— Morgunblaðið/Eggert Skúlason
Laxveiðitímabilið hófst formlega í gærmorgun þegar veiðimenn mættu spenntir í Urriðafoss í Þjórsá. Klukkan átta voru veiðihjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir mætt að vitja þess silfraða

Laxveiðitímabilið hófst formlega í gærmorgun þegar veiðimenn mættu spenntir í Urriðafoss í Þjórsá. Klukkan átta voru veiðihjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir mætt að vitja þess silfraða. Með í för voru Matthías sonur þeirra og ábúendur á Urriðafossi, þau Haraldur Einarsson og Birna Harðardóttir.

Stefán landaði fyrsta laxinum úr Lækjarlátri, 70 cm hrygnu, og skömmu síðar gerði sonurinn Matthías enn betur á veiðistaðnum Huldu; landaði þar 75 cm hrygnu. Matthías er hér með laxinn góða og móðirin Harpa Hlín stolt af drengnum.

Í gærkvöldi höfðu sjö laxar komið á land eftir daginn, allir lúsugir, samkvæmt upplýsingum sem veiðivefurinn Sporðaköst á mbl.is fékk.

Þetta er nokkuð minni veiði en á opnunardeginum í Urriðafossi í fyrra, þegar 17 laxar veiddust. eggertskula@mbl.is