Gunnar Már Sigurgeirsson fæddist 2. febrúar 1946 í Hafnarfirði. Hann lést á líknardeild Landakots 18. maí 2023.

Foreldrar hans voru Sigurgeir Ágúst Helgason, f. 24.8. 1915, d. 18.4. 1948, og Þórunn Helgadóttir, f. 25.1. 1920, d. 26.10. 1989.

Systkini Gunnars eru Sjöfn, f. 15.3. 1939, Helga Katrín, f. 10.6. 1944, Sigurgeir Þór, f. 3.11. 1947, og Helena, f. 18.05. 1963.

Gunnar giftist Guðlaugu Magnúsdóttur, f. 8.4. 1946, þau slitu samvistum. Þau eignuðust tvær dætur, þær eru: 1) Eva Dís, f. 27.2. 1968, gift Njáli Gunnari Sigurðssyni. Börn þeirra eru þrjú: Elva María, í sambúð með Heiðari Smára Olgeirssyni og eiga þau einn son, Gunnar Loga. Fyrir átti Heiðar soninn Helga Steinar. Sigurður Gunnar, í sambúð með Örnu Hrönn, og Birta Ósk. 2) Olga Huld, f. 13.10. 1972, gift Hannesi Árnasyni. Þau eiga tvo syni, Christopher og Árna.

Gunnar ólst upp í Hafnarfirði hjá móður sinni og systkinum. Grunnskólagöngu stundaði hann í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Öll sumur fór hann í sveit í Lárkot við Grundarfjörð. Hann byrjaði ungur að vinna og fór fyrst á sjóinn 15 ára gamall. Eftir sjómennskuna vann hann ýmis störf, t.d. í Álverinu í Straumsvík, sem sendibílstjóri og húsvörður í Kaplakrika. Síðustu 25 ár starfsævi sinnar starfaði hann sem vörubílstjóri hjá fyrirtæki sínu, Lárkoti.

Gunnar verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 2. júní 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi, það er komið að kveðjustund. Á sama tíma og það er svo sárt að missa þig er gott til þess að vita að nú hafir þú fengið hvíld eftir ströng veikindi síðastliðið ár. Ár sem var þér ansi erfitt, allt í einu varst þú rifinn burtu úr þínu daglega umhverfi, frá bílnum þínum og heimilinu þínu sem var þér svo mikils virði. Þig langaði svo að lifa lengur, þú ætlaðir ekki að gefast upp og barðist eins lengi og þú gast. Ég er svo stolt af þér pabbi minn, þú stóðst þig sem hetja í þessari lífsbaráttu.

Pabbi minn var ósköp venjulegur maður með sína kosti og galla. Pabba var annt um fólk og var alltaf fyrstur til að rétta fram hjálparhönd. Hann elskaði að rúnta um Hafnarfjörð þar sem hann var fæddur og uppalinn. Hann þekkti marga og ég man þegar ég var lítil á rúntinum með honum þá fannst mér hann þekkja alla í Hafnarfirði því hann heilsaði öllum og spjallaði við þá sem urðu á vegi hans.

Ég á margar minningar af pabba sem gott er að ylja sér við í dag. Minningar eins og þegar hann kom að heimsækja mig og Christó til Danmerkur. Þá mætti hann með fulla tösku af íslensku lambakjöti, pylsum, remúlaði og kokteilsósu handa okkur. En hugsaði ekkert út í það að koma með aukaföt fyrir sig og þurftum við að byrja á því að fara út í búð og versla á hann föt. Svona var pabbi, alltaf að hugsa um að gleðja aðra.

Elsku pabbi, ég á eftir að sakna morgunstundanna okkar saman þegar þú birtist heima um helgar í morgunkaffi með nýbakað brauð úr bakaríinu handa okkur og ís handa Árna og spjallaði um daginn og veginn. Í dag er ég þakklát fyrir þessar heimsóknir og allar þær minningar sem ég á með pabba, þær ylja á svona erfiðum stundum.

Elsku pabbi, ég kveð þig með söknuði og þakka þér fyrir allt sem þú varst mér. Góða ferð inn í sumarlandið þar sem ég veit að pabbi þinn og mamma munu taka vel á móti þér. Minning þín mun lifa og ég mun hugsa til þín á hverjum degi. Elska þig pabbi minn.

Þín dóttir,

Olga Huld.

Elsku afi.

Þú elskaðir okkur barnabörnin mikið og varst alltaf tilbúinn að stökkva til og hjálpa okkur ef það var eitthvað. Þú settir okkur alltaf okkur í fyrsta sætið og bjóst aldrei við því að fá neitt í staðinn.

Það er margt sem við barnabörnin minnumst þegar við hittumst og rifjuðum upp allar góðu stundirnar sem við áttum með afa.

Við gleymum aldrei öllum sundferðunum, bíltúrunum og öllum sunnudögunum þar sem afi kom í heimsókn með kassa af ís og gaf okkur 5.000 kr. til þess að fara í bíó, þrátt fyrir að bíómiðinn á þessum tíma hafi sennilega verið nær 500 kr.

Hann afi var hreinskilinn maður og sagði hlutina eins og þeir voru. Það var alltaf hægt að treysta á hann að benda okkur á það hvað við höfðum bætt mikið á okkur frá því við sáum hann síðast, okkur til mikillar gleði.

Allar samræður við afa okkar voru áhugaverðar, hann kunni til dæmis ekki að enda símtöl á neinn annan hátt en að skella á fólk. Aldrei fékk maður kveðju í lok samtalsins, enda upptekinn maður.

Hann var líka alltaf til í að deila visku sinni með okkur, þar má helst nefna gullmola eins og: „passaðu þig á beljunum“, „óbyggðirnar kalla“, „passaðu þig á stelpunum“, „það má ekki spá of mikið í fortíðinni".

Afi var með eindæmum þrjóskur og hvatvís. Um leið og hann var búinn að ákveða að gera eitthvað, þá varð það bara þannig. Við munum eftir einu atviki þar sem gamli var búinn að leigja sér gröfu til þess að búa til pall hjá sér. Hann hringir í Christó og biður hann að koma og hjálpa sér. Christó segir að það séu 30 mínútur í sig. Þegar Christó kemur situr gamli inni í eldhúsi með kaffibolla og grafan á hlið úti á grasi. Christó spyr hvað í ósköpunum hafi gerst og afi segir þá að grafan hafi oltið af sjálfu sér.

Afi var oft óútreiknanlegur í sínum aðgerðum, þú gast alveg búist við því að hann labbaði inn til þín án þess að banka, gægðist inn um gluggana til þess að sjá hvort einhver væri heima eða sæti úti í bíl fyrir utan hjá þér og fylgdist með hvort allt væri í orden.

Það gladdi okkur mikið að afi hafi náð að kynnast fyrsta langafabarninu sínu og ekki var verra að þeir deildu sama nafni. Það var gaman að fylgjast með þeim tveim saman og alltaf mikið gleði þegar hann og nafni hans, Gunnar Logi, komu saman. Það var fátt sem gladdi afa meira en að fá langafabarnið sitt í heimsókn upp á spítala.

Afi, þú varst okkar klettur og varst alltaf til staðar fyrir okkur.

Það verður skrítið að fá ekki símtal frá þér á hverjum degi.

Við erum þakklát fyrir öll árin og stundirnar sem við áttum saman.

Við munum sakna þín.

Hvíldu í friði afi.

Árni Hannesson, Birta Ósk, Christopher Cannon, Elva María, Gunnar Logi og Sigurður Gunnar.