Steinunn María Valdimarsdóttir, Mæja, fæddist í Reykjavík 11. janúar 1948. Hún lést á líknardeild LSH í Kópavogi 24. maí 2023.

Foreldrar Mæju voru Valdimar Jónsson, f. 1921 á Flugumýri í Skagafirði, d. 1989, og Dóra Ragnheiður Guðnadóttir, f. 1924 í Kotmúla í Fljótshlíð, d. 2007. Systkini Mæju eru Sigríður, f. 1946, Sara Regína, f. 1954, Inga Aðalheiður, f. 1955, d. 2022, og Guðjón Viðar, f. 1960.

Mæja giftist 2. ágúst 1969 Ólafi Rúnari Jónssyni, f. 31. ágúst 1947 í Görðum við Ægisíðu. Þeirra börn eru: 1) Dóra Ragnheiður, f. 1967, maki Ívar Örn Guðmundsson, f. 1965, dóttir þeirra er María Ísabella, f. 2010. 2) Sigríður, f. 1970, maki Matthías Sveinbjörnsson, f. 1974, börn þeirra eru a) Davíð Rúnar, f. 1999, sambýliskona hans Elísa Ósk Jónsdóttir, f. 1999, b) Jónína, f. 2001, kærasti hennar Fróði Brooks Kristjánsson, f. 2001, c) Sveinbjörn Darri, f. 2006. 3) Ólafur Már, f. 1972, maki Inga Jytte Þórðardóttir, f. 1973, börn þeirra eru a) Þórunn Inga, f. 1996, dóttir hennar er Inga Lilja, f. 2021, b) Þorgeir, f. 2001. 4) Kolbrún Hrund, f. 1975, maki Jón Ingi Ólafsson, f. 1976, börn þeirra eru a) Ólafur Rúnar, f. 2004, b) Móeiður María, f. 2009, c) Ingvar Þorri, f. 2011. Einnig á Ólafur Rúnar dótturina Ingibjörgu, f. 1967, maki Emil Ásgeirsson, f. 1963, börn þeirra eru a) Ásta Þyrí, f. 1988, maki Gunnlaugur Helgason, f. 1987, synir þeirra eru Huginn Þór, f. 2015, Hörður Flóki, f. 2019, og Hilmar Kári, f. 2022, b) Arna Ýr, f. 1998, c) Emil Ásgeir, f. 2003.

Mæja ólst fyrstu árin upp í Grjótagötunni en fluttist þaðan austur fyrir læk, og átti lengst af heima á Sogavegi 96. Hún og Óli stofnuðu sitt heimili á Ægisíðu 52. Þau byggðu sér hús í Starrahólum 2 árið 1984 og bjuggu þar til 2005 er þau fluttu aftur á Ægisíðuna. Mæja gekk hefðbundinn skólaveg þess tíma, gekk í Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Hún lagði stund á enskunám í Bournemouth 1964, lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Laugalandi 1967 og stundaði síðar nám í kvöldskóla Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Mæja og Óli ráku saman heildsöluna K. Þorsteinsson og Co í um 30 ár. Um tíma starfaði hún einnig sem læknaritari á Læknastöðinni Marargötu.

Sem barn var Mæja flest sumur í sveit hjá ættingjum á Flugumýri í Skagafirði og átti ávallt sterkar rætur þangað. Þar byggðu hún og Óli sinn sælureit og dvöldu þar eins mikið og við varð komið.

Útför Mæju fer fram frá Neskirkju í dag, 2. júní 2023, klukkan 13.

