NASA leitar að geimverum í gufuhvolfinu

Bandaríska geimvísindastofnunin, NASA, hélt í fyrradag í fyrsta skipti opinberan fund um „óútskýrð furðufyrirbæri“, öðru nafni fljúgandi furðuhluti, sem skammstafaðir hafa verið FFH. Þar komu vísindamenn stofnunarinnar fram og hvöttu til þess að beitt yrði vandaðri og yfirvegaðri vísindalegum vinnubrögðum en hingað til í því skyni að henda reiður á mörg hundruð frásögnum sjónarvotta af furðufyrirbærum á himni.

Stonfunin greindi frá því í fyrra að hún væri lögst í greiningar á fyrirbærum, sem sést hefðu á himni og ekki mætti skýra sem náttúruleg fyrirbrigði.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur haft þessa hluti til skoðunar um skeið. Þar liggur fyrir langur listi yfir atvik, sem flugmenn bæði land- og sjóhers hafa orðið vitni að. Nokkur tilvikanna eru frá Íslandi frá þeim tíma sem bandaríska varnarliðið hafði hér aðsetur.

Ýmsar samsæriskenningar hafa verið um að bandarísk stjórnvöld hafi komist í tæri við geimverur og haldið því leyndu fyrir almenningi. Donald Trump var spurður um þessi mál í forsetatíð sinni og kvaðst ekki ætla að segja spyrjandanum frá því sem hann vissi, en það væri „mjög áhugavert“.

NASA hefur sent alls kyns sjónauka og mælitæki út í geim til að athuga hvort finna megi merki um líf á öðrum hnöttum, en hefur hingað til veitt himinhvolfi jarðar minni athygli.

Fundurinn í fyrradag var til að greina frá störfum nefndar sem á að skila skýrslu í lok júlí. Af fundinum að dæma eru ekki komnar fram óyggjandi vísbendingar um fljúgandi furðuhluti. Greind hafi verið 800 tilvik frá 27 ára tímabili og tvö til fimm prósent þeirra verði ekki útskýrð.

Hugmyndin um að verur frá öðrum hnöttum séu á sveimi allt um kring heillar marga og hrellir suma, en afdráttarlaus svör fást seint.