Stjórn Faxaflóahafna hefur lagt til að félagið greiði 1.646 m.kr. í arð vegna reksturs ársins 2022. Þetta kemur fram í fundargerð Faxaflóahafna frá stjórnarfundi sem fram fór í apríl. Til samanburðar hljóðaði arðgreiðsla síðasta árs, vegna rekstrarársins 2021, upp á 766 m.kr

Stjórn Faxaflóahafna hefur lagt til að félagið greiði 1.646 m.kr. í arð vegna reksturs ársins 2022. Þetta kemur fram í fundargerð Faxaflóahafna frá stjórnarfundi sem fram fór í apríl. Til samanburðar hljóðaði arðgreiðsla síðasta árs, vegna rekstrarársins 2021, upp á 766 m.kr. Ársreikningur Flaxaflóahafna hefur ekki enn verið birtur. Að svo stöddu er því ekki unnt að setja arðgreiðsluna í samhengi við rekstur.

Í fundargerð kemur fram að fyrir fundinum hafi legið kynning á tillögum til arðgreiðslustefnu frá KPMG og bréf til stjórnar frá Halldóru Káradóttur, sviðsstjóra fjármála- og áhættusviðs Reykjavíkurborgar. Í bréfinu mun vera lagt til að stjórn hefði frumkvæði að því að handhafar eigendavalds skipi stýrihóp um mótun stefnu um fjármagnsskipan.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og stjórnarformaður Faxaflóahafna, lagði til að arðgreiðslutillaga stjórnar yrði í samræmi við tillögu í greinagerð KPMG, fyrrgreindar 1.646 m.kr. og var sú tillaga samþykkt með sex atkvæðum en gegn einu. Aðrar tillögur komu ekki fram í fundargerð.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, situr einnig í stjórn Faxaflóahafna en hún taldi áformaða arðgreiðslu of ríflega. Í bókun bendir hún á að Faxaflóahafnir hafi áformað umfangsmiklar fjárfestingar til næstu ára og að það muni reynast ósjálfbært að móta arðgreiðslustefnu til framtíðar á grundvelli fjárþarfar stærsta eiganda. „Fyrirkomulagið sem tekið er mið af í ársreikningi mun til framtíðar kalla á stóraukna skuldsetningu félagsins og jafnframt hægja verulega á mögulegri innviðafjárfestingu,“ segir í bókun hennar.

Faxaflóahafnir eru 75,56% í eigu Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gaf til kynna í nýlegum þætti Dagmála Morgunblaðsins að borgin stefndi að því að nýta fjármagn úr dótturfélögum sínum til að mæta rekstrarhalla borgarinnar. „Við erum að horfa á fjármagnsskipanina, hvernig við getum nýtt okkur styrkinn í samstæðunni í heild til þess að hjálpa til,“ sagði hann meðal annars.