Erla Á. Emilsdóttir fæddist í Reykjavík 24.5. 1933. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 22. maí 2023. Foreldrar hennar voru Katrín Helgadóttir, f. 27.11. 1905, d. 16.7. 1982 og Egill Ágúst Jóhannsson, f. 3.8. 1899, d. 29.7. 1942. Kjörforeldrar Erlu voru Emil G. Pétursson, f. 12.6. 1904, d. 30.7. 1990 og kona hans og föðursystir Erlu, Guðmundína (Ína) Jóhannsdóttir, f. 5.4. 1905, d. 23.11. 1999

Systur Erlu voru Signý Sigurbjörg, f. 16.6. 1929, d. 6.10. 2020, Guðrún Jóhanna, f. 14.7. 1931, d. 27.9. 2008 og Jórunn Hadda, f. 11.4. 1935, d. 12.8. 2008. Þá átti hún tvo hálfbræður, samfeðra, Emil Kristin, f. 1925, d. 1986 og Harald Valdimar Hólmstein, f. 1921, d. 2003.

Erla giftist 1955 Ríkharði Sveini Kristjánssyni, f. 15.2. 1931, d. 16.1. 2002, þau skildu. Erla var í sambúð 1991 til 2010 með Páli G. Björnssyni á Hellu, f. 8.10. 1936, d. 2.2. 2016.

Börn Erlu og Ríkharðs eru þrjú:

1) Hulda, f. 27.9. 1955. Hulda giftist Halldóri Pétri Þorsteinssyni, f. 12.10. 1956, þau skildu. Sambýlismaður Huldu er Sigurbjörn Ingi Sigurðsson, f. 29.7. 1952. Sonur Huldu og Halldórs Péturs er Örvar, f. 6.8. 1978, giftur Fríðu Reynisdóttur, f. 3.12. 1971. Dætur þeirra eru þrjár: a) Júlía, f. 30.4. 2005, Andrea Líf, f. 12.11. 2007 og Ísabella, f. 18.11. 2009.

2) Gunnar, f. 24.12. 1956. Gunnar er kvæntur Helgu Thoroddsen og eiga þau tvo syni: a) Andri, f. 14.1. 1983, giftur Guðfinnu Öldu Ólafsdóttur, f. 31.1. 1982. Börn þeirra eru Elísabet Steinunn, f. 28.11. 2013 og Bergsteinn Brimir, f. 5.12. 2015. b) Helgi, f. 23.6. 1985. Sambýliskona hans er Erna Sólrún Haraldsdóttir, f. 2.7. 1992 og dóttir þeirra er Bergþóra, f. 19.9. 2022. Einnig á Helgi soninn Theodór Flóka, f. 12.2. 2014, með Gígju Einarsdóttur.

3) Hörður, f. 29.12. 1962. Hörður er kvæntur Sigríði B. Aadnegard. Dætur þeirra eru þrjár: a) Elva Björk, f. 27.8. 1984, gift Jensu Toftegaard, f. 2.3. 1982. Börn þeirra eru Karólína, f. 10.1. 2012 og Emil Álvur, f. 6.8. 2014. b) Erla Hrönn, f. 16.4. 1992. c) Elín Hulda, f. 22.8. 1993.

Erla ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR 1952 og síðan kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1953. Hún starfaði sem grunnskólakennari frá 1954 til 1999 og kenndi við Austurbæjarskóla, Vogaskóla, Ölduselsskóla og að lokum við Grunnskólann á Hellu.