Komið er að kveðjustund, mikill söknuður, væntumþykja og sameiginlegt lífshlaup fer í gegnum hugann. Ég á mínar fyrstu bernskuminningar tengdar þér. Ekki eru nema 20 mánuðir á milli okkar í aldri. Þú varst alltaf kát, uppfinningasöm og huguð í minningunni, svo stóru systur fannst stundum nóg um. Minningar um búðarferðir fyrir mömmu til Silla og Valda sem kölluðu þig alltaf „beautiful brown eyes“. Við fengum báðar brjóstsykur út á það. Þú áttir til að stinga af og skoða hlutina sjálf. Minnisstæð er heimsókn á lögreglustöðina 17. júní þar sem þú undir þér vel sitjandi uppi á borði hjá lögreglunni skellihlæjandi þegar fjölskyldan mætti til að ná í þig. Við vorum tvær að bralla saman í átta ár þar til næstu tvær systur og bróðir fæddust. Ótal ferðir norður í Skagafjörðinn og austur fyrir fjall með mömmu og pabba og þú alltaf bílveik. Eftir að við fluttum á Sogaveginn deildum við alltaf herbergi, vorum eflaust týpískir táningar og sjaldan tekið til nema pabbi segði eitthvað. Ég á líka minningar um skemmtileg bréf milli táninga þegar ég var í Englandi og þú heima. Þar byrjaðir þú alltaf bréfin á „Elsku litla systir“ af því að þá varst þú orðin 2 cm hærri en ég. Ég á líka minningu um fallega brúði í Norðurbrún og fæðingu barna þinna. Kærleikurinn hefur verið til staðar milli okkar í öll þessi ár, bæði í gleði og sorg, og það er mér svo dýrmætt í dag. Þú elskaðir fólkið þitt og varst með sterka og góða nærveru. Þú sýndir mér það svo fallega þegar Raggý mín dó og þið systur hélduð fast utan um mig. Nokkuð sem aldrei gleymist. Alltaf var yndislegt að hittast og síðari ár fórum við systur í ferðir um landið okkar. Sem nú eru svo kærkomnar minningar. Líka eru minningar um ferðir í bústaðinn á Flugumýri ógleymanlegar. Þar var mín sko á heimavelli. Þú undir þér vel við lestur og sjónvarp og leiddist aldrei í sveitinni. Nú er komið að leiðarlokum og svo ótrúlega sárt að kveðja ykkur tvær systur, þig og Ingu, á rétt rúmu ári.

Það hafa verið erfiðar stundir undanfarið hjá fjölskyldunni og þú barðist til síðasta dags, hetjan mín. Elsku Óli, Dóra, Siddó, Óli Már og Kolla, minningin um ástkæru Mæju lifir í hjörtum ykkar og okkar um ókomna tíð þótt tilveran verði aldrei söm og áður. Dreymi þig ljósið og sofðu rótt, elsku systir.

Sigríður (Sirrý) systir.

75 ár telst ekki hár aldur í dag þegar fjölmargir lifa það að komast á tíræðisaldurinn. Það er allavega okkar tilfinning þegar við sjáum á bak Mæju systur og frænku. Við hefðum viljað njóta samvista við hana í fjölmörg ár í viðbót.

Ótal afmæli, fermingar, útskriftir og ættarmót eins og tíðkast í flestum fjölskyldum koma upp í hugann. Vegna fjarlægðar okkar Frostastaðafjölskyldunnar frá fjölskyldunni í Reykjavík voru slíkar stundir ef til vill færri en annars hefði verið en þeim mun dýrmætari í minningunni. Mæja missti ekki af slíkum samverustundum, hvort sem þær voru sunnan eða norðan heiða, því hún var mikil fjölskyldumanneskja og vildi helst af öllu hafa fólkið sitt í kringum sig. Oft var Mæja lífið og sálin í samkomunni því hún var mikill gleðipinni, hló dátt og sagði sögur og stráði þannig gleði í kringum sig.

Við á Frostastöðum vorum afskaplega heppin að fá að hafa elstu dætur Mæju, þær Dóru og Siddó, sem barnapíur og hjálparhellur í nokkur sumur. Það styrkti enn tengslin milli hópsins alls, systranna og systkinabarnanna. Börnin hennar eru góðar og traustar manneskjur og bera uppeldi sínu fagurt vitni. Það kom svo greinilega í ljós í þungum veikindum Mæju síðustu mánuði. Þá sýndi Mæja sjálf ótrúlegt hugrekki og bjartsýni og börnin hennar, ásamt Óla, umvöfðu hana kærleika og umhyggju til hinstu stundar.

