Óli Örn Eiríksson
Óli Örn Eiríksson
Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri Athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, segir ekki hægt að taka einstaka umsækjendur um byggingarlóðir fram fyrir í röðinni. Allir verði að lúta sömu skilmálum. Tilefnið er viðtal við Þorvald Gissurarson,…

Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri Athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, segir ekki hægt að taka einstaka umsækjendur um byggingarlóðir fram fyrir í röðinni. Allir verði að lúta sömu skilmálum.

Tilefnið er viðtal við Þorvald Gissurarson, forstjóra ÞG Verks, í blaðinu í gær en hann undraðist dræm viðbrögð borgarinnar við umsókn fyrirtækisins um lóðir undir 900 hagkvæmar íbúðir. Búið væri að tryggja fjármögnun og ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir og vinna þannig á íbúðaskorti.

Erindið var sent til borgarstjóra en hann er nú í fríi erlendis.

Óli Örn varð því fyrir svörum.

„Borgin má ekki úthluta lóðum beint til einkaaðila. Við höfum þá skyldu að bjóða lóðir út eins og fram kemur í bréfinu [frá skrifstofu borgarstjóra] til Þorvaldar.“

Komin yfir efri mörk

– Væri tilefni til að hefja viðræður við ÞG Verk og finna e.t.v. lausn?

„Í samkomulagi okkar við HMS um framboð á íbúðarhúsnæði segir að borgin skuli á hverjum tíma reyna að tryggja byggingarhæfar lóðir undir 1.500 til 3.000 íbúðir.

Á vefsjá okkar eru nú lóðir undir 2.600 íbúðir sagðar byggingarhæfar. Að auki eru lóðir við Krossmýrartorg á Ártúnshöfða að verða byggingarhæfar. Alls með 400-500 íbúðum. Við erum því komin yfir hærri mörkin í samkomulaginu. Stopparinn er efnahagslegur, þ.e. hvort fyrirtækin fái fjármagn til að byggja. ÞG Verk getur að sjálfsögðu verið undirverktaki, byggt fyrir lóðarhafa eða keypt lóðir.“ baldura@mbl.is