Fulltrúar BSRB og SNS funduðu í gær í Karphúsinu með aðstoðarsáttasemjurum í um sjö klukkutíma. Var ákveðið að stöðva fundinn um áttaleytið í gærkvöldi og boða til annars fundar kl. 10 í dag. Aldís Sigurðardóttir, annar tveggja sáttasemjara í…

Fulltrúar BSRB og SNS funduðu í gær í Karphúsinu með aðstoðarsáttasemjurum í um sjö klukkutíma. Var ákveðið að stöðva fundinn um áttaleytið í gærkvöldi og boða til annars fundar kl. 10 í dag. Aldís Sigurðardóttir, annar tveggja sáttasemjara í deilunni, sagði í gærkvöldi við mbl.is að staðan væri gríðarlega þung í kjaradeilunni, sem ætti sér enga hliðstæðu.

„Þetta er afar snúið mál,“ sagði Aldís og bætti við að allir vildu leysa úr þeirri stöðu sem komin væri upp. Þá væri hún bjartsýn svo lengi sem viðræður héldu áfram, en ítrekaði að staðan væri þung.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB sagði við mbl.is í gærkvöldi að enn stæðu atriði út af í viðræðunum en verið væri að leita lausna á þeim í sameiningu.

Sagði Sonja að ákveðið hefði verið að taka hlé í viðræðunum til þess að aðilar gætu rætt við baklönd sín og hugsað upp einhverjar lausnir. „Við fengum heimaverkefni fyrir morgundaginn og komum aftur til fundar þá,“ sagði Sonja. „Það eru allir að teygja sig. Þannig er bara staðan. Það eru allir að reyna að finna lausn á þessu.“

SGS og ríkið funda einnig í dag

Ríkissáttasemjari hefur einnig boðað til fundar á milli samninganefnda ríkisins og Starfsgreinasambandsins og hefst hann kl. 13 í Karphúsinu. SGS vísaði deilunni til sáttasemjara fyrr í vikunni, en Vilhjálmur Birgisson formaður SGS sagði í fyrradag ómögulegt að kyngja þeim mun sem væri á þeim launatöflum sem ríkið hefði boðið SGS og þeim sem samið hefði verið um við önnur verkalýðsfélög.

Kjaramál

Fundur BSRB og SNS hófst um eittleytið í gær og lauk um kl. 20

Næsti fundur er í dag kl. 10

Boðað hefur verið til harðari aðgerða í deilunni eftir helgi ef ekki semst

SGS og ríkið funda í dag kl. 13