Sesselja Pálsdóttir fæddist 14. febrúar 1948 í Stykkishólmi. Hún varð bráðkvödd 15. maí 2023.

Foreldrar hennar voru Páll Oddsson, f. 1922, d. 2002, og Sæmunda Þorvaldsdóttir, f. 1926, d. 1986. Systkini Sesselju eru Áslaug, Ásgerður, Böðvar og Þorvaldur, öll látin.

Eiginmaður Sesselju er Þorbergur Bæringsson, f. 1943, húsasmíðameistari, en þau giftust hinn 17. desember 1966. Foreldrar hans voru Bæring Elísson, f. 1899, d. 1991, bóndi, fyrst í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit og síðan á Borg í Stykkishólmi, og Árþóra Friðriksdóttir, f. 1904, d. 1990, húsfreyja. Börn Sesselju og Þorbergs eru: 1) Kristín Jóhanna, f. 1967, hjúkrunarfræðingur. 2) Páll Vignir, f. 1969, húsasmíðameistari hjá Þ.B. Borg ehf., kvæntur Steinunni I. Magnúsdóttur, börn þeirra Sesselja Gróa, f. 1992, Andrea Kristín, f. 1996, og Vignir Steinn, f. 2001. Barnabörn þeirra eru Agla Marín og Hrafntinna Embla. 3) Sæþór Heiðar, f. 1971, matreiðslumeistari og eigandi Narfeyrarstofu í Stykkishólmi, kvæntur Steinunni Helgadóttur, börn þeirra Þorbergur Helgi, f. 1993, og Aníta Rún, 1996, barnabarn þeirra er Ágúst Heiðar. 4) Berglind Lilja, f. 1980, viðskiptafræðingur og fjármálastjóri hjá Sýslumanni Vesturlands, synir hennar eru Bæring Berg, f. 2017, og Páll Berg, f. 2019.

Í Hólminum ólst Sesselja upp og bjó alla tíð. Hún gekk í Barna- og gagnfræðaskóla Stykkishólms og lauk þar landsprófi 1964.

Sesselja hóf störf hjá Pósti og síma við símavörslu að skólagöngu lokinni. Hún vann síðar við fiskverkun á vertíðum eins og tíðkaðist og sinnti afleysingum í símavörslu. Hún var gangavörður í Grunnskólanum frá 1985-87, en hóf þá aftur störf hjá Pósti og síma og starfaði til 1992. Auk þess var hún umboðsmaður Sjóvár í Stykkishólmi á 1981-2001 og aftur frá 2007, eða um þrjá áratugi. Árið 1992 stofnaði Sesselja verslunina Heimahornið í samstarfi við frænku sína, Þórhildi Pálsdóttur. Þær stafræktu verslunina samfellt í rúmlega 24 ár.

Sesselja starfaði í Kvenfélaginu Hringnum Stykkishólmi í áratugi og var þar formaður nokkrum sinnum. Sesselja var formaður HSH í eitt ár og sat í sóknarnefnd Stykkishólmskirkju í mörg ár, var stofnfélagi í Eflingu Stykkishólms og hefur setið þar í stjórn.

Sesselja var mikill Hólmari og lagði ýmsum málefnum lið sem henni voru hjartfólgin. Árið 2005 voru 160 ár liðin frá því að Árni Thorlacius hóf fyrstur manna að gera veðurathuganir í Stykkishólmi. Í tilefni þess ákvað Sesselja að safna fyrir vefmyndavél þar sem hægt er að fylgjast með veðrinu við höfnina. Vélin var sett upp á Amtsbókasafninu. Söfnunin gekk vonum framar og einnig var hægt að kaupa þrjú hljóðkerfi, tvö fyrir grunnskólann og eitt fyrir dvalarheimilið, ásamt nokkrum útibekkjum sem komið var fyrir á góðum stöðum í bænum. Í kjölfar þessa framtaks hlaut Sesselja nafnbótina „Hólmari ársins 2006“. Hún var einnig í hópi fimm aðila sem unnu að söfnun fyrir nýju pípuorgeli í Stykkishólmskirkju.

Útför fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 2. júní 2023, klukkan 14.

