Seðlabankinn
Seðlabankinn — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kynningarfundur Seðlabanka Íslands vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar var haldinn í gær og af því tilefni var dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tekinn tali. Fyrst var hann spurður um stöðugleikann

Viðtal

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Kynningarfundur Seðlabanka Íslands vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar var haldinn í gær og af því tilefni var dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tekinn tali. Fyrst var hann spurður um stöðugleikann.

„Enn sem komið er stenst peningakerfið álagið tiltölulega vel, þó vextir hafi hækkað töluvert. Það er að einhverju leyti því að þakka hvað við höfum sett ströng viðmið um eiginlega allt saman: fjármögnun bankanna, eiginfjárstöðu þeirra og líka um það sem við bættum um betur, sem eru lánþegaskilyrðin.

Hafa viðskiptabankarnir staðið sig vel gagnvart viðskiptavinum í vanda?

„Ég held að þeir hafi almennt staðið sig mjög vel. Þeir eru auðvitað með vant og vel þjálfað fólk, sem tókst á við eftirmál hrunsins og allt það, svo bankarnir eru vel vakandi.

Nú kemur það sér líka vel að bankarnir séu með fasteignalánin, að þar er öll reynslan og þekkingin og mannskapurinn til þess að gera svona hluti, skuldbreyta og setjast niður með fólki til þess að finna eitthvað út úr þessu.“

Ábyrgð vinnumarkaðar

En samt er kvartað og kveinað?

„Ég hélt síðastliðið haust, að verkalýðshreyfingin myndi átta sig á því að það að ætla að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana. Það hlyti að vera alveg skýrt, en þannig fór það nú samt. Jafnvel sumir verkalýðsforingjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira. Nú vilja sömu foringjar halda útifundi til þess að mótmæla afleiðingum gerða sinna.“

Er það ekki bara uppbyggileg sjálfsgagnrýni?

„Jú, það má segja það, þeir eru að mótmæla sjálfum sér.

En auðvitað er ekki bara við verkalýðshreyfinguna að sakast, Samtök atvinnulífsins verða líka að huga að þessu, það hefnir sín fyrir þeim líka að gera samninga umfram það sem innistæða er fyrir.“

Nóg skældu þeir, en sömdu nú samt.

„Já, og það var ákveðin meðvirkni í gangi. Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helst ekki tjá okkur af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum. Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi og svo framvegis. Það er ekkert annað en meðvirkni.“

Þú ert ekki ókunnugur verkalýðshreyfingunni, en foringjarnir hlustuðu ekki þá, eru þeir líklegri til að hlusta núna?

„Ég held að þeir séu tilbúnir til að hlusta núna. Það sem gerðist síðasta haust var það að sameiningarvettvangur hreyfingarinnar, sem er Alþýðusamband Íslands, varð óvirkur. Þá breyttist þetta í samkeppni einstakra verkalýðsfélaga, sem var erfið staða fyrir alla, bæði þá sem sömdu fyrst og þá sem komu á eftir.

Allir þeir sem tóku þátt í þeim leikþætti hljóta að hafa dregið einhvern lærdóm af, ég hef enga trú á öðru. Á Íslandi verða allir að sitja við sama borð í svona ákvörðunum.“

Hagfræði 101

Erlendis hafa launþegar að miklu leyti tekið á sig verðbólguna. Enn sem komið er hefur vinnumarkaðurinn ekki svarað verðbólgu með miklum launakröfum, sem hefur leitt til þess að raunlaun hafa lækkað og verðbólga gefið eftir.

En hér hefur það ekki verið þannig. Hér hafa launin ekki lækkað, laun bara hækkað í takt við verðbólgu og verðbólgan er ekki að gefa eftir. Það hefur þá leitt til þess að við beitum þeim tækjum sem við höfum.

Það ætti enginn að velkjast í vafa um það að stýrivextirnir virka hjá okkur. Og hafa virkað. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið væri ef við hefðum ekki hækkað vexti.“

Miðað við verðbólguna má halda fram að þú hafir verið allt of hóflegur.

„Algjörlega. Það er oft látið eins og Seðlabankinn sé að skemma fasteignamarkaðinn með því að hækka vexti og þrengja lántökuskilyrði. Ókei, en ef við hefðum ekki gert það, hvað hefði þá gerst? Vandinn liggur í of litlu framboði, svo þá hefði verðið hækkað enn frekar, væri kannski 30% hærra fasteignaverð og fólk gæti ekki keypt á því verði.

