Lundadauði Nokkur hundruð dauðir lundar fundust í fjörunni í gær.
Lundadauði Nokkur hundruð dauðir lundar fundust í fjörunni í gær.
Nokkur hundruð nýlega dauðir lundar fundust í fjöru sunnan við Löngufjörur fyrir neðan Nýlenduvatn í gær. Þetta staðfesti Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, í samtali við Morgunblaðið

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Nokkur hundruð nýlega dauðir lundar fundust í fjöru sunnan við Löngufjörur fyrir neðan Nýlenduvatn í gær. Þetta staðfesti Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, í samtali við Morgunblaðið.

Róbert segir þetta mjög slæmt fyrir lundastofninn á Vesturlandi sem á nú þegar undir högg að sækja en í síðustu viku fundu íbúar í nágrenni Löngufjara nokkur hundruð dauða lunda í fjörunni. Róbert segir að líklega séu mörg hundruð og jafnvel þúsund lundar dauðir þótt ómögulegt sé að segja nákvæmlega til um fjöldann.

Að sögn Róberts gekk hann fram á lundahræin er hann var að telja vatnafugla við Nýlenduvatn í gær. „Við gengum bara aðeins í fjörunni og sáum mjög mikið af lunda. Það voru dauðir lundar á nokkurra metra fresti.“

Hann bendir á að það sé forvitnilegt hve ferskir lundarnir eru og tekur fram að þeir hafi verið ósnertir af hræætum og hvorki horaðir né rotnir. Hann segir þennan fund merki um að ástandið sé því miður ekki liðið hjá. Róbert nefnir jafnframt að þessi hrina dauðsfalla komi á versta tíma fyrir lundastofninn. „Þetta er auðvitað á versta tíma, á hávarptímanum, og þetta eru fullorðnir varpfuglar. Það veit enginn hvaða þýðingu þetta hefur fyrir stofninn en þetta leggst ofan á erfiðleika sem hafa verið undanfarin ár.“

Hann bætir við að verst sé að vita ekki hvað veldur þessu en nýjustu niðurstöður frá MAST sýna fram á að ekki sé um fuglaflensu að ræða. „Það er mögulegt að þetta sé einhver annar sjúkdómur en það er ekki hægt að útiloka aðrar orsakir.“