Bókaverslun Tölurnar byggjast á upplýsingum 14 þúsund VR-félaga.
Bókaverslun Tölurnar byggjast á upplýsingum 14 þúsund VR-félaga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Miðgildi heildarlauna félagsmanna í VR, stærsta stéttarfélagi landsins, voru 768 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt niðurstöðum nýrrar launarannsóknar félagsins. Er þá miðað við miðgildi allra launa félagsmanna VR, sem sýnir að helmingur félagsmanna…

Miðgildi heildarlauna félagsmanna í VR, stærsta stéttarfélagi landsins, voru 768 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt niðurstöðum nýrrar launarannsóknar félagsins. Er þá miðað við miðgildi allra launa félagsmanna VR, sem sýnir að helmingur félagsmanna er með lægri laun en miðgildið segir til um og hinn helmingurinn er á hærri launum. Meðaltal heildarlauna VR-félaga eru nokkru hærra eða 832 þús. kr. á mánuði.

Miðgildi grunnlauna VR-félaga var 759 þúsund kr. Sá fjórðungur félagsmanna sem var með hæst laun var með 945 þús. kr. í heildarlaun en í hópnum sem var í lægsta launafjórðungi félagsmanna voru launin 638 þús. kr. Tölurnar eru byggðar á launum yfir 14 þúsund VR-félaga í fullu starfi, að því er fram kemur á vefsíðu VR þar sem greint er frá niðurstöðunum, sem sýna launatölur félagsmanna í febrúar sl.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir starfsstéttum kemur m.a. í ljós að heildarlaun stjórnenda voru 908 þúsund kr. á mánuði miðað við miðgildi og meðallaun þeirra 1.005 þúsund kr. Miðgildi grunnlauna stjórnenda var 897 þúsund kr. á mánuði. Grunnlaun skrifstofufólks (miðgildi) voru 672 þúsund kr., heildarlaunin 678 þúsund og meðaltal heildarlauna skrifstofufólks voru 703 þús. kr.

Sölu- og afgreiðslufólk var með 660 þúsund kr. í grunnlaun (miðgildi), heildarlaunin voru 671 þús. kr. og meðallaunin 704 þúsund. Miðgildi heildarlauna sérfræðinga var 897 þúsund og sérhæfðs starfsfólks 782 þús. kr. Heildarlaun (miðgildi) félagsmanna við gæslu-, lager- og framleiðslustörf voru 639 þúsund kr. á mánuði.