Spá Jón Bjarki Bentsson stýrði gerð nýrrar þjóðhagsspár Íslandsbanka.
Spá Jón Bjarki Bentsson stýrði gerð nýrrar þjóðhagsspár Íslandsbanka. — Morgunblaðið/ Kristofer Liljar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það virðast vera mjög skiptar skoðanir um þetta innan bankans. Ásgeir Jónsson hefur verið býsna skýr með að þetta skipti miklu máli, að koma lánamarkaðnum og sér í lagi íbúðalánamarkaðnum yfir og gera það að grunnákvörðun heimilanna að taka…

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það virðast vera mjög skiptar skoðanir um þetta innan bankans. Ásgeir Jónsson hefur verið býsna skýr með að þetta skipti miklu máli, að koma lánamarkaðnum og sér í lagi íbúðalánamarkaðnum yfir og gera það að grunnákvörðun heimilanna að taka óverðtryggð lán [...]“

Þessum orðum fer Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka um þá stöðu sem komin er upp í kjölfar þess að Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans kynnti svokallaða rammagrein í nýútgefnu riti, Peningamálum, þar sem starfsmenn bankans komast að þeirri niðurstöðu að það skipti litlu sem engu máli upp á miðlun peningastefnunnar hvort heimilin í landinu séu þungvigtuð í óverðtryggðum eða verðtryggðum lánum.

Til innanhússbrúks?

Jón Bjarki er gestur í nýjasta þætti Dagmála og er þar spurður frekar út í þessi ummæli sín og því varpað fram hvort nokkur ástæða sé til að ætla að þessi niðurstaða, eða rannsókn, hafi verið birt í óþökk seðlabankastjóra segir Jón Bjarki einfaldlega: „Ja, maður spyr sig. Ég veit svo sem ekki hvernig kaupin gerast á eyrinni þar en mér fannst þetta svolítið hafa verið til innanhússbrúks,“ og bætir því við að Þórarinn og ýmsir sem hafi lengi starfað á vettvangi bankans hafi afdráttarlaust talað fyrir verðtryggingunni.

Margir munu ráða vel við

Jón Bjarki bendir á að Seðlabankanum sé mikið í mun að berja verðbólguna niður áður en stórir hópar skuldara fái yfir sig endurskoðaða óverðtryggða vexti á íbúðamarkaði. Hann segir þrátt fyrir það að mjög stórir hópar lántakenda muni eiga tiltölulega auðvelt með að taka þær hækkanir á sig þar sem hækkandi verð íbúðarhúsnæðis og miklar launahækkanir vegi sterklega á móti mikilli hækkun afborgana. Íslandsbanki spáir því í nýrri þjóðhagsspá að laun muni hækka um 9% á þessu ári, 8% á komandi ári og að enn muni hækkanir nema 6% árið 2025.