lífinu eins og heimurinn væri leikvöllur sem væri opinn öllum þeim sem föttuðu að hann væri til. Þú hafðir svo mikinn áhuga á lífinu og fólkinu og það var hreint ótrúlegt hvað þú vissir um allt og alla. Það var talað um fólk og ættir raktar, en þú talaðir ekki illa um neinn. Þar skein áhugi þinn á lífinu og öllu sem það hefur upp á að bjóða, vel í gegn.

Þú hættir aldrei að læra og gerðir þitt besta við að skilja nútímann og tæknivæðinguna með iPad-tímum og fleiru. Einu sinni kom ég með útprentaðar myndir til þín sem ég hélt að myndu gleðja þig, en þá varstu löngu búin að sjá þær á Facebook og fannst þær bara ómerkilegar. Við gátum rifist um hegðun fólks í dag, hvað má og hvað ekki, og þó við værum ósammála skein hér í gegn hvað þú vildir skilja heiminn.

Við áttum mörg ævintýri saman, en minnisstæðust eru kannski símtölin okkar þar sem við báðar grétum af hlátri. Þú vildir alltaf vita allt sem var í gangi og við gátum alveg hlegið okkur máttlausar, sérstaklega yfir heppni og óheppni í ástamálum. Þú varst með húmor á við hinn versta sjóara, og varst alltaf með bestu brandarana. Þeir voru oft svo langt undir mittisbeltinu að við hreinlega gátum ekki þýtt þá fyrir útlensku makana okkar. Skemmtilegast var að verða vitni að símtölum þín og pabba, þið voruð með húmor ykkar á milli sem ekki er hægt að segja frá, en það var fátt betra en þegar þú skríktir af hlátri.

Við vorum nú ekki alltaf sammála og gátum tekist á um ýmis málefni, en það var ávallt stutt í hláturinn. Sem nafna barðist ég hörðum höndum fyrir því frá því að ég man eftir mér að vera ekki kölluð litla Bella, en þvílíkur heiður sem það hefur verið að fá að bera þitt nafn.

Takk, elsku amma, fyrir að vera nákvæmlega eins og þú varst, þó svo að það sé erfitt að samtölin okkar og ævintýrin verði ekki fleiri, veit ég að þú ert hamingjusöm og hlæjandi með afa. Minning þín mun lifa í gegnum alla þá sem þú snertir í gegnum lífið, og sögurnar um ofurkonuna Bellu munu sennilega með tímanum verða að goðsögnum.

Þín nafna,

Björg Finnbogadóttir.

Bella móðursystir er fallin frá og það er mikill missir að hafa hana ekki lengur sem þátttakanda og fyrirmynd í lífi sínu. Í öllum mínum samtölum, kennslu og skrifum þar sem ég hef verið að fjalla um persónur eða eiginleika sem stuðla að betra lífi, hef ég löngum tekið hana móðursystur mína sem dæmi um það hvernig á að lifa lífinu lifandi.

Þegar hún vann á hárgreiðslustofunni kom ég stundum til hennar og var svo stolt að eiga hana sem frænku. Það var líka hún sem rúllaði upp hárið á mér fyrir ferminguna mína enda þakkaði ég henni hvað hárið mitt var flott.

Ég man þegar ég sá hana fyrst með Balda sínum hvað ég varð skotin í honum, þá u.þ.b. 4 ára og ég ætlaði að ná í svona góðan og flottan mann. Þau voru líka svo ástfangin og þegar þau eignuðust hann Máa sinn fannst mér svo gaman að koma og fá að keyra vagninn hans. Seinna passaði ég líka Möggu og Finnboga enda var ég stóra frænkan í fjölskyldunni.

Bella bar mikla umhyggju fyrir allri stórfjölskyldu sinni og hélt stórar veislur til að láta ættingjana hittast og kynnast enda var hún lengst af heiðursgestur á öllum viðburðum.

Hún var guðmóðir allra barnanna minna og fylgdist alltaf með öllu sem gerðist í lífi þeirra. Þegar hann Helgi Þór minn flutti til Akureyrar 10 ára gamall og var ekki sáttur að koma í nýtt umhverfi, þá hjálpaði hún honum að aðlagast með því að taka hann með sér í fjallið á hverjum degi og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn glaður með lífið og tilveruna fyrir norðan. Hún leiðbeindi líka Vilhjálmi og Þórdísi þegar þau voru að byrja á skíðunum og þau minnast hennar með mikilli virðingu og þakklæti fyrir allt sem hún gerði fyrir þau.

Ég sé hana fyrir mér í eldhúsinu sínu í Löngumýri þar sem hún stendur og er að útbúa nesti fyrir daginn í fjallinu en um leið gat hún spjallað við mig og leiðbeint mér um það sem mér lá á hjarta. Hún kunni alltaf svör og ráðleggingar við vandamálum óöruggu unglingsstúlkunnar. Það var svo gott að eiga hana að. Seinna þegar ég flutti aftur í heimabæinn tók hún svo vel á móti mér og ég fékk að njóta þess að hafa hana og Balda í jólaboðum og við önnur tækifæri. Þá var nú gott að geta leitað til hennar varðandi undirbúning. Hún bjó til þær bestu fiskibollur sem ég hef fengið og hún hélt því alltaf fram að uppskriftin væri komin frá mömmu minni.

Þegar ég kom norður nú síðustu árin og vildi bjóða henni út á veitingahús vildi hún oftast að ég kæmi til hennar og þá stjanaði hún við mig og bakaði kannski vöfflur eða kom með köku. „Þú sest niður í góðan stól, Didda mín,“ sagði hún kannski, „og hvílir þig.“

Áhugi hennar á því sem ég og aðrir sem tengdust mér vorum að gera var mikill og einlægur og alltaf talaði hún svo vel um alla sína samferðamenn og sagði mér sögur af sínu fólki sem hún var svo stolt af.

Ég votta fjölskyldu hennar mína innilegustu samúð, það er gott að eiga góða minningu um góða mömmu, tengdamömmu, ömmu, langömmu og frænku sem lifði vel og lengi og setti svip á lífið sem við lifum. Hún lifir með okkur.

Þín Didda.

Dóróthea Bergs.