Ern „Ég mun mála meðan ég er uppistandandi,“ segir Haukur Dór sem haldið hefur á fimmta tug einkasýninga.
Ern „Ég mun mála meðan ég er uppistandandi,“ segir Haukur Dór sem haldið hefur á fimmta tug einkasýninga. — Morgunblaðið/Hákon
Sextíu ára starfsafmæli listamannsins Hauks Dórs var fagnað með opnun fimmtu einkasýningar hans hjá Gallerí Fold fyrir skemmstu. Sýningin ber heitið Ljósa hliðin og stendur til 10. júní. Haukur Dór sýnir nýleg akrílverk sem hann segir vera afrakstur síðustu ára

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Sextíu ára starfsafmæli listamannsins Hauks Dórs var fagnað með opnun fimmtu einkasýningar hans hjá Gallerí Fold fyrir skemmstu. Sýningin ber heitið Ljósa hliðin og stendur til 10. júní. Haukur Dór sýnir nýleg akrílverk sem hann segir vera afrakstur síðustu ára. „Þessi verk tengjast náttúrunni, ég sé landslag og vatn í myndunum.“ Í þessum verkum notar listamaðurinn ljósari liti en oft áður. „Ætli ég sé ekki bara að fölna með árunum,“ segir hann glettinn og bætir við: „Þetta er bara einhver þróun sem hefur átt á sér stað.“

Auk nýju verkanna eru nokkur eldri verk á sýningunni, þau eru fígúratív undir afrískum áhrifum í sterkum litum á dökkum fleti. „Ég er mjög hrifinn af afrískri list og því sem hefur verið kallað frumstæð list en er ekki frumstæð. Ættbálkalist vil ég kalla það.“

Haukur Dór vann lengi við keramiklist en sneri sér síðan alfarið að málverkinu. „Að vinna við leirinn með höndunum var mjög skemmtilegt en ég var orðinn það slæmur í baki að ég gat illa setið við rennibekkinn og lagði keramikið til hliðar. En ég málaði alltaf, hef gert það síðan ég man eftir mér.“

Það eru sextíu ár síðan hann sýndi fyrst verk sín. „Það gekk mjög vel fjárhagslega þegar ég var í leirnum en það er alltaf barningur með myndlistina. Fólk hefur þó alltaf tekið verkum mínum vel. Ég er þakklátur fyrir það og það veitir mér mikla ánægju ef einhver gleðst yfir því sem ég er að föndra við.“

Listamaðurinn er að verða 83 ára en segist hvergi nærri hættur listsköpun. „Ég mála á hverjum einasta degi, marga tíma á dag. Ég get ekki gert neitt annað, ég kalla þetta genetískan galla. Þetta er þörf sem ég ræð ekkert við. Ég mun mála meðan ég er uppistandandi.“

Hann segist ekki vera mikið fyrir að skilgreina verk sín eða list almennt. „Ég hef ekki margt gáfulegt að segja um list. Því eldri sem ég verð því minna veit ég um list. En ég veit þegar verk hrífur mig og það nægir mér. Brjóstvitið ræður.“

Haukur Dór hefur haldið á fimmta tug einkasýninga á Íslandi og tekið þátt í samsýningum myndlistar- og leirlistarmanna víða um lönd. Verk hans er að finna í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og Hönnunarsafni Íslands og að auki í fjölmörgum stofnunum og einkasöfnum.