Uppbygging Mikið útsýni er úr þessari nýbyggingu í Hvörfunum.
Uppbygging Mikið útsýni er úr þessari nýbyggingu í Hvörfunum. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir vorið 2019 voru mikil áform um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Það var raunar veigamikill þáttur kjarasamninganna. Tryggja átti fólki með lægri tekjur hagkvæmara húsnæði og bæta þannig lífskjörin.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir vorið 2019 voru mikil áform um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Það var raunar veigamikill þáttur kjarasamninganna. Tryggja átti fólki með lægri tekjur hagkvæmara húsnæði og bæta þannig lífskjörin.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sá þá fyrir sér í samtali við Morgunblaðið að Bjarg íbúðafélag og fyrirhugað húsnæðisfélag, Blær, gætu byggt 600-800 íbúðir á ári. Til samanburðar væri áætlað að byggja þurfi 1.800 til 2.200 íbúðir á ári. Samkvæmt þessum tölum gætu félögin tvö því verið með um og yfir þriðjung nýrra íbúða á landinu.

Nú, fjórum árum síðar, hefur Bjarg byggt um 950 íbúðir. Það er umtalsverður fjöldi og til dæmis næstum á við fjögur Skuggahverfi í Reykjavík. Blær hefur hins vegar ekki byggt eina einustu íbúð.

Af þessu leiðir að markmið um hátt hlutfall þessara tveggja félaga í framboði nýrra íbúða er langtum minna en til stóð.

Þrýstir upp lóðaverði

Ragnar Þór segir aðspurður margt skýra að uppbygging hagkvæmra íbúða hafi ekki verið meiri en raun ber vitni.

Í fyrsta lagi hafi lóðabrask stuðlað að hærra lóðaverði og þar með gert út um möguleikann á byggingu hagkvæmra íbúða.

„Það blasir við og liggur fyrir að sveitarfélögin hafa verið að selja lóðir til hæstbjóðenda sem ætla sér ekki að byggja heldur sitja á lóðunum og endurselja með ávinningi. Við finnum það í Bjargi að lóðarhafar og fasteignaþróunarfélög sem hafa fengið byggingarlóðir eru að bjóða okkur þær til kaups með álagningu,“ segir Ragnar Þór.

Á að borga borgarlínu

Þá vegi þungt að loforð um lóðir í Keldnaholti hafi ekki verið efnd.

„Það var hluti af samkomulagi við stjórnvöld að við áttum að fá Keldnaholtið undir hagkvæma uppbyggingu en síðan var það sett undir félagið Betri samgöngur sem framlag ríkisins og það félag þarf að hámarka arðsemi fyrir byggingarlandið til þess að standa undir kostnaði við borgarlínu. Þótt einhver hluti hafi verið eyrnamerktur hagkvæmum íbúðum hefur það ekki verið skilgreint sérstaklega.“

Nálgast 200 þúsund

Haft var eftir Þorvaldi Gissurarsyni, forstjóra ÞG Verks, í Morgunblaðinu í gær að lóðaverð sé komið í 200 þúsund krónur á hvern byggðan fermetra á þéttingarreitum í eigu einkaaðila.

„Staðan er grafalvarleg [og þær tölur sem Þorvaldur nefnir] eru nálægt því verði sem er verið að bjóða okkur í Bjargi og Blæ, um 190-200 þúsund krónur á fermetra. Við getum ekki byggt hagkvæmt húsnæði á þessu verði.

Þannig að það er að skapast grafalvarleg staða. Ég hef bent á að staðan á húsnæðismarkaði er hrikaleg og það sem er kannski hrikalegra er að hún á eftir að versna til mikilla muna vegna þess að nú er framkvæmdahliðin að fara í frost,“ segir Ragnar Þór.

Íbúðir Bjargs eru ætlaðar tekju- og eignalágum. Íbúðir Blæs voru hins vegar ætlaðar breiðari hópi en leiguverðið átti að vera miðja vegu milli félagslega kerfisins og almenns markaðar. Ekki var gengið út frá því að Blær yrði óhagnaðardrifið félag og segir Ragnar Þór að ætlunin sé að laða fjárfesta að félaginu.

Að undanförnu hafi verið lögð vinna í að ramma inn hugmyndafræðina hjá Blæ og meðal annars tryggja skaðleysi Bjargs sem framkvæmdaaðila. „Verkefnið er komið af stað en það skortir byggingarhæfar lóðir. Við hefðum viljað gera miklu meira fyrr og komast hraðar af stað með verkefnið. Við getum augljóslega ekki yfirboðið markaðinn og byggt á þéttingarreitum til þess að byggja hagkvæmt. Það hljóta allir að sjá,“ segir Ragnar Þór.

Hann kallar eftir því að heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðum verði rýmkaðar. Þá þurfi sveitarfélögin að hugsa sinn gang enda bíti það í skottið á sér að reyna að fá sem hæst verð fyrir lóðir og þurfa svo að verja meiru í tilfærslukerfin vegna hærri húsnæðiskostnaðar.

Markaðarins að leysa

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, hélt því fram í samtali við blaðið að engar lóðir væru til sölu í borginni. Óli Þór Eiríksson, teymisstjóri athafnaborgarinnar á skrifstofu borgarstjóra, sagði hins vegar nóg framboð af lóðum. Þetta virðist stangast á.

Spurður aftur út í stöðuna ítrekar Óli Örn að nú séu byggingarhæfar lóðir undir 2.600 íbúðir í borginni í höndum einkaaðila og húsnæðisfélaga. Það megi sjá á kortavefsjá borgarinnar og hægt að skoða nákvæmlega hvar þær eru staðsettar og í mörgum tilfellum einnig hver á lóðina. Hins vegar hafi lóðareigendur í mörgum tilfellum ekki hafið uppbyggingu af ýmsum ástæðum, þá helst vegna vandkvæða með fjármögnun.

Sumir aðilar hafi kvartað undan því að endursöluverð þessara lóða sé hátt en það sé markaðarins að leysa það.