Æskuárin eru tími vináttunnar og þau bönd sem þá hnýtast rakna aldrei. Það var okkur dýrmætt að eignast Sesselju, sem æskuvinkonu og frænku, og næstum dagleg samskipti okkar alla tíð segja allt um væntumþykju og tryggð okkar í milli. Það var okkur yndislegt að slíta barnsskónum í Hólminum og ekki lakara að fá að eiga heima „uppfrá“ þar sem leikfélagarnir voru margir með Ytri höfðann, skólalóðina, Möngubæjarbrekkuna og Pallatjörnina sem aðalleiksvæði. Við áttum mjög góðan skóla með kraftmiklu félagslífi, Snæfell og barnastúkan Björk voru öflug svo og tómstundastarf með St. Franciskussystrunum. Bernskuárin liðu líka hratt og handan við hornið beið alvara lífsins, því kornungar stofnuðum við heimili með allri þeirri ábyrgð sem því fylgir. Og þegar fyrsti strákurinn minn fæddist var ekki ónýtt að eiga Sesselju að og bera saman bækurnar. Við áttum því láni að fagna að vera í yndislegum saumaklúbbi sem hélt vel saman og skilur eftir ljúfar minningar. Sesselja var löngum fyrirferðarmikil í félagsmálum í Hólminum, ávallt drífandi og bjartsýn fyrir hans hönd, og þar sem hún kom að lét hún muna um sig, eðlislag hennar var þannig. Í bæjarmálavafstrinu var oft hollt að fá upphringingu frá Sesselju frænku með góð ráð eða jafnvel umvöndun. Maklegt er að nefna það, enn einu sinni, hversu dýrmætir slíkir einstaklingar eru fámennum byggðum. En Sesselja hikaði ekki heldur að fara upp á stóra sviðið í þjóðmálaumræðunni og var óþreytandi að lesa landsfeðrunum pistilinn, í ræðu og riti, þegar málefnin brunnu á henni. Sesselja hafði til að bera ríka réttlætiskennd og var ákveðin og óhrædd að standa með sannfæringu sinni, gagnvart þeim sem ráða för, til að bæta samfélagið. Atorkusemi Sesselju fékk einnig aðra útrás, liðið hennar hefur mikil og vaxandi umsvif í atvinnurekstri sem henni leiddist ekki að taka þátt í. Sjálf átti hún og rak, ásamt Heddý frænku sinni, öfluga gjafavöruverslun í tvo áratugi. Og nú hefur elskuleg vinkona og frænka kvatt okkur skyndilega, sjálf hafði hún upplifað mikla sorg er nánasta fólkið hennar féllu frá á besta aldri. Þá reyndi mikið á Sesselju okkar, en einlæg trú hennar og vissa um endurfundi veitti henni styrk og þrek og hún var sá klettur sem andstreymi margra brotnaði á.

Á skilnaðarstundu sendir fjölskylda okkar hjartans þökk fyrir samfylgdina og minningarnar um ástkæra frænku og vin mun lifa.

Kæri Bergur, Stína, Palli, Sæi, Berglind og fjölskyldur, megi góður Guð varðveita ykkur og gefa ykkur styrk í sorginni.

Blessuð sé minning Sesselju Pálsdóttur.

Hennar bíða vinir í varpa.

Jóhanna og Ellert.

Það var mikið lán fyrir Ísland og Stykkishólm að hún Sesselja okkar bjó hér. „Ef enginn gerir neitt, þá gerist ekki neitt.“ Þetta vissi Sesselja mætavel alla tíð og lét verkin tala. Hún lét sér annt um bæinn sinn og fór, ein síns liðs, í það að safna fyrir útimyndavél sem yrði á Amtsbókasafninu, í beinu streymi yfir fallega hafnarsvæðið í Stykkishólmi. Söfnunin gekk framar vonum hjá henni og keypti hún þá bara líka nokkra bekki til að staðsetja við göngustíga hér og þar um bæinn, þannig að fólk gæti hvílt sig á göngu sinni og notið útsýnisins í leiðinni. Og þar sem hún vissi að það vantaði líka hljóðkerfi í grunnskólann þá splæsti hún bara líka í það.

Þau hjónin komu líka af stað söfnun fyrir „róbóta“ til að nota við krabbameinsaðgerðir. Þau sáu þörfina fyrir Ísland að eiga slíkt þarfaþing. Söfnunin hófst með boði í afmæli: „Afmælisgjafir afþakkaðar – en framlag til þessa verkefnis vel þegið.“ Þetta varð til þess að flýta þessum innkaupum hingað til lands. Það kom því ekki á óvart að hún skyldi vera kosin Hólmari ársins 2005, með afgerandi hætti.

Hún hefur séð um minningarkort fyrir Stykkishólmskirkju í mörg ár og var mikil kvenfélagskona. Hún var líka með mér í stjórn Eflingar Stykkishólms. Ef eitthvað sérstakt þurfti að gera, þá var hún alltaf boðin og búin að leggja hönd á plóg. Hún var virkilega hjartahlý, bóngóð, yndisleg og ósérhlífin kona.

