Félag skipstjórnarmanna (FS) ákvað í síðasta mánuði að leggja til eina milljón króna í styrk til stuðnings við áframhaldandi þróun á öryggisstjórnunarkerfinu Öldunni og hafa þó nokkrar útgerðir lýst yfir vilja um fjárhagslegan stuðning til að klára fyrstu útgáfu kerfisins

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Félag skipstjórnarmanna (FS) ákvað í síðasta mánuði að leggja til eina milljón króna í styrk til stuðnings við áframhaldandi þróun á öryggisstjórnunarkerfinu Öldunni og hafa þó nokkrar útgerðir lýst yfir vilja um fjárhagslegan stuðning til að klára fyrstu útgáfu kerfisins. Í færslu á vef sínum hvetur FS ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) „alla hagaðila í sjávarútvegi til að leggja sitt af mörkum og styðja við þetta frumkvöðlastarf í nútímavæðingu á öryggismálum fiskiskipa og sjómanna“.

Aldan er öryggisstjórnarkerfi sem einfaldar til muna utanumhald í kringum æfingar, öryggisskoðanir og nýliðaþjálfun og hefur fengið mjög góðar viðtökur, jafnt hjá sjómönnum sem útgerðum. Um er að ræða forrit sem hannað er hér á landi og taka fimm útgerðir þátt í prófunum sem ná til 24 skipa og á fjórða hundrað sjómanna. Um er að ræða Vísi, Síldarvinnsluna, Skinney-Þinganes og Samherja.

Í kjarasamningi FS og SFS frá 9. febrúar er ákvæði um að starfrækja eigi sameiginlega öryggisnefnd sem á meðal annars að vinna að forvörnum, útbúa fræðsluefni, hvetja sjómenn til þess að skrá og tilkynna frávik í starfsemi, styðja við rannsóknir á slysum og leggja til úrbætur.

Fyrsta verk nefndarinnar var að kynna sér Ölduna. „Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með nýsköpunina og þróunina á öryggisstjórnunarkerfinu Öldu sem hefur þann tilgang að nútímavæða öryggisstjórnun til sjós með stafrænum lausnum,“ segir í færslunni.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson