Öryggi „Öllu saman stjórnaði Gunnsteinn Ólafsson af festu og öryggi og greinilegt að hann kunni verkið vel,“ segir í rýni um Carmina Burana.
Öryggi „Öllu saman stjórnaði Gunnsteinn Ólafsson af festu og öryggi og greinilegt að hann kunni verkið vel,“ segir í rýni um Carmina Burana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Carmina Burana ★★★★· Tónlist: Carl Orff. Hljómsveitarstjóri: Gunnsteinn Ólafsson. Einsöngvarar: Oddur Arnþór Jónsson, Herdís Anna Jónasdóttir og Þorsteinn Freyr Sigurðsson. Kórar: Háskólakórinn, Söngsveitin Fílharmónía, Kammerkór Tónlistarháskólans í Graz, Kór Akraneskirkju, Skólakór Kársness og Drengjakór Reykjavíkur. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Konsertmeistari: Vera Panitch. Tónleikar í Eldborg Hörpu fimmtudaginn 1. júní 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Carmina Burana var frumflutt í óperunni í Frankfurt í júní árið 1937 við fádæma undirtektir. Stuttu síðar skrifaði tónskáldið, Þjóðverjinn Carl Orff (1895-1982), útgefanda sínum og bað um að öllu sem hann hefði hingað til samið og komið hefði út á prenti yrði fargað; og hann bætti við: „Með Carmina Burana hefst hinn eiginlegi tónsmíðaferill minn.“ Verkin sem á eftir fylgdu, til að mynda Catuli Carmina (1947) og Trionfo Afrodita (1951), náðu hins vegar engan veginn sömu hylli og því má segja að Orffs sé minnst fyrir eitt tónverk (mörg tónskáld hafa mátt búa við minna). Vinsældir þess ná hins vegar langt út fyrir heim klassískrar tónlistar; upphafs- og lokakórinn, „O Fortuna (Ó, forsjón)“, hefur verið notaður í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tölvuleikjum svo eitthvað sé nefnt og hann er svo að segja hverju mannsbarni kunnur, hvort sem fyrir hendi er áhugi á klassískri tónlist eða ekki. Verkið er mjög reglulega á efnisskrá kóra og hljómsveita víða um heim og hljóðritanir skipta að minnsta kosti tugum.

Carmina Burana má þýða sem „söngvar frá Beuren“ en þar er vísað til klaustursins Benediktbeuren í Bæjaralandi. Þar varðveittist mikið handrit, skrifað á fyrri hluta 13. aldar, sem geymir safn veraldlegra kvæða á latínu og þýsku, að stórum hluta drykkjuvísur og kvæði um örlög og lífsnautnir. Höfunda er hvergi getið en talið er að efnið megi rekja til föruklerka, golíardanna, sem fóru úr einu þorpi í annað og sungu blautleg kvæði sem ekkert erindi áttu í guðsorðabækur. Klaustrið í Benediktbeuren var aflagt árið 1803 og komst handritið þá í varðveislu Hirðbókasafnsins í München. Kvæðin, yfir 250 talsins, voru fyrst prentuð í heild sinni árið 1847 en tæpri öld síðar (1930) kom út ný heildarútgáfa og úr henni valdi Carl Orff 24 kvæði til að tónsetja.

Orff hóf að semja Carmina Burana árið 1935 og lauk verkinu um ári síðar. Hann leitaði hófanna í fornum tónlistararfi (notar til að mynda kirkjutóntegundir í stað dúrs og molls) og laglínur eru oft spunnar úr því sem minnir kannski einna helst á þjóðlög. En þó svo að laglínur séu einfaldar og kórparturinn sé sunginn hómófónískt er verkið mjög rytmískt (og kallar til að mynda á stóran hóp slagverksleikara). Verkið er afar vel samið en reynir mjög á einsöngvara hvað raddsvið varðar, það er að segja barítón- og tenórparturinn er oft á jaðri þess sem er mögulegt að syngja, svo vel sé.