Hún las blöðin jafnan mjög vel og sæi hún eitthvað þar sem til bóta gæti orðið fyrir land og þjóð, þá sendi hún bréf til þingmanna til að minna á að það væri verk að vinna, og máli hennar til stuðnings fengu þeir úrklipptar greinar úr blöðunum.

Við fórum til Ástralíu ásamt dætrum okkar í brúðkaupsveislu til skiptinema sem var hjá okkur Pétri, en sú var mikil vinkona okkar allra. Við Sesselja skörtuðum upplutum í veislunni og nutum gestrisni fjölskyldu „Skippýjar“ og smökkuðum með þeim kengúru- og krókódílakjöt ásamt ýmsu öðru. Þetta voru margar og dásamlegar upplifanir fyrir okkur. Dæturnar ferðuðust síðan með „the older ladys“ um álfuna og varð þessi ferð okkur öllum ógleymanleg.

Núna er ekki orðið eins hvetjandi fyrir mig að fara í heilsubótargöngu um bæinn, þar sem ég get ekki komið við hjá vinkonu minni og fengið kaffi, og spjall í leiðinni.

Fjölskyldan var Sesselju allt og rúmlega það. Hún fylgdist mjög vel með öllu sem hjá henni var að gerast og vildi – og reyndi – að gera allt sem hún mögulega gat fyrir alla þar. Ég sé hana fyrir mér fylgjast vel með sínu fólki. Hún finnur örugglega leið til að senda þeim hlýja og góða strauma, ef vera mætti að það kæmi þeim að einhverju leyti til góða á þessum erfiðu tímum.

Við Pétur sendum Þorbergi og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Það er alltaf huggun harmi gegn að eiga margar og góðar minningar um frábæra konu til að ylja sér við.

Guð blessi minningu Sesselju Pálsdóttur og haldi verndarhendi yfir fjölskyldunni sem var henni svo kær alla tíð.

Svanborg Siggeirsdóttir

Þegar kær vinkona, Sesselja Pálsdóttir, er kvödd hinstu kveðju leitar hugurinn aftur til liðinna ára og samverustunda. Fljótlega eftir að við fjölskyldan fluttum í Stykkishólm í ársbyrjun 1975 var mér boðið að vera með í saumaklúbbi ungra kvenna þar sem kynni okkar Sesselju hófust. Þar áttum við margar glaðar stundir í góðum félagsskap. Vinátta okkar óx með ári hverju enda var Sesselja sérstaklega hlý, umhyggjusöm og tryggur vinur. Henni var umhugað um samfélagið, hugmyndarík og framsýn í leit að öllu sem gæti orðið því til heilla. Hún var ávallt reiðubúin að leggja sitt af mörkum og þá var ekki spurt hvernig aðstæður væru hjá henni sjálfri. Hún tók virkan þátt í félagsmálum í bænum, var t.d. í stjórn Eflingar Stykkishólms þar sem hún beitti sér fyrir atvinnu- og ferðamálum, starfaði í kvenfélaginu Hringnum og var formaður þess í nokkur ár. Þá vann hún að æskulýðsmálum og í foreldrafélagi grunnskólans. Sesselja átti auðvelt með að tjá sig í ræðu og riti og er mér enn í fersku minni hversu stolt ég var þegar hún flutti skínandi góða ræðu í skólanum þegar forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, kom í opinbera heimsókn í Stykkishólm. Sesselja beitti sér fyrir söfnun meðal bæjarbúa til kaupa á almenningsbekkjum, fyrir hljóðkerfi í skólann og vefmyndavél sem sýnir hafnarsvæðið og hafa margir brottfluttir Hólmarar notið þess á liðnum árum að „líta“ heim í gegnum vélina. Það var því ekki að ósekju sem hún var valin Hólmari ársins 2006. Sesselja hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og las blaðagreinar sem henni þóttu áhugaverðar, klippti þær út og geymdi og las aftur seinna. Hún var órög við að láta skoðanir sínar í ljós við ráðamenn og flutti mál sitt af hófsemd en festu. Sesselja og Þórhildur frænka hennar ráku verslunina Heimahornið um árabil og höfðu þar á boðstólum margvíslegan varning sem gott var að geta keypt í heimabyggð. Ég er sannfærð um að báðar litu þær svo á að um nauðsynlega þjónustu við bæjarbúa væri að ræða. Fjöldi fólks kom í verslunina til Sesselju, bæði heimamenn og gestir, til að versla en ekki síður til að ræða málin, bæði gleði og sorgir, en hún var góður hlustandi og hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja. Sesselja var ung að árum þegar hún giftist Þorbergi Bæringssyni og urðu börn þeirra fjögur á þrettán árum. Þrátt fyrir stórt heimili vann Sesselja oftast utan heimilis, hin seinni ár við bókhald í sívaxandi byggingafyrirtæki fjölskyldunnar. Sesselja varð fyrir sárum ástvinamissi þegar foreldrar hennar og systkini létust flest langt fyrir aldur fram og þá var hún kletturinn sem fjölskyldan treysti á. Þau Þorbergur voru samhent hjón og studdu börn sín og barnabörn af fremsta megni í námi og vinnu og uppskáru ríkulega í glæsilegri fjölskyldu. Yngstu barnabörnin, synir Berglindar Lilju, hafa verið gleðigjafar þeirra síðustu árin og þeir sakna nú ömmu sinnar sárt eins og fjölskyldan öll. Við hjónin sendum Þorbergi og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sesselju Pálsdóttur.