Mæja og Óli áttu sumarhús uppi á grundum á Flugumýri. Þar safnaðist fjölskyldan oft saman og var þá glatt á hjalla. Hún átti síðan hún var barn að aldri sterk tengsl við stórfjölskylduna frá þeim bæ, þarna voru hennar bestu ættingjar og vinir og hún tók vini sína úr Reykjavík með sér norður til að kynna þeim þennan góða félagsskap og fallega umhverfi.

Hin síðari árin vorum við systurnar fjórar vanar að hittast fyrir sunnan þegar tækifæri gáfust. Við náðum því einnig að fara í nokkur ógleymanleg ferðalög saman að sumri ásamt því að fagna 50 ára brúðkaupsafmæli Mæju og Óla í frábærri veislu á grundunum. Minningarnar um þessar stundir eru okkur tveimur systrum sem eftir standa dýrmætar og hvetja okkur til að njóta samveru og gleði þegar færi gefst því enginn veit hve stundirnar verða margar.

Söknuður eftir kátu og hressu Mæju mun lita næstu fjölskyldusamverur. Hið árlega frænkuboð fyrir næstu jól verður öðruvísi án Mæju og Ingu systur sem lést í fyrra. 100 ára minningarafmæli ömmu Dóru á næsta ári mun einnig bera þess merki að það vantar í hópinn okkar. En einmitt með því að hittast og vera fjölskylda höldum við á lofti minningu þeirra sem gengnir eru og sýnum þeim ást og virðingu.

Elsku Mæja systir, mágkona og móðursystir, við kveðjum þig með söknuði.

Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sara systir, Þórarinn (Tóti) og börn, Frostastöðum.

Hún María mágkona mín var mörgum góðum eðliskostum búin. Dugnaður hennar við öll verk var aðdáunarverður og var hún bæði fljótvirk og vel virk. Hún bar með sér gleði og gott skap þannig að alltaf var ánægjulegt að vera henni samferða, bæði heima fyrir og heiman. Þau hjónin María og Ólafur Rúnar voru þannig með albestu ferðafélögum sem á varð kosið. Í allri framkomu var Mæja, eins og hún var jafnan kölluð, skörungur og eftirminnileg öllum sem til þekktu. Hún var föst fyrir og hafði nokkurt skap en fór vel með. Sérstaklega var eftir því tekið hvað hún var sanngjörn í öllu og kom þar líka til hennar góða skap, skemmtilegheit og almenn góðsemi. En einn var sá kostur í fari Mæju sem af bar, það var alúðin sem hún sýndi í öllu, bæði við verk sín og í umgengni við fólkið sitt og vini og kunningja sem voru margir. Í alúð hennar gagnvart samferðafólki og skyldmennum komu bestu eðliskostir Mæju fram. Að koma til Mæju og Óla, hvort sem var heima fyrir á Ægisíðunni eða í sumarbústað þeirra á Flugumýri í Skagafirði, var alltaf ánægjuefni. Mæja stóð fyrir stóru heimili lengst af enda oft gestkvæmt og fjölskyldan stór. Alltaf var sami rausnarskapurinn og glaðværðin í fyrirrúmi enda var ekki að spyrja að myndarskapnum hjá henni Mæju. Nú er svo að stórt högg hefur aftur fallið á systkinahóp Maríu, en þannig er að yngri systir hennar, eiginkona mín, féll frá fyrir rúmu ári. Sú umhyggja og alúð sem Mæja sýndi konu minni í veikindum hennar var sérstök. Fyrir það og alla vinsemd og hjálpsemi er mér og börnum mínum efst í huga þakklæti í garð Maríu, elskulegrar mágkonu og frænku, á þessari sorgarstundu.

Ólafur Klemensson.