Útför Erlu fer fram frá Áskirkju í dag, 2. júní 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Sumarið 1972 þegar Boris Spassky og Bobby Fischer voru að leggja drög að einvígi aldarinnar í Laugardalshöllinni fór ég, 15 ára unglingurinn, í heimsókn á Tunguveg 9 þar sem heimasætan og æskuástin Hulda hafði boðið mér í heimsókn. Erla, mamma hennar, tók hlýlega á móti mér, en dóttirin var ekki heima og bauð Erla mér því til stofu meðan ég beið. Við hófum notalegt spjall þótt ég hafi verið frekar stressaður og m.a. rýndum við í uppstillt taflborð sem var á sófaborðinu og ræddum skákeinvígið og eitthvað fleira. Svo var útihurðinni svipt upp og heimasætan kallar: „Hæ, hefur einhver komið og spurt eftir mér?“ Erla varð kímin og gerði lítið úr því en það mátti varla á milli sjá hvort okkar roðnaði meira, ég eða heimasætan, þegar hún kom inn í stofu og sá mig og mömmu sína sitja saman í sófanum. Þetta voru mín fyrstu kynni af Erlu Emilsdóttur sem síðar varð tengdamóðir mín og þessi kynni urðu að vináttu sem varði óslitið í yfir 50 ár. Þótt mér hafi eflaust fundist ég voða fullorðinn á þessum árum leið ekki á löngu þar til ég bættist í „barnahópinn“ hjá þeim Erlu og Denna á Tunguveginum og Erla tók við að ala mig upp eins og hina krakkana og á ég margar góðar minningar frá þessum árum. Ég man t.d. þegar Erla hélt upp á fertugsafmælið sitt 1973 og þegar þetta er skrifað, 24. maí, á afmælisdaginn hennar, hefði hún eimmitt orðið 90 ára. Þannig að hún var ekki nema 39 ára þarna um sumarið 1972 þegar við hittumst fyrst. Hún bauð mér í fjölskyldujólaboð um síðustu jól rétt fyrir áramót og þar sagði hún öllum frá því að það yrði veisla þennan dag, 24. maí 2023, en hún vissi ekki alveg hvort hún gæti mætt en það ætti að vera veisla engu að síður. Við Erla höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman á þessum rúmu fimmtíu árum, en við Hulda skildum rétt fyrir aldamótin. Erla sagði við mig nokkrum árum síðar að hún væri enn tengdamóðir mín, við hefðum ekki skilið, og þótti mér mjög vænt um að heyra hvernig hún hugsaði til mín enda var það gagnkvæmt. Það var svo fyrir tilstilli samskiptamiðla og þá sérstaklega Facebook sem samband okkar styrktist seinni ár því hún var mjög virk og dugleg að halda sambandi við fólk með þessari nýju tækni og ég sá að hún fylgdist með því sem ég skrifaði og sendi mér einkaskilaboð ef svo bar undir. Erlu var margt til lista lagt og ber handavinna sem sjá mátti á heimili hennar þess skýr merki, en hún var einnig listakokkur og ég fullyrði að fáir ef nokkrir komist með tærnar þar sem hún var með hælana í sósugerð. Erla var kennari alla tíð og þrátt fyrir að ekki færi mikið fyrir verkaskiptingu í heimilishaldi í hennar hjónabandi og hún bara sæi um þetta allt, þá hafði hún alltaf tíma fyrir Örvar son okkar Huldu þegar hann var lítill og raunar alla tíð. Nú þegar komið er að kveðjustund langar mig að þakka fyrir allt og þá blessun að Erla fékk að halda góðri heilsu í tæplega 90 ár, öllum hennar afkomendum, ættingjum og vinum til mikillar gleði.

Halldór Pétur
Þorsteinsson.

Tíminn er undarlegt fyrirbrigði. Þegar við fréttum af andláti Erlu kennara vorum við eins og hendi væri veifað staddar í bekkjarstofunni okkar í Vogaskóla á sjöunda áratug síðustu aldar og rifjuðum upp hve gott það var að vera í bekk hjá Erlu. Vogahverfið var á þessum árum að byggjast upp. Skólinn varð fjölmennasti skóli landsins og bekkirnir stórir, yfir 30 nemendur. Bekkurinn hennar Erlu naut jafnan þess heiðurs að vera álitinn besti bekkurinn og vorum við sannfærðar um að það væri einfaldlega vegna þess að Erla væri besti kennarinn þó að raðað væri í bekki eftir getu sem ekki tíðkast nú.

Það sem okkur þykir eftirminnilegast við Erlu er hve róleg og yfirveguð hún var í öllu starfinu með bekknum sínum. Hún skapaði andrúmsloft öryggis og festu í kringum okkur og ljúflegt yfirbragð hennar setti hlýlegan svip á skóladaginn. Svo var hún auðvitað einstaklega glæsileg kona og mikil reisn yfir henni.

