Sigur Leikmenn FH fagna marki fyrr á tímabilinu. Í gærkvöldi höfðu Hafnfirðingar ærna ástæðu til að fagna eftir góðan sigur á Þór/KA.
Sigur Leikmenn FH fagna marki fyrr á tímabilinu. Í gærkvöldi höfðu Hafnfirðingar ærna ástæðu til að fagna eftir góðan sigur á Þór/KA. — Morgunblaðið/Eggert
FH gerði frábæra gerð til Akureyrar og lagði Þór/KA að velli, 2:0, í lokaleik 6. umferðar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum í gærkvöldi. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom nýliðunum úr Hafnarfirði í forystu er hún skoraði með skoti…

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

FH gerði frábæra gerð til Akureyrar og lagði Þór/KA að velli, 2:0, í lokaleik 6. umferðar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum í gærkvöldi.

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom nýliðunum úr Hafnarfirði í forystu er hún skoraði með skoti af stuttu færi eftir að skot Mackenzie George hæfði stöngina. Undir lok leiksins innsiglaði Sara Montoro sigurinn þegar hún slapp í gegn og renndi boltanum á milli fóta Melissu Lowder í marki Þórs/KA.

Sigurinn var kærkominn fyrir FH, sem fór með honum upp úr fallsæti og í 7. sætið þar sem liðið er nú með 7 stig. Þór/KA hefur tapað tveimur leikjum í röð og er í 5. sæti með 9 stig.

Valur vann Þrótt, 2:1, í uppgjöri toppliðanna í Laugardalnum í fyrrakvöld þar sem Bryndís Arna Níelsdóttir kom Val í 2:0 snemma leiks en Tanya Boychuk minnkaði muninn fyrir Þrótt.

Lið ríkjandi Íslandsmeistara Vals er nú eitt á toppi deildarinnar með 13 stig.

Stjarnan vann Keflavík, 3:0, í Garðabæ þar sem Anna María Baldursdóttir, Jasmín Erla Ingadóttir og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir skoruðu mörkin.

Stjarnan er í 3. sæti með 10 stig, jafnmörg og Þróttur í 4. sætinu.

Breiðablik vann Selfoss, 3:0, fyrir austan fjall en þar skoruðu Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir á fyrstu 11 mínútunum og Selfyssingar skoruðu einnig sjálfsmark. Agla María Albertsdóttir lagði upp öll þrjú mörkin.

Blikar eru í 2. sæti með 12 stig, einu stigi á eftir toppliði Vals.