Vandamálið á fasteignamarkaði er skortur á framboði og of lítil eftirspurn. Bara hagfræði 101.

Við getum vel náð verðbólgu niður með þeim tækjum sem við höfum, bæði í peningamálum og fjármagnsstöðugleika. En það gæti hefnt sín með niðursveiflu. Sérstaklega ef við erum að fá launahækkanir ofan í vaxtahækkanir eins og sumir verkalýðsforingjar hafa hótað. Þá munum við fá yfir okkur kreppuverðbólgu, sem væri versta niðurstaðan.“

Er raunveruleg hætta á því?

Ég er alltaf bjartsýnn og ég tel að fólk hljóti að hafa dregið lærdóm af síðasta vetri. Það er ekki hægt að breyta hagfræðilögmálum með því að halda mótmæli á Austurvelli.

Fólk spyr: Af hverju eru stýrivextir á Íslandi hærri en annars staðar? Þá þarf að spyrja á móti: Af hverju eru laun á Íslandi að hækka helmingi meira en annars staðar? Það eru tengsl þarna á milli. Vextir á Íslandi eru helmingi hærri en annars staðar vegna þess að nafnlaunahækkanir eru helmingi meiri en annars staðar.

Þetta er ekkert flókið.“

Og þú heldur að þau skilji þetta núna?

„Ég á von á því. En það er ekki réttmætt að kenna verkalýðshreyfingunni sem slíkri um stöðuna, ekki að öllu leyti; það eru frekar viðbrögð verkalýðsforingja við henni sem eru ámælisverð. Að einhverju leyti erum við svo einnig að beita peningastefnunni til þess að bregðast við skorti á stefnumótun annars staðar.“

Eins og hvar?

„Til dæmis hvað varðar skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Að það skuli ekki hafa verið skipulögð ný hverfi í takt við fólksfjölgun, þó nóg sé af byggingarlandi. Eða að það skuli ekki hafa verið hugsað um að það sé ekki gott að láta ferðaþjónustuna njóta skattfríðinda þegar hún vex á þessum ógnarhraða, flytur inn vinnuafl og breytir samfélaginu. Þetta þarf að ræða í stað þess að bregðast með upphrópunum eða pópúlískum skyndilausnum.“

Ríkið leiðir

En hvað með aðgerðir stjórnarinnar?

„Ég held að þetta séu mjög góð skref sem hafa verið stigin og álít að fleiri fylgi á eftir. Ég geri ráð fyrir því að þegar hugað verður að fjárlagavinnunni í haust, þá verði jafnframt hugað að því að reyna að hemja ríkisútgjöld. Þegar tekjurnar eru að vaxa svona er auðveldara að ná tökum á ríkisútgjöldum. Það er erfitt að draga ríkisreksturinn saman, þetta er langtímarekstur í eðli sínu. En þetta eru tvímælalaust skref í rétta átt.“

Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu að ríkisstjórnin myndi styðja Seðlabankann í viðureign við verðbólguna. Hefurðu rætt það frekar?

„Nei, ekki með beinum hætti. Seðlabankinn setur ríkisstjórninni ekki línur og þetta eru reynslumiklir ráðherrar.“

En eitthvað kannski um vinnumarkaðinn, í ljósi þess að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, er stærsti vinnuveitandi landsins?

„Jú, þetta var vandi þegar opinberi markaðurinn var orðinn leiðandi varðandi launaþróun. Það er ekki æskilegt. Eða þegar sveitarstjórnir hafa leitt launahækkanir um leið og afkoma þeirra er mjög slæm. En almennt tel ég að ríkissjóður eigi að gæta þess að vera ekki leiðandi á vinnumarkaði, hvort sem er í ráðningum eða kjarasamningum.

Raunar tel ég að þessi stefna, sem var mörkuð með því að lækka kauphækkanir æðstu embættismanna, sé orðin stefnumarkandi fyrir markaðinn í heild. Það voru verkalýðsleiðtogar sem báðu um þetta og fengu, þá hlýtur að vera eðlilegt að það verði línan upp úr og niður úr.“

Höf.: Andrés Magnússon