Í dag kveðjum við ömmu Mæju sem var okkur mjög dýrmæt og við söknum mikið. Hún hafði mikil áhrif á okkar líf og kenndi okkur margt. Hún söng mörg íslensk lög með okkur sem börn, þó textarnir hafi ekki alltaf verið upp á 10, enda var hún snillingur í því að finna upp á sínum eigin orðum. Dæmi um það er að hún er sú eina sem við þekkjum sem kallar sjónvarpsfjarstýringu millistykki, og bílinn hennar Jónínu, svartan Up, kallaði hún alltaf rauða appið. Hún sýndi lífi okkar barnabarnanna mikinn áhuga og studdi okkur alltaf í því sem við höfðum áhuga á, hvort sem það var með því að mæta á fótboltamót og tónleika eða hlusta á sögur um vinina og skólann. Það var alltaf mikið fjör og hávaði í kringum ömmu okkar, enda stór karakter með skemmtilegan og smitandi hlátur. Ömmu þótti mjög vænt um dýr og leið best í sveitinni sinni, en þaðan eigum við margar eftirminnilegar stundir með henni og góðar minningar. Það gladdi hana mikið þegar í fjölskylduna bættust þrír hundar, en hún saknaði alltaf Yrju sinnar og eru þær vonandi sameinaðar á ný.

Elsku amma, við erum þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma með þér sem við fengum og hugsum til þín á hverjum degi.

Þín barnabörn,

Davíð Rúnar, Jónína og Sveinbjörn Darri.

Fyrir hönd okkar fjölskyldunnar í Görðunum langar mig að minnast með nokkrum orðum svilkonu minnar og kærrar vinkonu „Mæju mágkonu“. Við Mæja og Ólafur Rúnar kynntumst þegar við Lóa fórum að rugla saman reytum. Þau tóku mér fyrst með ákveðinni varkárni en eftir því sem árin liðu urðum við miklir vinir og nágrannar. Mæja hefur alltaf reynst okkur Lóu og okkar börnum ákaflega vel og við höfum notið þess að vera hluti af sívaxandi jólaboði fjölskyldunnar, fyrst í Starrahólunum og síðan á Ægisíðunni. Mæja hefur sýnt í verki hversu mikilvæg fjölskyldan hefur alla tíð verið henni enda á hún vel heppnuð börn, tengdabörn og barnabörn sem hún hefur alla tíð verið stolt af.

Mæja og Óli gengu í hjónaband barnung og hófu búskap í fjölskylduhúsinu á Ægisíðunni. Barnahópurinn stækkaði og til marks um það hve Mæja tókst ung á við móðurhlutverkið er að hún átti „örverpið“ sitt innan við þrítugt. Heimilið og afkomendurnir voru alltaf í öndvegi og fátt veitti henni meiri gleði en að sjá nýja sprota blómstra, afkomendur sem eru að spjara sig í lífinu.

Hún var líka stolt af „litlu mágkonu sinni“ sem var bara sex ára þegar Mæja kom inn í fjölskylduna. Þau Óli Rúnar komu til Chicago til að vera við útskrift mágkonunnar.

Þær eru margar minningarnar sem hellast yfir mann þegar sest er niður til að festa á blað minningarorð um kæra vinkonu sem hefur kvatt allt of snemma. Mæja var ekki mikið að velta sér upp úr hlutunum. Þegar veikindin tóku að hrjá hana tókst hún á við mótlætið af æðruleysi og jafnvel undir það síðasta var aldrei neinn bilbug á henni að finna. Hún var meira að segja að skipuleggja heimkomuna þar sem ekki stóð annað til en að sigrast á þessum veikindum. Því miður tapaðist sú orrusta.

Kæri mágur, Ólafur Rúnar, Dóra, Siddó, Óli Már og Kolla, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra og fjölskyldna ykkar.

Söknuðurinn á eftir að verða raunverulegri þegar frá líður en fjölskyldan er sterk eftir sem áður og það má að mörgu leyti þakka Mæju mágkonu sem alla tíð hélt verndarhendi yfir sinni fjölskyldu og mun gera áfram. Sóri, Lóa, Sigga Regína og Óli Gísli senda innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurþór Albert Heimisson.