Hallgerður Gunnarsdóttir.

Það var bjartur vordagur og ég skokkaði kát í vorskólann hjá Barna- og unglingaskólanum í Stykkishólmi. Upp við skóla voru margir krakkar og ég varð nú ansi feimin. En brátt kom til mín stelpa sem ég þekkti og hún kynnti mig fyrir stelpu sem ég gæti setið hjá og svo sagði hún mér nöfnin á mörgum krökkum sem ég gleymdi jafnóðum. En ein hét Sesselja og ég mundi nafnið hennar, því ég átti frænku sem hét Sesselja. Þessi stelpa sem ég hitti fyrst þarna á skólalóðinni var hún Sesselja Pálsdóttir sem er kvödd í dag frá Stykkishólmskirkju. Við fylgdumst að alla skólagönguna í Hólminum og vorum fermingarsystur. Þetta var stór árgangur, stelpurnar lengst af 18 og strákarnir fimm. Sesselja var duglegur námsmaður og góður félagi. En hún var uppfrátík en ég var tangatík. Krakkarnir skiptust eftir hverfum, og sama hvort voru strákar eða stelpur, uppfrátíkur eða tangatíkur hétum við. En þótt oft væri hart barist var alltaf góð vinátta innan bekkjanna og við stelpurnar af árgangi 1948 vorum góðar vinkonur og stóðum saman og pössuðum vel upp á strákana okkar í bekknum, okkur var sko að mæta ef þeir lentu í einhverju – sem kom stundum fyrir. Ég hef síðan Sesselja dó heyrt í mörgum jafnöldrum sem hafa hugsað mikið til hennar og fólksins hennar. Síðasta skólaveturinn vorum við saman níu í landsprófsbekknum, við Sesselja og tvær aðrar úr Hólminum og einn strákur en í hópinn bættust þá krakkar utan af nesi. Sjö stelpur og tveir strákar. Veturinn var skemmtilegur og við urðum öll góðir vinir. Ég fór svo burt annað í skóla um haustið en þegar ég kom heim í jólafrí voru þau Sesselja og Þorbergur farin að stinga saman nefjum. Það fannst mér skemmtilegt. Síðan hafa þau verið saman eins og allir vita sem þekkja þau. Stofnuðu fjölskyldu og seinna fyrirtæki, hvort á sínu sviði, og voru dugleg að vinna samfélaginu gagn. Það eru svona konur eins og Sesselja sem eru hverju byggðarlagi afar mikilvægar. Hún var í kvenfélaginu alla tíð og óþreytandi þar. Svo tók hún upp á sitt eindæmi að safna fyrir einu og öðru sem var til hagsbóta fyrir bæinn. Hún seldi penna til styrktar Krabbameinsfélaginu og eitthvað fleira. Svo safnaði hún fyrir bekkjum sem eru víða um bæinn. Hún studdi kirkjuna líka alla tíð. Þær frænkur Þórhildur Pálsdóttir og hún settu á stofn verslunina Heimahornið þar sem fékkst fatnaður og fleira fyrir heimilið. Samfélagið í Hólminum hefur misst góðan þegn og þó að sorgin sé mest hjá Þorbergi og fjölskyldunni þeirra veit ég að bærinn allur saknar. Einar Steinþórsson, nágranni þeirra Bergs og Sesselju til áratuga, orti ljóð sem hann kallaði „Kveðja frá börnunum“ í minningu Páls Oddssonar, föður Sesselju, en móðir hennar Sæmunda lést langt á undan Páli.

Hér er eitt stef úr ljóði Einars Steinþórssonar og ég kveð góða skólasystur um leið og ég sendi ástvinum hennar kærleikskveðju:

Og mamma hún bíður þín handan við hafið

og hönd þína réttir hún þér.

Í blómskrúði almættis við blikandi trafið

bros þitt um ásjónu fer.

Dagbjört S.
Höskuldsdóttir.