Birkir Jóhannsson er fæddur 8. júní 1983 í Reykjavík. Hann ólst fyrstu árin upp í Skipholti en síðan í Kringlunni í Hvassaleitishverfinu þar sem foreldrar hans búa enn.
„Ég átti yndislega æsku hjá mínum ástkæru foreldrum. Ég var í Barnakór Grensáskirkju hjá Margréti Pálmadóttur, var í lúðrasveitum og spilaði á alls kyns hljóðfæri. Það varð eiginlega til þess að á fullorðinsárunum fór ég að stunda hjólreiðar og hlaup. Ég vildi sanna fyrir mér að ég gæti líka verið íþróttamaður.“
Birkir hóf skólagöngu sína í Ísaksskóla en lauk grunnskóla í Hvassaleitisskóla. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík þar sem Birkir útskrifaðist með stúdentspróf af eðlisfræðibraut árið 2003. Hann er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands frá 2008 og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík 2014, þar sem hann hlaut viðurkenningu frá Viðskiptaráði Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur. Auk þess hefur Birkir lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og aflað sér réttinda sem héraðsdómslögmaður.
„Ég var kominn með umsóknareyðublaðið í háskólanum til að skrá mig í verkfræði en ákvað að hvíla mig á stærðfræðinni í hálft ár og skráði mig í lögfræði. Svo rankaði ég við mér sjö árum síðar, þegar ég var búinn með laganámið og hafði starfað sem lögmaður, að ég vildi vinna með tölur og fólk og skipti því alveg um kúrs.“
Birkir var lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka 2008-2010 og vann í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka 2010-2015. Hann var framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor 2015-2020 og var síðan framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi og stafrænna lausna hjá VÍS frá júní 2021 til desember 2022. Birkir hóf störf sem forstjóri tryggingafélagsins TM í apríl 2023 og tók á sama tíma sæti í framkvæmdastjórn Kviku.
„Ég var í mjög skemmtilegu starfi hjá VÍS, að vinna með frábæru fólki og var langt í frá að leita mér að nýju starfi. En þegar mér bauðst að ganga til liðs við TM, var það tækifæri sem ég gat ekki hafnað. TM er þekkt fyrirtæki á íslenskum tryggingamarkaði, með sterkt vörumerki og mikla sögu. Félagið er auk þess hluti af Kviku, en í því felast enn frekari tækifæri. Mér líst mjög vel á starfið hérna og var svo heppinn að þegar ég var nýbyrjaður í starfinu var farið í árshátíðarferð þar sem ég kynntist vinnufélögum mínum vel.“
Áhugamál Birkis eru hlaup og skíði, en hann stefnir á að hlaupa maraþon í desember í Valencia á Spáni. „Ég byrjaði að hlaupa fyrir tveimur árum, með það að markmiði að hlaupa maraþon á góðum tíma. Áður stundaði ég hjólreiðar af miklu kappi. Ætli ég hætti ekki að hlaupa eftir maraþonið og snúi mér að einhverju öðru sporti, til dæmis golfi. Mér finnst gaman að hella mér út í svona verkefni og ná ákveðnum árangri og snúa mér svo að öðru.
Það skemmtilegasta sem ég geri er hins vegar að fara á skíði. Ég hef aðallega stundað það sport erlendis með félögum mínum, en núna nýt ég þess að hjálpa fjögurra ára syni mínum við að ná tökum á skíðunum.“
Á morgun mun Birkir útskrifast úr stjórnunarnámi (AMP) við viðskiptaháskólann IESE í Barcelona. Hann mun því eyða öllum afmælisdeginum í skólanum. „Konan mín kemur svo hingað á útskriftina og þá verður fagnað.“
Fjölskylda
Eiginkona Birkis er Sunna Dóra Sigurjónsdóttir, f. 23.4. 1988, verkefnastjóri hjá FSRE, Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum. Þau eru búsett á Arnarnesi í Garðabæ. Foreldrar Sunnu eru Vigdís Árnadóttir, f. 6.4. 1965, búsett í Reykjavík, og Sigurjón Kristjánsson, f. 5.4. 1962, búsettur í Noregi.
Sonur Birkis er Bjarki Birkisson, f. 31.7. 2004, nemi við Verzlunarskóla Íslands, og börn Birkis og Sunnu eru Burkni Birkisson, f. 1.12. 2018, og Sól Birkisdóttir, f. 29.4. 2021, bæði í leikskólanum Hnoðraholti.
Systkini Birkis eru 1) Björgvin Jóhannsson, f. 19.2. 1972, sérfræðingur hjá Öryggismiðstöðinni, búsettur í Reykjavík; 2) Svanlaug Jóhannsdóttir, f. 29.12. 1980, eigandi og framkvæmdastjóri Osteostrong, búsett í Kópavogi; 3) Harpa Jóhannsdóttir, f. 16.6. 1986, mannauðssérfræðingur hjá Alpla, búsett í Hard í Austurríki.
Foreldrar Birkis eru hjónin Jóhann Loftsson, f. 12.10. 1950, sjálfstætt starfandi sálfræðingur, og Elfa Eyþórsdóttir, f. 29.3. 1952, áður skjalastjóri hjá forsætisráðuneytinu. Þau eru búsett í Reykjavík.