Hagaskóli Nemendur gæddu sér á ýmiss konar góðgæti á Heimkomuhátíð Hagaskóla sem haldin var í gær.
Hagaskóli Nemendur gæddu sér á ýmiss konar góðgæti á Heimkomuhátíð Hagaskóla sem haldin var í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haldin var svokölluð Heimkomuhátíð í Hagaskóla í gær til að bjóða nemendur velkomna í húsnæði skólans við Fornhaga eftir að hafa þurft að flakka á milli bráðabirgðahúsa í tæp tvö ár. Haustið 2021 greindist mygla í meirihluta skólans, en síðan þá…

Eva Sóldís Bragadóttir

eva@mbl.is

Haldin var svokölluð Heimkomuhátíð í Hagaskóla í gær til að bjóða nemendur velkomna í húsnæði skólans við Fornhaga eftir að hafa þurft að flakka á milli bráðabirgðahúsa í tæp tvö ár. Haustið 2021 greindist mygla í meirihluta skólans, en síðan þá hefur aðeins verið pláss fyrir einn árgang í húsinu í senn. Er nú loks komin lausn á húsnæðisvanda skólans og héldu nemendurnir hátíð af því tilefni.

Mikið um að vera

Mikið líf og fjör var á skólalóðinni í gær, enda nóg af veitingum og afþreyingu. Var þar á meðal búið að setja upp draugahús, sjoppu og pizzastað. Að sögn Lovísu Ránar og Sölku Þorgerðar, nemenda í 10. bekk skólans, áttu kennararnir hugmyndina að hátíðinni en tíundubekkingar hafi skipulagt hana. Þær segja bekkinn hafa fengið að stunda nám í skólabyggingunni undanfarið skólaár á meðan hinir tveir árgangar unglingastigsins hafi þurft að taka rútu daglega í bráðabirgðahúsnæði. Níundi bekkur hafi þá verið í skrifstofuhúsnæði í Ármúla og áttundi bekkur í Korpuskóla í Grafarvogi. Tilgangur hátíðarinnar hafi því verið að bjóða þessa tvo yngri árganga velkomna aftur í húsnæðið í Vesturbænum. „Hátíðin er sem sagt til að fagna því að nemendur skólans séu aftur að sameinast,“ segir Lovísa Rán.

Gott að losna við óreiðuna

Sameining nemendanna mun þó ekki eiga sér stað fyrr en í haust. Aðspurðar hvort þeim þyki leitt að missa af skólagöngu með yngri árgöngunum svara stelpurnar að það sé súrsætt að skilja við skólann á þessum tímamótum.

„Mér finnst alveg smá leiðinlegt að það sé verið að leysa úr þessu akkúrat þegar við erum að fara, en ég er á sama tíma alveg tilbúin að fara úr grunnskóla,“ segir Salka og Lovísa bætir við: „Ég hefði alveg viljað upplifa það en mig langar líka bara að losna úr þessari myglu og óreiðu og fá meiri stöðugleika.“