Það var húsfyllir í Hörpu fimmtudagskvöldið 1. júní þegar Carmina Burana var fært upp af Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt alls sex kórum (Háskólakórinn, Söngsveitin Fílharmónía, Kammerkór Tónlistarháskólans í Graz, Kór Akraneskirkju, Skólakór Kársness og Drengjakór Reykjavíkur) og þremur einsöngvurum, þeim Oddi Arnþóri Jónssyni, Herdísi Önnu Jónasdóttur og Þorsteini Frey Sigurðssyni. Öllu saman stjórnaði svo Gunnsteinn Ólafsson. Þetta var enginn smá hópur á sviðinu í Eldborg og pöllunum þar fyrir ofan en mér telst til að alls hafi ríflega 360 manns tekið þátt í flutningnum.

Það var enda kraftur í upphafskórnum og greinilegt að kórarnir voru vel þjálfaðir. Ég nefndi að ofan að laglínur væru býsna einfaldar en textinn er það ekki (sérstaklega í köflum þar sem tempóið er mjög hratt) en textaframburður kóranna var með miklum ágætum út verkið. Það var sérstaklega gaman að sjá Kór Kársness og Drengjakór Reykjavíkur bætast í hópinn í þriðja kafla verksins („Hirð ástarinnar“) og framlag þeirra, eins og hinna kóranna fjögurra, var ljómandi gott. Sjálfsagt hafa kórarnir æft verkið hver fyrir sig en á tónleikunum var samhljómurinn algjör og ástæða til þess að óska öllum kórstjórum til hamingju með flutninginn.

Af einsöngvurum mæðir mest á barítóninum en það hlutverk söng Oddur Arnþór Jónsson. Hann fór vel af stað og söng „Omnia sol temperat (Allt vermir sólin)“ gullfallega með mikilli dýnamík í fremur hægu tempói. Oddur átti hins vegar í vandræðum með hæðina í öðrum hluta verksins („Á kránni“), einkum í „Estuans interius (Ég brenn að innan)“, en á köflum liggur parturinn fyrir ofan það sem þægilegt getur talist fyrir raddsvið barítónsins, til að mynda í hendingunni sem hefst á orðunum „[N]on me tenent vincula (Fjötrar binda mig ekki)“ sem svo er endurtekin nokkrum sinnum við mismunandi texta eða þá blálokin þar sem stökkið fyrir einsöngvarann er gríðarstórt. Þrátt fyrir að hnökrar hafi verið á flutningnum hér og þar hjá Oddi Arnþóri hefur hann afar fallega rödd en parturinn er bara svo snúinn.

Það sama má segja um tenórhlutverkið í Carmina Burana; það er lítið en mjög snúið (fer heiltón upp fyrir háa c-ið) en Þorsteinn Freyr Sigurðsson flutti söng hins ólánsama svans („Cignus ustus cantat (Söngur svansins á teininum“) mjög vel og af öryggi (af efstu svölum Eldborgar). Herdís Anna Jónasdóttir söng sópranhlutverkið einnig vel og af innlifun. Fyrir minn smekk hefði mátt gera aðeins meira úr „In trutina (Á bláþræði)“, það er að segja draga kannski seiminn örlítið meira, en kaflinn var vel sunginn þrátt fyrir það.

Hljómsveitin lék vel en drukknaði á köflum undan ægikrafti kóranna (að minnsta kosti þar sem ég sat í salnum), þar af var leikur slagverks og páka einna eftirminnilegastur, enda listilega vel skrifaður af tónskáldinu. Öllu saman stjórnaði Gunnsteinn Ólafsson af festu og öryggi og greinilegt að hann kunni verkið vel, hvort sem um var að ræða kór-, hljómsveitar- eða einsöngsparta. Þannig fór hann til að mynda rækilega eftir þeim styrkleikabreytingum sem Orff merkir inn í raddskrána, sem og hraðabreytingum; hér má nefna sem dæmi glæsilegan flutning karlanna í kórunum á „In taberna quando sumus (Samverustund á kránni)“ en fleira mætti auðvitað tína til. Almennt séð var flutningurinn í hægara lagi, sem er vel, enda fékk tónlistin að njóta sýn til hins ýtrasta.

Það má kannski heita svo að kórarnir hafi að mestu verið skipaðir áhugafólki (það er að segja ekki atvinnusöngvurum) en fullyrða má að kvöldið hafi verið þeirra, enda kunnu tónleikagestir vel að meta flutninginn.