Við bárum ómælda virðingu fyrir Erlu. Hún hafði mikinn metnað fyrir okkar hönd. Gerðar voru strangar kröfur um að við gerðum okkar besta í náminu en við upplifðum einnig að samvera, gleði, leikur og skemmtun skipti ekki síður máli. Leikrit voru sett á svið og hjá Erlu lærðum við að spila félagsvist á bekkjarkvöldum og voru börn Erlu fengin með ef vantaði aukamannskap. Okkur er minnisstætt þegar hún var að lesa fyrir okkur í nestistímunum – bókmenntir sem vöktu okkur til umhugsunar um lífið og tilveruna. Við lentum á flækingi með Siskó í Portúgal og fórum í fóstur hjá Sömum með henni Lajlu í Finnmörku. Hún ræktaði með okkur réttlætiskenndina og við áttuðum okkur á að ekki sætu öll börn við sama borð, að umhyggja fyrir öðrum skipti máli.

Í minningunni er Erla einfaldlega „kennarinn okkar“. Það var ánægjulegt að endurnýja kynnin við hana þegar fésbókin kom til sögunnar. Þar var hún virk fram á síðasta dag, ung í anda og hress og mundi okkur öll sem hún hafði kennt. Að kenna er að snerta lífið að eilífu, segir í enskum málshætti, og víst er að Erla á alltaf sinn stað í minningum okkar.

Birgitta Bragadóttir og Sólveig Jakobsdóttir, nemendur í 3.-6. bekk E.E. 1967-1971.

Hún Erla okkar er dáin. Við áttum hana og hún okkur. Hún kenndi okkur Í-bekkingum í þrjú ár til ársins 1958, þegar við lukum barnaprófi. Hún var nýbyrjuð að kenna í Austurbæjarskólanum, aðeins 12 árum eldri en við. Hún var afbragðs kennari, góð við okkur, glæsileg og ljúf. Hún lét ekki nokkra óþæga stráka trufla sig. Í minningunni voru stelpurnar alltaf góðar. Erla eignaðist tvö börn á þessum árum þegar hún kenndi okkur, en þá var fæðingarorlofið ansi stutt svo við fengum hana til okkar aftur fljótlega, sem betur fer.

Við fórum í eftirminnilega ferð, tólf ára bekkurinn, um Suðurlandið og sem betur fer eigum við nokkrar myndir úr ferðinni, sem ylja okkur og rifja upp góða tíma. Þá var hann „Óli kani“ eða Ole Lokensgard, eins og hann hét fullu nafni, kominn í bekkinn. Þegar hann frétti að Erla væri dáin skrifaði hann þetta á ensku, sem við þýddum svona: „Mjög leitt að heyra að hún yndislega Erla er dáin. Frá fyrsta degi í Austurbæjarskóla 1957 þótti mér vænt um hana. Hún var vingjarnleg, umhyggjusöm, full af áhuga, glæsileg, hugmyndarík og falleg. Við munum öll sakna hennar“.

Já, svona var hún Erla. Við héldum tryggð við hana og hún við okkur, við hittumst nokkuð oft bekkurinn og alltaf var hún með okkur, glöð og elskuleg. Við fórum í heimsóknir í skólann okkar og í stofuna okkar og skemmtum okkur saman, síðast með Erlu 2018 til að halda upp á 60 ára barnaprófsafmælið okkar. Við ætluðum að hittast og bjóða Erlu með okkur í tilefni af 90 ára afmæli hennar. Hún var á Facebook og þannig fylgdumst við mörg með henni. Allt virtist í himnalagi. Þegar við buðum henni þá kom svarið: „Kæru mín ég er að kveðja heiminn á Landakoti…“ Hún sem aldrei var veik. Hún var einstök. Við hittumst samt í dag 30. maí og ræddum um gamla daga og kennarann okkar góða.

Farðu í friði Erla okkar besta, við í Í-bekknum munum ætíð minnast þín að góðu einu og með þakklæti. Við sendum fjölskyldu Erlu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd okkar Í-bekkinga 1958 Austurbæjarskóla,

Örlygur Karlsson.