Farandsmiður Hólmar, staddur á Spáni í vikunni í verkefni, við sendibíl sinn og kerru með öllum verkfærum.
Farandsmiður Hólmar, staddur á Spáni í vikunni í verkefni, við sendibíl sinn og kerru með öllum verkfærum.
Eva Sóldís Bragadóttir eva@mbl.is Húsasmiðurinn Hólmar Þór Stefánsson hefur síðan í mars ferðast um Evrópu og tekið að sér ýmis verkefni fyrir Íslendinga sem eiga húsnæði erlendis. Hólmar ferðast á milli landa í Evrópu á sendiferðabíl sínum og þegar Morgunblaðið náði tali af honum var hann einmitt á leiðinni í sitt næsta verkefni nálægt Valencia á Spáni.

Eva Sóldís Bragadóttir

eva@mbl.is

Húsasmiðurinn Hólmar Þór Stefánsson hefur síðan í mars ferðast um Evrópu og tekið að sér ýmis verkefni fyrir Íslendinga sem eiga húsnæði erlendis. Hólmar ferðast á milli landa í Evrópu á sendiferðabíl sínum og þegar Morgunblaðið náði tali af honum var hann einmitt á leiðinni í sitt næsta verkefni nálægt Valencia á Spáni.

Hóf ferðalagið eftir skilnað

Greinir Hólmar frá því að hafa lent í nokkrum áföllum undanfarin ár og þau óbeint leitt hann í ferðalag sitt. Hann nefnir nýrnabilun og hjartaáfall en segir hugmyndina hafa orðið til þegar hann og eiginkona hans skildu á síðasta ári. Hann hafi alltaf langað til að ferðast um Evrópu og eftir skilnaðinn ákveðið að „slá tvær flugur í einu höggi og vinna og ferðast“. Hefur hann núna verið á faraldsfæti í rúman tvo og hálfan mánuð og segir heilsukvillana ekki hrjá sig mikið, hann þurfi helst meiri svefn eftir erfiðisvinnu en áður en geti að öðru leyti unnið vel.

„Þegar ég fór af stað spurðu sumir mig hvað ég væri eiginlega að pæla, en flestöllum fannst þetta brilljant hugmynd,“ segir Hólmar. Kveðst hann helst koma sér á framfæri á Íslendingasíðum á Facebook og það hafi komið sér á óvart hve miklum árangri þær geti skilað. Hann hafi þar að auki notað facebooksíður Dana á Spáni, enda búið í Danmörku núna í átta ár, og fengið fullt af verkefnum í gegnum þær.

Enginn Gísli á Uppsölum

Hólmar ferðast á milli staða á sendiferðabíl með hestakerru í eftirdragi. Sposkur segir hann kerruna ekki geyma hesta heldur verkfæri. Það sé ekki nóg pláss í sendiferðabílnum til að rúma öll verkfærin sem hann þurfi, enda helmingur bifreiðarinnar notaður sem svefnrými þar sem hann gistir yfirleitt. Segist hann sáttur við fyrirkomulagið.

„Mér finnst það notalegt því þá velur maður bara hvar maður gistir. Ég get þess vegna verið niðri við ströndina,“ segir hann og bætir við að í þessum lífsstíl felist mikið frelsi. „Stundum er gott að vera einn, þótt það sé líka gott að hafa fólk í kringum sig. Ég held ég gæti nú ekki gerst einbúi í einhverjum dal og umgengist engan, ég er enginn Gísli á Uppsölum – langt því frá,“ segir hann glettnislega.

Aðferð til að skoða heiminn

Hingað til hefur ferðalag Hólmars eingöngu verið um Spán en hann segir aðra áfangastaði á dagskrá. Nefnir hann þá Frakkland og Lúxemborg sem dæmi en segist ekki vita hvað hann endist lengi á ferðalaginu, hann líti bara á þetta sem upplifun í bili. „Æ, maður verður bara að prófa þetta. Ég meina, fólk fer í heimsreisu! Þetta er ein aðferð til að skoða heiminn,“ segir Hólmar.

Höf.: Eva Sóldís Bragadóttir