Vaknaðu! Samkennd einkenndi Eldborgarsal Hörpu sl. mánudag.
Vaknaðu! Samkennd einkenndi Eldborgarsal Hörpu sl. mánudag. — Ljósmynd/Spessi
Alls hafa safnast um 38 milljónir króna í kjölfar styrktartónleikanna Vaknaðu! sem voru haldnir annan í hvítasunnu. Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir stóð fyrir tónleikunum í samstarfi við Hörpu, RÚV og fleiri

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Alls hafa safnast um 38 milljónir króna í kjölfar styrktartónleikanna Vaknaðu! sem voru haldnir annan í hvítasunnu. Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir stóð fyrir tónleikunum í samstarfi við Hörpu, RÚV og fleiri. Tónleikarnir voru haldnir til styrktar skaðaminnkunarúrræði Rauða krossins, Frú Ragnheiði, en einnig til að vekja athygli á ópíóíðafaraldrinum sem geisar á Íslandi.

Í tilkynningu frá tónleikahöldurum segir m.a. að kynnar kvöldsins, þau Gunni Hilmars og Sigga Eyþórs, hafi flutt skýr skilaboð um að endurskoða þyrfti aðferðir við að nálgast ópíóíðafaraldurinn hér á landi og nálgast viðfangsefnið út frá skaðaminnkandi hugmyndafræði. Undir þetta tóku tónlistarmenn sem fram komu á tónleikunum en allir gáfu vinnu sína. Enn er hægt að leggja málefninu lið, með því að fara inn á vef Rauða krossins, raudikrossinn.is.

Kerfið virkaði allan tímann

Í umfjöllun Morgunblaðsins fyrr í vikunni var sagt að söfnunarkerfi Vodafone hefði „hrunið“ meðan á tónleikunum stóð. Eins og fram kom í tilkynningu frá Vodafone í gær þá virkaði kerfið allan tímann og allt söfnunarfé skilaði sér. Um símkerfi Vodafone komu um sjö milljónir kr.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson